Ég sit hér í góðu yfirlæti suður í Nikósíu og þarf ekki að hafa nokkrar áhyggjur af leifum af jólamatnum vegna þess að ég eldaði engan slíkan og þar af leiðandi engar leifar. Að vísu var eitt og annað afgangs eftir Forláksmessuboðið mitt en sonurinn hirti það nú að mestu. En hér áður fyrr var ég stundum í vandræðum með að láta mér detta eitthvað í hug til að koma afgöngum í lóg – já, og ekki síður ýmsu sem ég hafði keypt til að nota smávegis af eða fékk gefins, því mér hefur alltaf verið meinilla við að henda mat. Svo að í staðinn fyrir uppskrift – það er ekki alveg kominn tími á hollustuna ennþá – ætla ég aðeins að tala um nýtingu.
(Hér er hluti af þeim 27 réttum sem voru bornir fyrir mig eina á aðfangadagskvöld; til allrar hamingju voru afgangarnir ekki mitt vandamál.)
Þið þekkið þetta: Maður syndir í alls kyns kræsingum um jólin, kaupir ýmiss konar góðgæti til að nota smávegis í einhvern jólarétt eða -köku, kaupir eitthvað og notar helling af því en það er samt nóg eftir og maður hefur einhvernveginn ekki lyst á þessu lengur eintómu – og svo koma matarkörfur og matargjafir, sumt eru engin vandræði með en annað veit maður ekkert í hvað á að nota.
Afgangurinn af jóla- eða áramótasteikinni er kannski ekki vandamál og hann er líka alltaf hægt að frysta til seinni tíma. Ostana sem maður torgar ekki er hægt að nota í pastasósur, út á pítsur, í gratín og alls konar rétti og hnetur og fleira slíkt geymist vel og kemur einhverntíma í góðar þarfir. Grænmetið passar fínt í alla hollusturéttina sem maður ætlar að elda eftir áramótin. En svo er annað sem maður getur lent í vandræðum með.
Hér eru dæmi um það sem ég átti sjálf afgangs eftir ein jólin (uppistaðan í þessu er pistill sem ég skrifaði fyrir MAN fyrir fáeinum árum) og nokkrar hugmyndir um nýtingu:
Tvíreykt hangikjöt – ég fæ heilt, heimareykt læri norðan úr Skagafirði fyrir hver jól og ber það fram hrátt, heilt og læt gestina skera sér af því. En þótt það sé hreinasta sælgæti og mjög vinsælt er alltaf einhver afgangur.
Ég sker kjötið af beini og frysti það í litlum skömmtum. Þá er hægt að taka það út eftir þörfum og nota í forrétti eins og þennan hér eða bara ofan á flatbrauð með klettasalati og góðum osti eða þurrkuðum ávöxtum – eða eitt sér með nokkrum dropum af góðu balsamediki. Það er einmitt best að skera það örþunnt ef það er hálffrosið.
En ef mikið er eftir af kjöti á lærinu, þykkir vöðvabitar, má líka einfaldlega sjóða það.
Þurrkuð trönuber – keypt til að nota í smákökur og salat.
Berin er hægt að nota í ýmiss konar smákökur, formkökur, salöt, sósur, múslíblöndur, paté og margt fleira – út í hafgragrautinn eða jógúrtina – alls staðar þar sem rúsínur eru notaðar, bæði í sæta og ósæta rétti. Þau eru líka falleg á litinn og skreyta marga rétti. Uppskriftir sem innihalda þurrkuð trönuber má meðal annars finna hér.
Ef er afgangur af ferskum trönuberjum eru þau mjög fín í áramótarauðkálið eða til dæmis í chutney eins og þetta hér.
Sultaður engifer – keyptur til að nota í kryddköku.
Tilvalið að saxa hann smátt og nota í ýmsar kökur og smákökur þar sem óskað er eftir sætu engiferbragði. Einnig má hafa hann út á ís, ásamt leginum úr krukkunni. Hann fer sérlega vel með rabarbara, t.d. í böku eða jafnvel graut. Geymist árum saman í krukkunni.
Lauksulta – í gjafakörfum, bæði keypt og heimatilbúin.
Hún getur auðvitað verið mjög góð á ristuðu brauði, ein sér eða með osti eða paté, en maður fær nú leið á henni. Það má líka nota hana með steiktu kjöti og sumum fiski, á buff og hamborgara og mér finnst hún sérlega góð með steiktri lifur. Það má líka hræra henni saman við rjómaost eða sýrðan rjóma og nota sem ídýfu.
Reyktur lax – er oft í matarkörfum eða maður kaupir of mikið til að hafa í forrétt.
Maður getur orðið leiður á að hafa hann bara ofan á brauð. En það má nota hann í pastarétti (t.d. eins konar carbonara) á pítsur og í bökur, í ommelettu, setja hann í matvinnsluvél með rjómaosti og kryddjurtum og búa til smurpaté, gera vefjur úr tortillakökum, rjómaosti, laxi og dilli eða klettasalati … Reyktan lax má frysta og þá er best að skipta honum í frekar litla skammta og nota eftir hendinni. Hér má finna eitthvað af uppskriftum.
Grautargrjón – keypt fyrir möndlugraut eða ris a l’amande.
Þessi stuttkorna hrísgrjón henta auðvitað fyrst og fremst í grjónagrauta og hrísgrjónabúðinga en það er hægt að skapa alls konar afbrigði, til dæmis setja grautinn í litlar leirskálar, strá sykri yfir og brenna eins og crème brulee; baka hann í ofni og bera fram sem búðing með berjum eða ávöxtum, eða með karamellusósu; sjóða grjónin og nota þau svo í lummur og bera fram með góðri sultu.
Límónumarmilaði – ég fæ það oft gefins af einhverri ástæðu.
Fínt á ristað brauð með osti, auðvitað, og á kökur þar sem óskað er eftir frísklegu sítrusbragði. En mér finnst líka upplagt að smyrja því á laxaflak, strá söxuðum hnetum og e.t.v. kryddjurtum yfir og hægbaka. Svo má smyrja því á kjúklingabringur (kannski blanda ögn af chili saman við) og steikja í ofni. Eða setja 2-3 teskeiðar út í salatdressingu. Hið sama gildir um ýmsar aðrar tegundir af marmilaði og kryddmauki.
Grófkorna sinnep – keypt til að hafa með jólaskinkunni, eða bara heimagert.
Til að bragðbæta kaldar og heitar sósur, pottrétti og fleira; til að smyrja á kjöt fyrir steikingu eða nota í maríneringar; blandað saman við hakk í buff eða hamborgara; hrist með ögn af rauðvínsediki og/eða sítrónusafa, hvítlauk, og ólífuolíu og notað sem dressing á lárperur eða grænt salat; notað til að bragðbæta kartöflustöppu.
Kokkteilber – hef keypt þau til að nota í ávaxtaköku en held ég eigi margra ára birgðir núna.
Nei, ekki einu sinni mér dettur neitt spennandi í hug til að nota kokkteilberin í.
Kokkteilber eru voðalega góð út í ís! Steinhætta að vera svona væmin. Sama með vondu molana í nóakonfektinu og makkintossinu, ég bjó til ís með jarðarberjamolunum í fyrra og hann var bara hörkufínn!
Hér áður fyrr gerði ég stundum jólaís með söxuðum kokkteilberjum og súkkulaði. En svo fannst mér gervimöndlubragðið alltaf of mikið. (Skoðun mín á möndludropum er alþekkt.)