Ég hef lítið staðið í eldamennsku síðustu dagana (en er búin að baka fáeinar smákökusortir). Þetta stendur allt til bóta um helgina, held ég, en hér er smáuppskrift sem ég átti til af því að ég gerði þetta fyrir Vikuna á dögunum. Ég fékk mér hangikjötssalat í gær en þetta er allt öðruvísi hangikjötssalat.
Þetta er jólalegur forréttur sem er tilbrigði við uppskrift í Jólamat Nönnu. Þar nota ég meðal annars hráskinku og pistasíur en hérna var ég með hrátt taðreykt sauðahangikjöt. Það kemur til greina að ég verði með eitthvað svipað á aðfangadagskvöld en þá yrði mögulega grafin gæsabringa eða eitthvað ámóta (mig minnir að það sé ein í frystiskápnum). Ekki hangikjöt, það verður á Þorláksmessuhlaðborðinu daginn áður (hrátt) og svo á jóladag (soðið).
En svo getur líka verið að það verði eitthvað allt annað.
Kosturinn við forrétt af þessu tagi er að það þarf ekkert að gera á síðustu stundu og ég get einbeitt mér að aðalréttinum og meðlætinu með honum. Jafnvel þótt ég reyni yfiræleitt að vinna mér eitthvað í haginn og gera eins mikið og ég get fyrirfram er alltaf ansi margt sem þarf að gera rétt áður en maturinn fer á borðið og þá er lítill tími aflögu í snöggeldaðan forrétt, jafnvel þótt valið sé eitthvað sem lítið þarf að dúlla við.
Það er hægt að skera allt niður sem þarf að skera og blanda því svo bara saman á síðustu stundu (eða líka blanda öllu saman nema kannski klettasalatinu, það er verra að það bíði í einhverja klukkutíma) og dreypa sósunni yfir rétt áður en það er borið fram. Ég vil helst setja þetta á diska og bera fram þannig en það má líka setja allt á fallegt fat eða disk og láta hvern taka fyrir sig. Og svo kannski brauð með – ég mundi líklega hafa heimabakað baguette eða ciabatta, skorið í þunnar sneiðar og ristað á þurri pönnu.
Ég tók engar myndir af undirbúningnum, hér er bara mynd af réttinum tilbúnum á diski.
Miðað við fjóra mundi ég nota 80-100 g af góðu tvíreyktu hangikjöti – þetta er sauðahangikjöt úr Mývatnssveit sem ég átti til, 5-6 þurrkaðar apríkósur (mjúkar, ekki harðþurrkaðar), 4-5 gráfíkjur (líka mjúkar), væn lúka af klettasalati og 1/2 granatepli. Ég skar hangikjötið í þunnar, litlar sneiðar (best að það sé hálffrosið, þá gengur betur að skera það þunnt) og apríkósurnar og gráfíkjurnar í bita eða þunnar sneiðar og blandaði saman við klettasalatið á diskum. Svo skóf ég fræin úr granateplinu og stráði þeim yfir.
Svo hrærði ég saman 2 msk af góðri olíu, 2 tsk af góðu balsamediki, nokkra dropa af hlynsírópi og ögn af pipar og salti og dreypti yfir. – Ég notaði blöndu af hnetu- og truffluolíu, 40 ára gamalt balsamedik og ekta kanadískt hlynsíróp, af því að ég átti þetta allt til – en það er nú ekki bráðnauðsynlegt …
Er þetta ekki voða jólalegt allt saman?
Hangikjötssalat með ávöxtum og granateplum
80-100 g tvíreykt hangikjöt
5-6 þurrkaðar apríkósur
4-5 gráfíkjur
lófafylli af klettasalati
½ granatepli
2 msk góð olía
2 tsk gott balsamedik
nokkrir dropar af hlynsírópi
pipar
salt
[…] í litlum skömmtum. Þá er hægt að taka það út eftir þörfum og nota í forrétti eins og þennan hér eða bara ofan á flatbrauð með klettasalati og góðum osti eða þurrkuðum ávöxtum – eða […]