Kökurnar sem ég baka alltaf – líka þegar ég baka ekki

Ég var í bökunarstuði i dag og bakaði nokkrar sortir til jólanna – eða reyndar meira fyrir jólaföstuna og svo Þorláksmessu. En ég ætla nú að sjá til þess að það verði allavega nokkrar af kökunum sem hér er uppskrift að eftir til að narta í með kaffinu á aðfangadagskvöld.

Þessar kökur eru einu smákökurnar sem ég baka alltaf fyrir hver einustu jól. Það er önnur tegund sem ég baka oftast nær, brúnu kókosmjölskökurnar sem ég hélt svo mikið upp á þegar ég var krakki (og geri enn, jújú) en það er líka að hluta til nostalgía. Þessar baka ég fyrst og fremst vegna þess að mér þykja þær svo góðar. En uppskriftirnar að þeim báðum eru í Jólamat Nönnu. Allt annað sem ég baka – hvort sem það er mikið eða lítið, og það er mjög misjafnt eftir árum – er breytilegt.

Eins og ég nefndi á dögunum bakaði ég engar smákökur fyrir jólin í fyrra. Nema hundakex. En ég var búin að búa til deigið í þessar þegar ofninn klikkaði og bakaði þær bara eftir jólin í staðinn, sjálfri mér og ákveðnum afkomendum mínum til gleði því við sátum þá ein að þeim …

Ég man ekki hvar ég fékk þessa uppskrift fyrst, held ég hafi fundið hana í einhverju dönsku eða þýsku blaði fyrir 25-30 árum en sú uppskrift var reyndar ekki alveg eins. Nokkrum árum seinna keypti ég þýskt kökublað og þar var uppskrift að mjög svipuðum kökum sem voru sagðar ættaðar frá Alsace. Uppskriftin sem ég nota núna og hef gert í mörg mörg ár er sambland af þessum tveimur.

Ég man ekki alveg hvernig ég fór að í fáein ár þegar ég átti ekki matvinnsluvél því mér finnst nauðsynlegt að nota nýmalaðar hnetur í kökurnar, bæði vegna þess að þær eru mun bragðbetri og svo eru þessar sem hægt er að kaupa (eða fást annars ekki malaðar heslihnetur lengur?) alls ekki nógu fínmalaðar. Líklega slapp ég með að nota blandara.

IMG_8906Allavega, ég byrjaði á að hræra 250 g af linu smjöri og 150 g af sykri vel saman. Setti svo eitt egg út í og hrærði því saman við.

IMG_8908Svo setti ég 200 g af heslihnetum í matvinnsluvélina og malaði þær fínt, næstum í duft.

IMG_8915Svo setti ég hnetumjölið út í deigið, ásamt 400 g af hveiti, 1 tsk af lyftidufti og 1/2 tsk af kanel og lét hrærivélina ganga rólega þar til allt var vel blandað saman og deigið hafði hnoðast og loddi allt saman.

IMG_8920Deigið er frekar lint og rakt, ætti ekki að klessast við hendur en klessist aftur á móti trúlega við vinnuborðið. – Þegar mér hefur legið mikið á hefur komið fyrir að ég hef flatt það út og bakað úr því strax (og þá þarf að strá miklu hveiti á borðið og deigið) en það er langbest að láta það standa í kæli í að minnsta kosti klukkutíma – ég hef líka geymt það í tvær til þrjár vikur vel innpakkað án þess að kæmi að sök. Svo að ég mótaði það í svera lengju, vafði bökunarpappír utan um og setti í ísskápinn í svona tvo klukkutíma.

IMG_8961Þá hitaði ég ofninn í 200°C og tók deigið úr kæli. Mér finnst langþægilegast að fletja bara út lítinn bút í einu. Ég stráði hveiti á vinnuborðið (eða öllu heldur marmaraplötuna sem ég nota í allt svona) og ofan á deigið og flatti það þunnt út, í svona 2 mm þykkt. Það er dálítið vesen vegna þess hvað deigið er laust í sér og rifnar auðveldlega en á móti kemur að það er þá ekkert mál að þrýsta sprungum og rifum saman aftur með fingurgómunum. Og þegar ég tek nýjan deigbita hnoða ég alltaf allan afskurðinn frá útflatningunni á undan saman við, þannig nýtist deigið best.

Það er um að gera að nota hæfilega mikið hveiti, rétt eins og þarf til að deigið festist ekki við kökukeflið, en ekki of mikið því þá verður deigið þurrt og kökurnar ekki eins stökkar og góðar.

IMG_8972Ég sting kökurnar út með tveimur járnum. Helminginn með þessu hér, sem er svona 4-5 cm í þvermál – það má líka nota járn sem er með sléttum brúnum.

IMG_8977Og hinn helminginn með þessu hér, sem ég er reyndar tiltölulega nýlega búin að eignast og gerir gat í miðjuna um leið og það stingur stærri hringinn. Áður en ég eignaðist það stakk ég allar kökurnar út með sama járninu og gerði svo gat í miðjuna á helmingnum, framan af með fingurbjörg en á seinni árum notaði ég kjarnstungujárn (verkfæri sem er ætlað til að stinga kjarna úr eplum). Eða bara eitthvert hentugt verkfæri.

IMG_8990Þetta ættu að verða svona 75-80 kökur af hvorri gerð um sig. Ég raðaði þeim jafnóðum á pappírsklædda bökunarplötu – þær mega vera þétt, renna ekkert út, og ég set svona 30 kökur á hverja plötu – og bakaði þær efst í ofni í um 5 mínútur. Þær eiga að vera rétt aðeins að byrja að taka lit – og þó varla.

Í mörg mörg ár tókst mér næstum alltaf að brenna fyrstu plötuna í hverjum skammti því ég gleymdi því alltaf hvað kökurnar eru rosalega fljótar að bakast (en það fer auðvitað líka eftir því hvað þær eru þunnt flattar út). En núna lukkast þetta yfirleitt.

IMG_9011Svo þegar kökurnar voru orðnar kaldar bræddi ég 300 g af mjúku núggati í vatnsbaði, setti dálitla slettu (hálfa til eina teskeið) af núggati á hverja af heilu kökunum og lagði gataköku ofan á. Ekki þrýsta kökunum fast saman.

IMG_9027Raðaði svo kökunum á bretti og lét þær standa þar til núggatið hafði storknað. Þá raðaði ég þeim í kökubauk og hafði vaxpappír (eða bökunarpappír) á milli. Ég þarf ekki lengur að fela dósina eins og ég þurfti hér áður fyrr …

En þær eru samt alveg jafngóðar og þær hafa alltaf verið.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s