Gömul og góð

Ég baka ekkert óskaplega mikið fyrir jólin þótt ég hafi stundum gert það áður fyrr. Fyrir því eru ýmsar ástæður en samt ekki þær tvær sem ættu kannski að vera sjálfsagðastar: a) ég er hætt að borða kökur og b) ég er hætt að halda jól. En nei, það er ekkert þess vegna – ég get alveg bakað fyrir aðra þótt ég sneiði hjá sykri (og svo eru auðvitað til sykurlausar kökur en ég er nú eiginlega hætt að borða þær líka). Og ég býð upp á dálítið af kökum í Forláksmessuboðinu mínu (sem haldið er fyrir jól, áður en ég fer úr landi). Svo að ég baka smávegis ennþá. En það er markmið hjá mér að allt bakkelsi klárist fyrir jól. Kökur eru til að borða á jólaföstunni, það er nóg annað í boði um jólin.

En ég er að mestu hætt tilraunastarfsemi og þær kökur sem ég býð upp á fyrir jólin eru flestar fastagestir, eitthvað sem ég hef bakað mörg jól. Kannski skipti ég út einni smákökusort eða tveimur, ef ég er í skapi til þess, en annars eru þetta kókosmjölskökur, núggatkökur, súkkulaðibitakökur (mismunandi uppskriftir samt), buffhamarskökurnar hennar Valgerðar langömmu og kannski lakkrís-súkkulaðikökur af því að sumum í fjölskyldunni þykja þær dálítið góðar. Og svo eru hér nokkur góð ráð um smákökubakstur. En ég er svo óþjóðleg að ég baka hvorki sörur né lakkrístoppa.

Aðrar kökur eru komnar í enn fastari skorður. Ég baka ávaxtaköku (reyndar ekki alltaf, og ég er eiginlega orðin of sein núna en það mundi samt sleppa að gera það um helgina, sé til með það) og jóladrumb, hann má alls ekki vanta. Og gamaldags íslenska vínartertu, kardimommukryddaða með krydduðu sveskjumauki, sem bráðnar í munni. Ég hugsa að ég baki hana um næstu helgi, það passar að láta hana bíða í svona þrjár vikur. Og svo sker ég í hana og horfi á hana, öll lögin (aldrei færri en fimm) og dökkbrúnt sveskjumaukið á milli, pínulítið seigt á milli þunnra, molnandi botnanna, og þá finn ég bragðið í munninum, finn hvernig kakan og maukið bráðna saman – en ég stenst freistinguna. Eða hef gert það hingað til.

Þetta er (nokkurn veginn) útgáfan sem fluttist með landnemum til Kanada á síðasta fjórðungi nítjándu aldar og hefur orðið þekkt þar, orðið vinarterta hefur meira að segja verið tekið inn í orðabækur. Botnarnir eru þunnir því að á þessum tíma voru ofnar mjög óvíða en það var hægt að baka botnana á lokaðri pönnu. Og það var alltaf sveskjumauk því að þegar tertan varð fyrst vinsæl var ekki farið að rækta rabarbara hér. Og mér finnst sveskjuútgáfan betri þótt ég sé alin upp við rabarbarasultu.

Ég baka alltaf kringlótta köku en auðvitað má hafa hana rétthyrnta líka – og tvöfalda þá e.t.v. uppskriftina til að fá stærri botna. Og auðvitað duga fjögur lög en ég hef þau fimm og allt upp í sjö.

Vínarterta - layered cake with prune compote

Uppskriftin er úr bókinni Ömmumatur Nönnu.

*

Vínarterta

225 g smjör, lint

225 g sykur

2 egg

500 g hveiti (meira ef þarf)

1 tsk lyftiduft

1 tsk kardimommur, helst nýmalaðar (það munar öllu, trúið mér)

4 msk mjólk

sveskjumauk, sjá uppskrift (eða rabarbarasulta)

 

Hrærðu smjör og sykur vel saman og hrærðu svo eggjunum saman við. Hrærðu svo hveiti, lyftidufti og kardimommum saman við deigið ásamt mjólkinni. Hnoðaðu deigið þar til það er slétt og bættu hveiti við ef þarf – deigið á að vera fremur mjúkt en ekki svo að það klessist við hendurnar. Kældu það í a.m.k. hálftíma. Hitaðu ofninn í 190°C. Skiptu deiginu í fimm hluta, flettu hvern um sig út í hring og skerðu kringlóttar kökur undan diski. Settu botnana á pappírsklæddar plötur (ég rétt kem tveimur á hverja plötu en það fer auðvitað eftir því hvað diskurinn er stór) og bakaðu ofarlega í ofni í 9-10 mínútur, eða þar til þeir eru aðeins að byrja að taka lit. Láttu þá kólna í örfáar mínútur en best er að leggja kökuna saman á meðan hún er volg og sveskjumaukið líka. Smyrðu maukinu á fjóra af botnunum og leggðu kökuna saman.

Vínarterta2.JPG

Sveskjumauk

500 g steinlausar sveskjur

175 g sykur

2 tsk kanell

1 tsk kardimommur, helst nýmalaðar (má sleppa eða nota t.d. engiferduft)

200 ml vatn

 

Settu allt í pott og láttu malla rólega þar til sveskjurnar eru að fara í mauk og nær allur vökvi gufaður upp. Láttu kólna ögn og maukaðu svo í matvinnsluvél. Ef maukið er mjög þykkt má þynna það aðeins með vatni (það á á vera svo þykkt að það renni ekkert út en það þarf þó að vera hægt að smyrja því á botnana).

Ekta ömmujól …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s