Lakkrísdrengurinn

Það kemur að því bráðlega að ég þurfi að fara að byrja aftur á jólabakstrinum. Jafnvel þótt ég ætli ekki að halda jól – allavega ekki hér á landi – þá langar mig nú að baka eitthvað smávegis, svona til að fá kökulykt í húsið og til að eiga eitthvað í Þorláksmessuboðið mitt. Eða Forláksmessuboðið, því það verður fyrr en venjulega út af utanlandsferðinni.

Mér finnst spennandi að breyta svona rækilega til. En þannig er ég, svo eru aðrir sem vilja helst hafa allt nákvæmlega eins frá ári til árs, sama matinn, sama meðlætið (líka þetta sem engum finnst í rauninni gott en er samt gert af því að það er alltaf og mamma gerði það svona og þetta verður að vera af því að það eru jólin …), sama forréttinn og eftirréttinn, sömu kökurnar með kaffinu. Sem er bara allt í fína ef allir eru sáttir.

En fyrir þá sem langar að breyta til, kannski bara finna nýjar uppskriftir að hefðbundnum jólamat, nýtt meðlæti eða bara eitthvað allt öðruvísi – eða þá sem eru kannski að sameina ólíkar jólahefðir í nýrri fjölskyldu og vantar hugmyndir og lausnir – þá langar mig að benda á þessa bók hér, sem ég sendi frá mér fyrir jólin 2011 og er enn fáanleg í bókabúðum:

Screen Shot 2014-12-11 at 9.03.34 PM

Þetta var plögg dagsins.

En nóg um það. Ég sá í gær að danski lakkrísgaurinn Johan Bülow hafði verið kosinn – æ, hvað var það nú aftur? Frumkvöðull ársins? Krúttmoli ársins? Nei, það var víst leiðtogi ársins í Danmörku. Ég hef áður minnst á hann og lakkrísinn hans, sem mér finnst dálítið góður, satt að segja, og birt uppskrift að lakkrísköku og lakkrístrufflum.

Hér kemur játning: Ég er svo óþjóðleg að ég baka hvorki lakkrístoppa né sörur. Kannski er það skýringin á því að ég ætla að sleppa jólunum; ég er ekki með lakkrístoppa- og sörubakstursgenið, sem mér sýnist nánast samnefnari jólanna hjá sumum. Ég borða ekki einu sinni lakkrístoppa (en fæ mér einstöku sinnum eina söru, ef hún er lítil). Ég er vissulega hrifin af lakkrískeim af kökum en ekki af lakkrísbitum (já, ég veit að margir eru á öðru máli)

En þegar ég var að gera smákökur fyrir nóvemberblað MAN bjó ég til þessar stökku lakkrískökur, sem mér þóttu ansi góðar. Maður finnur ekki mikið lakkrísbragð fyrst þegar bitið er í kökuna en eftirbragðið er sérlega gott.

_MG_1934

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo hrærði ég saman 75 g af linu smjöri, 100 g af sykri og 100 g af púðursykri. Ég hafði verið að baka marens og átti þrjár eggjarauður afgangs svo að ég ákvað að nota þær bara. Líklega mætti samt eins nota eitt heilt egg, ef það er stórt. En svo má líka slá tvær flugur í einu höggi, nota hvíturnar í lakkrístoppa og rauðurnar í þessar kökur …

_MG_1943

Svo náði ég í dósina með lakkrísduftinu frá Johan Bülow (keypt í Vínberinu, fæst líka í Epal og víðar, en svo er líka hægt að nota annað lakkrísduft, t.d. úr Tiger – munið bara að kaupa lakridspulver en ekki lakridsrodspulver, það er ekki eins).

_MG_1940

Ég hrærði 2 tsk af duftinu saman við deigið, ásamt 150 g af hveiti, ½ tsk af lyftidufti og salti á hnífsoddi.

_MG_1948

Að lokum saxaði ég 60 g af suðusúkkulaði fremur smátt og blandaði því saman við.

_MG_1955

Ég mótaði svo kúlur úr deiginu – þær voru á stærð við stór vínber og ég fékk svona 35 kökur úr þessu – og flatti þær aðeins út á milli lófanna. Raðaði þeim á pappírsklædda bökunarplötu með dálitliu millibili og bakaði þær á efstu rim í ofninum í 6-7 mínútur, eða þar til þær voru rétt að byrja að taka lit.

_MG_2339

Það er best að fylgjast vel með kökunum síðustu mínútur bökunartímans því þær eru fljótar að dökkna. Ég lét þær kólna aðeins á plötunni og færði þær svo yfir á grind og lét kólna alveg.

_MG_2348

Lakkríssmákökur með súkkulaði

Um 35 kökur

75 g lint smjör

100 g sykur

100 g púðursykur

3 eggjarauður

150 g hveiti

½ tsk lyftiduft

2 tsk lakkrísduft

salt á hnífsoddi

60 g suðusúkkulaði

200°C í 6-7 mínútur.

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s