Inn, út, inn, út …

Eins og margsinnis hefur komið fram hef ég ekki komist upp með i mörg ár að hafa annað í matinn á aðfangadagskvöld en andabringur, þótt ég hafi reynt að gera smáuppreisn með mismunandi meðlæti, forréttum og eftirréttum. Eitt árið reyndu samt barnabörnin að sannfæra mig um að það væri sko óbreytanleg hefð hjá okkur að hafa humarsúpu í forrétt, hún væri alltaf (hún hafði verið jólin á undan) en ég lét mig ekki; heldur ekki þegar sonurinn fullyrtið að jólin væru ónýt ef hann fengi ekki þrílitan súkkulaðiís.

Þannig að það er frekar á nýársdag sem ég hef fengið að ráða með aðalréttinn. í fyrra var ég reyndar með nokkra mismunandi fuglakjötsrétti, aðallega af því að ég fór að gramsa í frystiskápnum og fann ýmislegt en ekkert í nægilegu magni til að vera aðalréttur eitt sér – kalkúnabringu, stokkönd, skoska rjúpu, lynghænu og kannski eitthvað fleira, og svo gæsabringur.

Þær voru reyndar ekki á meðal þess sem ég fann, ég hafði þegar tekið þær úr frosti til að nota þær í myndatökur um áramótin. Ég var að taka myndir fyrir bók mína Icelandic Food and Cookery og þar eru uppskriftir að bæði steiktum gæsabringum og gröfnum gæsabringum. Grafna bringan er hér en nú ætla ég að setja hér uppskrift að steiktu bringunum (ókei, þetta var bara ein bringa eins og sést á myndunum en uppskriftin er samt miðuð við fjóra og ég ætla þess vegna að tala í uppskriftinni eins og þær hafi verið fleiri, vona að það sé ekki mjög ruglandi).

IMG_8258

Ég byrjaði á að blanda saman kryddinu sem ég ætlaði að nota á bringurnar (eða auðvitað byrjaði ég á að taka bringurnar úr frosti og láta þær þiðna í ísskápnum, en það þarf nú kannski ekki að nefna – já, og svo tók ég þær út hálftima áður en eldamennskan hófst því ég vildi hafa þær við stofuhita). Kveikti svo á ofninum og stillti á 200°C.

Svo blandaði ég saman ½ tsk af þurrkuðu timjani, ¼ tsk af þurrkuðu rósmaríni, ¼ tsk af kóríanderfræjum, grófsteyttum, ½ tsk af piparkornum, grófsteyttum og slatta af flögusalti. Svo má auðvitað nota annað krydd eða kryddjurtir eftir smekk en þetta var nú það sem ég kaus að nota í þetta skipti.

IMG_8260

Ég þerraði bringurnar með eldhúspappír og nuddaði þær svo vel með kryddinu. Hitaði 2 msk af ólífuolíu og 2 msk af smjöri á pönnu, setti bringurnar á hana og brúnaði þær í um 2 mínútur við góðan hita á annarri hliðinni. – Ég notaði steypujárnspönnu sem þolir mjög vel að fara í ofninn en ef pannann sem maður notar þolir það ekki er best að færa bringurnar þegar búið er að brúna þær yfir í eldfast fat sem búið er að hita og þá er gott að setja það bara í ofninn um leið og bringurnar fara á pönnuna. Ef maður notar pönnuna áfram er best að hella umframfitu af henni í lítinn pott áður en hún er sett í ofninn, það er til að nota í sósuna.

IMG_8263

Ég sneri þeim svo og brúnaði þær í um tvær mínútur á hinni hliðinni.

IMG_8265

Ég setti svo pönnuna í ofninn og hafði hana þar í fimm mínútur. Tók hana þá út, breiddi álpappír yfir og lét standa í fimm mínútur. Setti hana svo aftur í ofninn í 3-5 mínútur (tíminn fer svolítið eftir því hvað bringurnar eru þykkar og hvað maður vill hafa þær mikið steiktar).

IMG_8266

Svo tók ég bringurnar aftur út, breiddi álpappír yfir og lét þær standa í um 5 mínútur áður en ég skar þær (eða bar fram, ef ég hefði ætlað að hafa þær heilar).

Á meðan ég var að vesenast með bringurnar í þessu inn-út-dæmi (sem er gert til að fá jafna og góða steikingu og kjöt sem er rautt og safaríkt og jafnt steikt) bjó ég tiil sósuna. Ég hitaði 1/2 l af villibráðarsoði (heimagerðu eða bara vatn og villibráðarkraft. Tók svo pottinn sem ég hafði hellt fitunni í (ef bringurnar voru settar í eldfast fat er fitan enn á pönnunni og þá má bara búa sósuna til á henni), hitaði fituna, stráði 2 msk af hveiti yfir og hrærði þar til það fór aðeins að brúnast. Þá hrærði ég heitu soðinu smátt og smátt saman við og bakaði sósuna upp. Lét hana malla í nokkrar mínútur, smakkaði og bragðbætti með pipar og salti. Svo má setja ýmislegt annað út í eftir smekk, t.d. teskeið af rifsberjahlaupi, svolítið sinnep, púrtvín, rjómaskvettu eða annað.

IMG_8298

Ég skar svo bringurnar í sneiðar á ská og raðaði á fat. Bar sósuna fram með þeim, ásamt brúnuðum kartöflum (nú, eða steiktum), waldorfsalati og klettasalati og skreytti með rifsberjum.

IMG_8328

Steiktar gæsabringur

3-4 villigæsabringur

½ tsk þurrkað timjan

¼ tsk þurrkað rósmarín

¼ tsk kóríanderfræ, grófsteytt

½ tsk piparkorn, grófsteytt

flögusalt eftir smekk

2 msk ólífuolía

2 msk smjör

2 msk hveiti

500 ml villibráðarsoð

e.t.v. rifsberjahlaup, rjómi, sinnep eða annað til að bragðbæta sósuna

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s