Gráfíkjuminningar

Ef þið hafið einhverntíma lesið eitthvað af barnabókum sem gerast í sveit (og það er ekki svo langt síðan eiginlega allar barnabækur gerðust í sveit) á nítjándu öld eða snemma á þeirri tuttugustu vitið þið að gráfíkjur og rúsínur voru helsta sælgæti sveitabarna í þá daga. Ég allavega las ótal sögur þar sem börn söfnuðu hagalögðum (það eru ullartjásur sem ærnar hafa misst af sér á víðavangi) og sendu svo samtíninginn í pokaskjatta þegar bóndinn fór í kaupstaðinn og fengu dálítið af gráfíkjum og rúsínum til baka.

Ég tíndi hagalagða þegar ég var krakki og þeir voru sendir í sérpoka í kaupfélagið á Króknum með hinni ullinni. En ef ég man rétt voru aurarnir fyrir þá bara lagðir inn á reikninginn minn í Kaupfélagi Skagfirðinga þar sem þeir brunnu líklega meira eða minna upp í verðbólgunni eins og annað. Ég hefði frekar átt að éta þá upp.

En gráfíkjur og rúsínur voru samt hluti af nammi bernskunnar. Það var ekkert verið að fara í búð daglega eða á nammibar á laugardögum og við fengum ekki oft sælgæti, nema pabbi kom yfirleitt með súkkulaðistykki á laugardögum (hann vann úti á Krók alla vikuna) sem við systkinin skiptum á milli okkar. Og svo átti mamma yfirleitt gráfíkjur og rúsínur í búrinu, og reyndar sveskjur líka og stundum gaf hún okkur svolítið af þessu góðgæti. Og stundum stálumst við í það. Eða allavega ég, ekki ætla ég að fara að bera það upp á systkini mín. En ég gerði það.

Rúsínurnar voru notaðar í ýmiss konar bakkelsi og þær og sveskjurnar í sætsúpur og þess háttar, ásamt reyndar öðrum þurrkuðum ávöxtum. Gráfíkjurnar voru aðallega notaðar í gráfíkjutertu. Einhvernveginn fannst mér þær meira í átt að sælgæti en hinir ávextirnir og það eimir svolítið eftir af þessu enn. Og þegar ég ákvað um daginn að útbúa tilbreytingu við hefðbundnar súkkulaðibitakökur  og nota einhverja þurrkaða ávexti voru gráfíkjur það fyrsta sem mér datt í hug. Uppskriftin var gerð fyrir nóvemberblað MAN.

Já, og eitt (og þetta segi ég bara af því að ég hef heyrt talað um ,,ferskar gráfíkjur“): Fersku aldinin heita fíkjur (og kosta morð fjár þegar þær fást hér og eru allt of gamlar og mjöööög langt frá því að vera peninganna virði – en eru sælgæti nánast beint af trénu). Gráfíkjur er eingöngu heiti á þurrkuðu ávöxtunum. Þær sem ég ólst upp við voru nokkuð mikið þurrkaðar, hálfharðar og þufti oftast að leggja í bleyti fyrir notkun. En núna fást mjúkar (hálfþurrkaðar) gráfíkjur sem eru miklu betri. Ef gráfíkjurnar eru ekki mjúkar er best að skera þær nokkuð smátt.

_MG_1958

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og hita hann 180°C. Svo hrærði ég saman 175 g af linu smjöri, 100 g af sykri og 100 g af púðursykri og hrærði svo tveimur eggjum saman við, öðru í senn, ásamt 1 tsk af vanilluessens.

_MG_1961

Svo blandaði ég saman 225 g af hveiti (má vera heilhveiti), 75 g af hafragrjónum, 1 tsk af matarsóda og salti á hnífsoddi og hrærðu því saman við smjör/sykurblönduna. Gætti þess þó að hræra ekki meira en þurfti til að blanda vel saman.

_MG_1965

Svo saxaði ég 100 g af dökku súkkulaði og 100 g af gráfíkjum og blandaði saman við. Setti deigið með teskeið á tvær pappírsklædar bökunarplötur – þetta urðu um 40 kökur – og bakaði þær á næstefstu rim í ofninum 8-10 mínútur, eða þar til þær voru aðeins farnar að taka lit.

_MG_1992

Ég lét þær kólna í 2-3 mínútur á plötunni og færði þær svo yfir á grind og lét þær kólna alveg.

_MG_2289

Þetta eru fljótlegar og einfaldar kökur og mér þykja þær ansi góðar. Þær geymast nokkuð vel í lokuðu íláti.

_MG_2297

Gráfíkju- og súkkulaðibitakökur

175 g smjör, lint

100 g sykur

100 g púðursykur

2 egg

1 tsk vanilluessens

225 g hveiti

75 g hafragrjón

1 tsk matarsódi

salt

100 g dökkt súkkulaði

100 g gráfíkjur

*

8-10 mínútur við 180°C.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s