Ég er ekki mikið fyrir konfektgerð, það segi ég satt. Og reyndar tók ég meðvitaða ákvörðun um það fyrir nokkru að sneiða sem mest hjá sælgæti af öllu tagi. Satt að segja hefur komið mér á óvart hvað það er auðvelt. Kannski var ég bara búin að borða nóg nammi fyrir lífstíð …
En sælgæti er misóhollt (mér finnst samt oftast vafasamt að tala um ,,hollustunammi“) og það er til nammi sem ég get alveg hugsað mér að narta í, þó í miklu hófi. Þar á meðal eru þessar kúlur. Auðvitað er heilmikill sykur í þeim – ekki bara þessi eina matskeið af hunangi, ávextirnir eru auðvitað stappfullir af ávaxtasykri (og trönuberin eru dálítið sykruð) – en eitthvað flýtur nú með af hollustu. Og kúlurnar eru mjög einfaldar og mér þykja þær góðar …
Það má nota aðra ávexti og hnetur í þær en mér finnst þessi blanda sérlega litrík og falleg, fyrir utan það hvað hún er bragðgóð. Þurrkuðu bláberin fékk ég í Kosti en það má vitaskuld nota önnur ber eða ávexti í staðinn, til dæmis ljósar rúsínur.
Það fer að verða akkúrat passlegt að gera þessar kúlur, þær geymast fram að jólum í kæli en svo má líka frysta þær. Uppskritin var gerð fyrir nóvemberblað MAN.
Ég tók 100 g af þurrkuðum apríkósum, 60 g af þurrkuðum bláberjum, 60 g af þurrkuðum trönuberjum og 75 g af pistasíuhnetum og setti í matvinnsluvél.
Notaði púlshnappinn á vélinni til að hakka þetta frekar fínt saman en það á þó ekki að verða að mauki.
Svo reif ég börkinn af einni appelsínu fínt út í og blandaði saman við ásamt einni matskeið af þunnu hunangi.
Ég setti blönduna á disk og kældi hana nokkra stund. Svo stráði ég slatta af kókosmjöli á annan disk.
Svo mótaði ég kúlur úr henni, best að hafa þær ekki mjög stórar – þetta urðu 20-25 kúlur. Velti kúlunum upp úr kókosmjöli jafnóðum.
Svo kældi ég kúlurnar. Eins og ég sagði áðan er best að geyma þær í kæli í vel lokuðu íláti.
Ávaxtakúlur
*
100 g þurrkaðar apríkósur
60 g þurrkuð bláber (eða ljósar rúsínur)
60 g þurrkuð trönuber
75 g pistasíuhnetur
1 msk hunang
fínrifinn börkur af 1 appelsínu
kókosmjöl