Ég er oft beðin um að koma í viötöl við ýmsa fjölmiðla og þó einkum og sér í lagi fyrir jólin. Ég hélt kannski að það yrði minna núna af því að ég er eiginlega ekki með neina bók á jólamarkaði (þótt ég hafi sent frá mér tvær bækur um mat á árinu, að vísu báðar á ensku, og Maturinn hennar Nönnu, sem mikið hafði verið spurt um, væri endurprentuð). En það hefur nú ekki verið.
Ég hef samt ekki þurft að vera með kynningar í verslunum eða annars staðar – ekki misskilja mig, mér finnst gaman að því, en það er óneitanlega töluvert mikið meiri vinna fyrir matreiðslubókahöfunda en aðra því auðvitað verður maður að baka eða elda eða útbúa eitthvað úr bókinni til að gefa fólki að smakka. Það þurfa aðrir höfundar ekki að gera. Ég nefndi þetta við Arnald um daginn, að þegar hann gæfi út nýja glæpasögu væri enginn að ætlast til þess að hann dræpi mann til að kynna hana (ókei, vont dæmi, Arnaldur er ekki mikið að fara í kynningar eða viðtöl). Og þegar Einar Kára skrifar um Flugumýrarbrennu þarf hann ekkert að kveikja í eða neitt. Þannig að þetta er óneitanlega meira vesen fyrir okkur matreiðslubókahöfundana.
Hmm, um hvað ætlaði ég að skrifa þegar ég byrjaði á þessum inngangi?
Já, nú man ég. Í þessum viðtölum – ekkert sérstaklega núna, heldur bara almennt í viðtölum í seinni hluta nóvember og í desember – þá er ég gjarna spurð hvort ég sé jólabarn. Eða líklega frekar þó hvort ég sé mikið jólabarn eða hvort ég sé ekki örugglega mikið jólabarn. Og það er yfirleitt greinilegt að spyrjandinn býst við jákvæðu svari. Ég er jú kona og hef skrifað tvær bækur um jólamat og er alltaf að gefa jólauppskriftir og jólin eru að nálgast og svona … En ég reyni nú yfirleitt að ljúga ekkert mjög miklu í viðtölum, ekki viljandi allavega, svo að ég segi bara Nei. Og yfirleitt kemur þá dálítið á spyrjandann og hann veit ekki alveg hvernig hann á að halda áfram vegna þess að hann átti von á öðru svari. Ég man eftir konu fyrir allnokkrum árum sem varð eiginlega bara kjaftstopp þegar ég vildi ekki kannast við að vera jólabarn. Óþægilegt í beinni útvarpsútsendingu.
Ekki misskilja, mér finnst jólin alveg ágæt (þótt ég ætli eiginlega að sleppa þeim þetta árið). En þau eru mér ekki sérlega mikilvæg og ég vil alls ekki hafa þau alltaf eins. Ég þoli ekki jólalög (ekki hressu týpuna allavega) en er alveg til í að hlusta á einn og einn jólasálm eða þjóðlag, helst sungið af norðlenskum karlakór. Eða Jussi Björling. Á aðfangadagskvöld í ár ætla ég að sitja úti á svölum suður á Madeira í átján stiga hita (segir veðurspáin mér) og horfa út á hafið og hlusta á Jussi Björling syngja O helga natt. En það er ekki að vera jólabarn, held ég. Kannski svolítið jóla-fullorðin, ég veit það ekki.
En mér finnst samt gaman að ýmsu jólastússi, einkum og sér í lagi matartengdu. Eða meira aðventustússi. Ég baka til dæmis alltaf eitthvað fyrir jólin, stundum þó lítið en stundum meira, en það þarf helst að klárast fyrir aðfangadag. Mér finnst jólakökur vera til að borða á jólaföstunni, það er nóg annað um jólin. Ég er búin að birta nokkrar smákökuuppskriftir að undanförnu og hér er sú síðasta fyrir þessi jólin.
Þessar eru alveg hveitilausar en svo sannarlega ekki sykurlausar. Eiginlega er þetta óþeyttur marens – bara sykur og eggjahvítur, með kakódufti og dálitlu kryddi. Og auðvitað súkkulaðidropum.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 180°C. Svo blandaði ég saman 300 g af flórsykri, 35 g af kakódufti, 1/2 tsk af kanel og 1/4 tsk af engifer.
Ég aðskildi svo þrjú egg (nota ekki rauðurnar) en hrærði hvítunum og 1/2 tsk af vanilluessens saman við flórsykursblönduna.
Svo vigtaði ég 100 g af súkkulaðidropum og 100 g af hnetusmjörsdropum (Reese’s Peanut Butter Chips) og blandaði saman við. Það má líka nota eingöngu súkkulaðidropa, e.t.v. blöndu af dökkum og ljósum.
Setti svo litlar hrúgur með teskeið á tvær pappírsklæddar bökunarplötur, 12 á hvora, og gætti þess að hafa gott bil á milli, kökurnar fljóta töluvert út. Svo má líka hafa þær fleiri og minni en hjá mér urðu þetta semsagt 24 kökur.
Bakaði kökurnar á efstu rim í ofninum í um 8 mínútur. Best er að fylgjast vel með þgar líður á bökunartímann og taka kökurnar út ef þær fara að brúnast á jöðrunum.
Ég lét kökurnar hálfkólna á plötunni en færði þær yfir á grind áður en þær kólnuðu alveg. Þær verða harðar og stökkar.
*
Kryddaðar súkkulaðikökur með súkkulaðidropum
300 g flórsykur
35 g kakóduft
½ tsk kanell
¼ tsk engifer
3 eggjahvítur
½ tsk vanilluessens
200 g súkkulaðidropar, eða blanda af súkkulaði- og hnetusmjörsdropum