Nýárssól í krukku

Gleðilegt nýár, gott fólk, þakka ykkur fyrir allt og hafið það nú sem allra best á nýja árinu.

Ég hef ekki skrifað neitt hér í – ja, ætli það séu ekki að verða tvær vikur? Fyrst var ég á kafi í undirbúningin fyrir mitt árlega Þorláksmessuboð, sem var reyndar alls ekki á Þorláksmessu í ár og kallaðist því Forláksmessuboð. Það var afskaplega ánægjulegt eins og venjulega. Og svo fór tíminn í frágang og laufabrauðsgerð með stórfjölskyldunni og svo stakk ég af til útlanda, laufabrauðslaus og jólalaus – ég var nefnilega komin til Funchal á Madeira á Þorláksmessu og var þar (og svo í London) fram til 30. des. Sleppti því einfaldlega að mestu að halda jól og líkaði það ágætlega. En þessu hafa nú Facebookvinir mínir getað fylgst með í máli og myndum ef þeir vilja svo ég er ekkert að fara meira út í það. (Nema ég ætla að nefna að ég fékk grísakinnar í matinn á aðfangadagskvöld, þær voru bara ekkert síðri en þær sem ég eldaði sjálf á dögunum.)

En nú er komið nýtt ár og jólin eiginlega búin og allir komnir í aðhald eða eitthvað og eðli málsins samkvæmt ætti ég líklega að setja hér einhverja rosa hollustusamlega uppskrift. Og ódýra því það eru allir svo blankir eftir jólin – nei annars, ég var búin að gleyma að það er allt á svo mikilli uppleið og Sigmundur búinn að skuldaleiðrétta og allt og Bjarni búinn að afnema sykurskattinn svo maður getur fengið fullt af ódýrri orku og svona … svo ég ætla í staðinn að koma hér með uppskrift sem vinnur gegn matarsóun.

Það eru nefnilega allir búnir að vera að háma í sig mandarínur öll jólin og sennilega orðnir hundleiðir á þeim og eiga hálfu og heilu kassana af mandarínum sem liggja undir skemmdum. En ég var semsagt á Madeira og þar var líka allt vaðandi í mandarínum og klementínum og svoleiðis en munurinn er að þær eru ræktaðar á staðnum. Og afskaplega góðar eins og líka bananarnir og ananasinn og mangóin og allt hitt sem er ræktað þarna. Og þegar ég fór að hugsa um þær áðan mundi ég eftir mandarínumarmilaðinu sem ég gerði fyrir Forláksmessuboðið og enn er afgangur af. Fór og fékk mér hrökkbrauð með osti og mandarínumarmilaði og ákvað svo að setja uppskriftina hér. Af því að ég er líka nýkomin úr sólinni og ekki veitir nú af einhverju sólargulu og björtu og suðrænu á þessum árstíma …

_MG_4957

Nú ætla ég bara að byrja á að játa: þetta eru ekki mandarínur og ég gerði ekki marmilaði úr þessum. Þetta eru klementínur. Það er alveg hægt að gera marmilaði úr þeim líka og það verður eiginlega alveg eins á bragðið en ókosturinn við þessar klementínur var að þær voru með steinum og það er heilmikið vesen í marmilaðigerð. Þær voru hins vegar flottari á mynd, ekki síst út af laufblöðunum – ég fann engar mandarínur með laufum – svo að ég ákvað að svindla aðeins og nota þær til að punta með. Bara svo það sé á hreinu.

_MG_4761

En hér eru mandarínurnar sem ég notaði. Semsagt eitt kíló steinlausar mandarínur og ein stór og safarík sítróna. Mér finnst að það þurfi að vera dálítil beiskja og sýra í marmilaði jafnframt sætleikanum, þess vegna notaði ég sítrónuna og bætti svo við örlitlu ediki (sjá hér á eftir). Beiskjan kemur aftur á móti úr berkinum en má ekki vera of mikil.

_MG_4766

Ég byrjaði á að þvoði ávextina úr volgu vatni og þerraða þá. Svo skar ég báða endana af mandarínunum og flysjaði svo gula börkinn af sítrónunni með flysjunarjárni. Ég skar svo hvíta börkinn af henni með hníf en henti honum, hann er of beiskur.

_MG_4769

Svo tók ég börkinn af mandarínunum, vöðlaði honum saman og skar hann í ræmur. Ég vildi hafa marmilaðið gróft svo ég var ekkert að skera börkinn mjög smátt en það er bara smekksatriði. Svo skar ég gula sítrónubörkinn líka í ræmur.

_MG_4773

Síðan setti ég börkinn í pott, ásamt dálitlu vatni, hitaði að suðu og lét sjóða í 2-3 mínútur til að minnka beiska bragðið af berkinum.

_MG_4777

Svo hellti ég berkinum í sigti og lét renna vel af honum.

_MG_4774

Á meðan börkurinn mallaði hafði ég skorið mandarínurnar og sítrónuna í bita. Nú setti ég bitana í pott ásamt berkinum og 700 ml af vatni.

_MG_4778

Ég hitaði þetta að suðu og lét malla í opnum potti í 20-25 mínútur.

_MG_4787

Þá setti ég 250 g af sykri, 125 ml af þunnu hunangi og 1 msk af hvítvínsediki út í og lét malla áfram þar til mandarínukjötið var orðið að mauki, marmilaðið hafði soðið niður um helming eða svo og var orðið hæfilega þykkt. Hrærði í öðru hverju. Ég prófaði svo marmilaðið með því að setja svolítið af því á ískaldan disk (helst beint úr frysti). Ef það er þykkt fremur en fljótandi eftir 1-2 mínútur er það hæfilegt.

Best er að fylgjast vel með marmilaðinu þegar fer að nálgast lok suðutímans, því hættir til að brenna við pottbotninn ef það er soðið of mikið.

_MG_4913

Ég hellti svo heitu marmilaðinu beint í krukkur og lokaði þeim vel. Lét þær kólna og svo geymi ég þær í kæli.

_MG_4929

Magnið? Ja, þetta urðu þrjár (svolítið misstórar) krukkur hjá mér.

*

Mandarínumarmilaði

1 kg mandarínur, steinlausar

1 sítróna

700 ml vatn

250 g sykur

125 g hunang

1 msk hvítvínsedik

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s