Ég var beðin um uppskrift að fylltum kalkúnabringum sem ég eldaði á nýársdag. Eiginlega var þetta ekki ætlað á bloggið og myndatakan ekki miðuð við það en ég lenti í smávandræðum sem ég sagði frá á Facebook og birti svo mynd af bringunum til að sýna að þetta hefði nú allt reddast … svo að jæja, hér er uppskriftin. Eða kannski uppskriftirnar því að ég var með tvær útgáfur af bringunum.
Kalkúnabringur – beinlausar og hamflettar – eru annars frekar þægilegur matur fyrir gestaboð eða jafnvel sunnudagssteik handa fjölskyldunni því þær eru ekkert svo dýrar og tiltölulega einfalt að elda þær, það eina sem þarf að passa – eins og með kjúkling og annað fiðurfé – er að ofelda þær ekki. Auðvitað þarf samt að elda þær í gegn og þetta er ákveðið einstigi sem þarf að feta, svo að bringurnar séu hvorki möguleg uppspretta bakteríusmits né þurrar, bragðlausar og óspennandi.
Ég misreiknaði mig reyndar örlítið með þessar, tók þær nefnilega fullseint úr frysti og þegar ég byrjaði að hantéra þær voru þær reyndar rétt þiðnaðar og næstum við frostmark svo ég var ekki alveg viss um steikingartímann. Hafði þær þess vegna aðeins of lengi, þó ekki nema 5-10 mínútum; þær voru ekki alveg eins safaríkar og ég hefði viljað en þó alls ekki þurrar. Ég mæli þess vegna með að nota kjöthitamæli; ég gerði það reyndar en mældi hitann aðeins of seint, hann var orðinn ívið hærri en ég hefði viljað hafa hann. En þetta kom nú ekkert að sök svosem.
Eins og ég sagði, þá voru myndirnar bara teknar sem minnispunktar fyrir mig (ég vinn mjög mikið þannig af því að ég geri svo mikið af tilraunum sem hugsanlega gætu endað seinna í matreiðslubók eða annars staðar og þá er gott að hafa meira en bara lauslega uppskrift að styðjast við) og gæðin eftir því. Og það er heldur ekki almennileg mynd af tilbúnum rétti, ég er nú ekki að eyða tíma í uppstillingar og myndatökur þegar svöng fjölskylda eða aðrir gestir bíða í borðstofunni, það væri nú ekki mikil virðing við þau. Þá væri nú matardellan farin að ganga fulllangt, finnst mér. (En ég get alveg gefið mér tíma þegar ég er ein í mat, það er annað mál.)
Við vorum sjö og ég var með tvær bringur, samtals rétt um tvö kíló. Það var akkúrat passlegt, tveir smáendar í afgang. Og fyrst bringurnar voru tvær ákvað ég að hantéra þær mismunandi og gera tvenns konar fyllingar.
Önnur fyllingin var um 75 g af rjómaosti (en ég mældi ekkert og allar magntölur eru slumpaðar), 75 g af hráskinku, skorinni í bita, 2-3 msk af graskersfræjum, lófafylli af söxuðum basilíkublöðum, pipar og salt.
Hin var um 75 g af rjómaosti, sirka 75 g af þurrkuðum apríkósum, söxuðum, svona 40 g af grófsöxuðum pekanhnetum, blöðin af nokkrum timjangreinum (eða dálítið þurrkað timjan, pipar og salt. Ég hrærði báðar fyllingarnar saman, sína í hvorri skál.
Svo skar ég djúpan vasa í hliðina á hvorri kalkúnabringu (þær voru semsagt rétt þiðnaðar) og kryddaði bringurnar að innan og utan með dálitlum pipar og salti. Mótaði fyllinarnar í sverar lengjur og setti inn í bringurnar. Þrýsti aðeins á þær til að þær færu sem best inn í endana á vösunum. Ég lokaði vösunum með kjötnálum en það er nú líklega óþarfi, allavega með þá beikonvöfðu (sjá á eftir).
Ég var búin að hita ofninn í 200°C og setti nú bringurnar í olíuborna ofnskúffu. Hefði auðvitað komist af með eldfast mót en ég ætlaði að baka grænmeti með þeim.
Ég tók beikonsneiðar og vafði þeim utan um bringuna með apríkósufyllingunni; lagði þær yfir bringuna (lét þær skarast örlítið) og stakk svo endunum undir bringuna til að sneiðarnar héldust fastar. Hina bringuna ætlaði ég að smyrja með dijonsinnepi sem ég var alveg viss um að ég ætti en það fannst ekki þrátt fyrir mikla leit (það er vesenið sem ég minntist á í upphafi). Ég hefði svosem ekki verið lengi að búa bara til sinnep til að smyrja á bringuna, átti bæði sinnepsduft og annað sem til þarf, en ákvað samt að redda mér frekar með SS pylsusinnepi sem ég átti siðan Úlfur var einhverntíma í heimsókn og við fengum okkur pylsur. Svo að ég smurði svona 3 matskeiðum af því á bringuna og stráði svo pankoraspi yfir, nokkrum matskeiðum.
Ég átti litlar, sætar kartöflur sem ég skar í helminga (ef þær eru stórar má skera þær í báta) og skar líka nokkrar meðalstórar kartöflur í tvennt. Setti í skál ásamt 3-4 msk af ólífuolíu, nokkrum greinum af hálfþornuðu rósmaríni (ferskt hefði verið betra en þetta hafði beðið í ísskápnum frá því áður en ég fór til Madeira og mátti muna sinn fífil fegri, samt vel nothæft enn). Blandaði þessu saman.
Svo tók ég ofnskúffuna út, raðaði sætu kartöfluhelmingunum í kring með skurðflötinn upp og dreifði kartöfluhelmingum hvar sem pláss var fyrir þá, setti svo aftur í ofninn og steikti í um 45 mínútur. Þá voru kartöflurnar og sætu kartöflurnar vel meyrar og kalkúninn gegnsteiktur – og eins og ég sagði áður hefði hann vel mátt vera 5-10 mínútum skemur í ofninum, ég hefði þá tekið hann út og haldið heitum og steikt kartöflurnar áfram. En þetta kom semsagt ekki að sök.
Það er annars ágætt að fylgjast aðeins með bringunum þegar líður á steikingartímann og breiða álpappírsbút yfir þær ef raspið sýnist ætla að dökkna um of.
Ég tók ofnskúffuna út, breiddi álpappír lauslega yfir og lét bíða á meðan ég kláraði sósuna. Ég hafði lagt lófafylli af þurrkuðum lerkisveppum í bleyti í svona 150 ml af heitu vatni. Svo skar ég 300 g af ferskum sveppum í bita, bræddi 40 g af smjöri í potti og steikti sveppina við nokkuð góðan hita þar til þeir höfðu tekið lit; kryddaði með pipar og salti. Hellti vænni svettu af púrtvíni í pottinn og lét sjóða aðeins niður og setti svo þurrkuðu sveppina og vatnið af þeim út í og hellti svo 400 ml af rjóma út í. Lét sjóða nokkra stund. Þegar ég var búin að setja kalkúnabringurnar og grænmetið á fat hellti ég svo soðinu úr ofnskúffunni saman við, þykkti ögn með sósujafnara, bætti við nokkrum dropum af sósulit, smakkaði og bragðbætti aðeins með pipar og salti.
.Og þá var þetta nú eiginlega bara tilbúið. Ég bar bringurnar fram með sósunni, bakaða grænmetinu …
… og rauðkálssalati (lítill rauðkálshaus, nokkrar mandarínur, grófmuldar pekanhnetur, ólífuolía, hvítvinsedik, balsamedik, pipar og salt).
Þetta var nú alveg ágætt.
*
Tvenns konar kalkúnabringur með fyllingu
2 kalkúnabringur, um 1 kg hvor
pipar og salt
olía til að smyrja formið
*
Beikonvafðar bringur með apríkósufyllingu:
75 g rjómaostur
75 g þurrkaðar apríkósur
40 g pekanhnetur
nokkrar timjangreinar
pipar og salt
um 100 g beikonsneiðar
*
Sinnepsraspaðar bringur með skinkufyllingu:
75 g rjómaostur
75 g hráskinka
2-3 msk graskersfræ
lófafylli af basilíkublöðum
pipar og salt
3 msk sinnep (helst dijon en SS pylsusinnep dugir alltsvo líka)
nokkrar matskeiðar pankorasp (eða annað rasp)
*
Sveppasósa
lófafylli af þurrkuðum sveppum
150 ml sjóðandi vatn
300 g sveppir
40 g smjör
pipar og salt
um 3 msk púrtvín
400 ml rjómi
soðið af kalkúnabringunum
sósujafnari
sósulitur ef vill
*
Rósmarínbakaðar kartöflur og sætar kartöflur
1,2 kg sætar kartöflur, litlar (5 stk)
um 800 g kartöflur, meðalstórar
3-4 msk ólífuolía
nokkrar rósmaríngreinar
pipar og salt
*
Rauðkálssalat með mandarínum
1 lítill rauðkálshaus (400-500 g)
3-4 mandarínur
30-40 g pekanhnetur
2 msk ólífuolía
2 tsk hvítvínsedik
2 tsk balsamedik
pipar og salt