Sumir eru mikið fyrir saltfisk

Við vorum eitthvað að ræða um fiskveiðar, ég og leigubílstjórinn sem ég fór með í hálfs dags skoðunarferð á Madeira á dögunum. Ég nefndi að Íslendingar hefðu lengi framleitt saltfisk og selt til suðlægari landa, þar á meðal Portúgals.

– Já, Portúgalir, þeir eru mikið fyrir saltfisk, sagði bílstjórinn (sem er því miður alveg stolið úr mér hvað heitir en hann á konu sem heitir Rosa og safnar frímerkjum, það man ég). – Og hafa kartöflur með honum, bætti hann við og ég heyrði einhvernveginn á raddblænum að það þótti honum ekki sérstaklega góð hugmynd.

– Lítið þið Madeirabúar ekki á ykkur sem Portúgali? spurði ég. Hafði reyndar fengið á tilfinninguna að svo væri ekki en ekki haft tækifæri til að spyrja neinn að þessu fyrr.

– Nei, við erum Madeiringar, þótt forfeður okkar hafi flestir komið hingað frá Norður-Portúgal fyrir fimm hundruð árum, sagði hann. – Við erum með sjálfsstjórn og eina ástæðan fyrir því að við erum ekki sjálfstætt ríki er að við erum of fáir.

Ég sagði ekki orð, enda eru Madeirabúar ekki það miklu færri en Íslendingar. Og mun fleiri en við vorum þegar við fengum sjálfstæði.

Reyndar hafði ég séð í aðalmatvöruversluninni í Funchal fyrir jólin að þar var nú alveg til saltfiskur, þó raunar mun minna áberandi en ég hafði búist við. Svo að kannski er það rétt hjá bílstjóranum að saltfiskur sé ekki í sömu metum þarna og á meginlandinu.

_MG_5743

En ég fékk samt reyktan saltfisk með kastaníumauki og tapenade í forrétt á aðfangadagskvöld, hann var alveg ágætur.

Í kvöld átti ég svo dálítinn saltfisk frá Ektafiski, svona 400 g, sem ég ákvað að hafa í matinn. Var að hugsa um að leita uppi saltfiskuppskrift frá Madeira – nú, eða þá Portúgal – en svo varð úr að ég gerði saltfisksalat, svona að mestu leyti að púertóríkönskum hætti en með smátilbrigðum.

_MG_6735

Ég setti vatn í pott ásamt tveimur lárviðarlaufum (má sleppa) og nokkrum piparkornum. Setti svo fiskinn út í ásamt tveimur eggjum, hitaði rólega og lét malla rétt neðan við suðu í 5-6 mínútur. Tók þá eggin upp úr og kældi þau og tók fiskinn upp með gataspaða, setti á disk og lét kólna aðeins.

_MG_6737

Ég hafði komið við í Bónus á Laugavegi til að versla og ætlaði að kaupa tómata – eða reyndar bara einn í salatið. En þar var bara ekki til einn einasti tómatur, ekki af neinni tegund. En ég átti einn tamarillo sem ég hafði komið með frá Madeira og ákvað að nota hann bara í staðinn. Tamarillo er ættingi tómatsins, nokkuð líkur honum en er meiri ávöxtur en tómaturinn. Í Englandi er hann gjarna kallaður Madeiratómatur en á Madeira enskur tómatur. Svona eins og vínarbrauð, sem heita Kaupmannahafnarbakkelsi (eða eitthvað svoleiðis) í Vín.

_MG_6739

Ég setti lúkufylli af salatblöðum á disk. Roðfletti saltfiskinn, losaði hann sundur í flögur og dreifði honum yfir. Skurnfletti eggin, skar þau í bita og dreifði yfir og svo skar ég tamarilloinn í átta báta og dreifði yfir.

_MG_6741

Svo skar ég hálft, vel þroskað avókadó, hálfan lítinn rauðlauk og 8-10 steinlausar grænar ólífur í bita og setti í skál, ásamt 1 tsk af kapers og nokkrum söxuðum basilíkublöðum (af því að ég átti þau til en það má alveg sleppa þeim). Blandaði saman 1 msk af sítrónusafa og 2 1/2 msk af góðri ólífuolíu, hellti yfir og blandaði vel.

_MG_6744

Svo dreifði ég öllu úr skálinni yfir saltfiskinn og eggin.

_MG_6759

Engar kartöflur – en það mætti alveg hugsa sér að nota kaldar, soðnar kartöflur í þetta salat.

_MG_6760

Það þarf ekkert meira. En gott brauð skaðar ekki.

*

Saltfisksalat með eggjum og avókadó

350-400 g saltfiskur, afvatnaður

2 egg

2 lárviðarlauf

nokkur piparkorn

lúkufylli af salatblöðum

1 tómatur, vel þroskaður (eða tamarillo …)

1/2 avókadó (eða 1 lítið), vel þroskað

1/2 rauðlaukur, lítill

8-10 ólífur

1 tsk kapers

e.t.v. nokkur basilíkublöð

1 msk sítrónusafi

2 1/2 tsk ólífuolía

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s