Það kemur ýmislegt frá Brussel

Það er líklega rétt að ég setji einn fyrirvara á þessa uppskrift sem kemur hér á eftir, hún er nefnilega líklega ekki fyrir Evrópusambandsandstæðinga. Aðalhráefnið er sko rósakál og hvað skyldi það nú heita á ensku? Jú, Brussel sprouts, og ég er margoft búin að heyra að ekkert gott geti komið frá Brussel. En kannski er ég bara búin að hlusta of mikið á Útvarp Sögu að undanförnu. Allavega, viðvöruninni er hér með komið áleiðis. (Reyndar er það víst frekar ræktað í Hollandi en Belgíu núorðið svo það er kannski í lagi.)

Líklega er nú rósakálið ekki upprunalega frá Belgíu og forfeður þess hafa lengi verið ræktaðir víða í Evrópu en í núverandi mynd kom kálið líklega fram í Belgíu á síðmiðöldum, það eru til heimildir um það frá 16. öld og um það leyti var það vinsælt á Niðurlöndum. Það er kulsælt vetrargrænmeti og aðaluppskerutíminn víðast hvar er frá hausti fram í mars. Þolir alveg að frjósa og þykir jafnvel betra eftir smáfrost. Og nú er árstíminn fyrir það. Englendingar eru mjög hrifnir af því með jólakalkúnanum en mér finnst það nú aldrei vera sérlega jólalegt grænmeti. Janúar er aftur á móti árstíminn fyrir það á mínu heimili.

Rósakál er hægt að sjóða eða gufusjóða en mér finnst mun betra að pönnusteikja það eða baka í ofni og ég á alltaf eftir að prófa að grilla það, sem mér er sagt að geti verið gott. En ég nenni ekki að standa á svölunum í núverandi veðri og grilla kálhausa. Svo að þegar ég ákvað að hafa rósakál í matinn í gær varð úr að ofnsteikja það.

_MG_6764

Ég byrjaði á að stilla ofninn á 200°C. Svo tók ég rósakálið – það var 300 g poki – hreinsaði visnuð og laus blöð utan af hausunum (það var reyndar lítið um þau) og ef skurðflöturinn á stilkunum hefði verið farinn að breyta lit hefði ég skorið þunna sneið af honum líka en þetta var greinilega mjög nýlegt kál og sá lítið á því. Ég skar svo hvern haus í tvennt. Svo ákvað ég að notfæra mér að enginn af sveppahöturunum í fjölskyldunni var að koma í mat, tók 125 g af sveppum og skar í sneiðar. Tók líka til nokkrar timjangreinar (má líka nota þurrkað timjan) og 1 hvítlauksgeira.

_MG_6776

Ég setti rósakálíð, sveppina og timjanið í eldfast mót og saxaði hvitlaukinn smátt og dreifði yfir. Þetta getur alveg verið grænmetisréttur en ég átti sirka 100 g bút af chorizopylsu, skar hann í tvennt eftir endilöngu og svo í þunnar sneiðar og setti í mótið með rósakálinu. Kryddaði með pipar og salti og svo hellti ég 2 1/2 msk af ólífuolíu yfir og blandaði vel.

_MG_6778

Svo setti ég fatið í ofninn og bakaði þetta í hálftíma, eða kannski rétt tæplega það. Þá tók ég fatið út – rósakálið ætti að vera orðið meyrt og búið að taka dálítinn lit.

_MG_6779

Ég reif svo ögn af parmesanosti – kannski svona 25 g bita – yfir og setti fatið aftur í ofninn í um 5 mínútur …

_MG_6781

… eða þar til osturinn var bráðinn.

_MG_6788

Ekki slæmt.

_MG_6801

Bakað rósakál með sveppum og chorizo

300 g rósakál

125 g sveppir

1 hvítlauksgeiri

nokkrar timjangreinar eða 1/2 tsk þurrkað timjan

80-100 g chorizopylsa

pipar

salt

2 1/2 msk ólífuolía

20-25 g parmesanostur

35 mínútur, 200°C.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s