Mig langar svolítið í enskar skonsur akkúrat núna (þótt ég ætli ekki að láta það eftir mér) sem er eiginlega svolítið skrítið því það er snjór og kuldi úti og hávetur en ég hef alltaf tengt skonsur fyrst og fremst við sumar og sól, te á veröndinni og svona … Kannski er þetta bara einhver niðurbæld löngun eftir sumrinu. En í staðinn fyrir að láta undan henni með því að baka mér skonsur og hita te ætla ég nú bara að koma með uppskrift.
Enskar skonsur eru afar einfalt bakkelsi en geta þó verið ótrúlega góðar. Þessar hér eru bragðbættar með pekanhnetum og gullnum rúsínum en það má líka nota ljósar eða venjulegar. En það má líka sleppa hnetum og rúsínum, skonsurnar eru góðar bara með rjóma og sultu – mér þykja þessar sérlega góðar með bláberjasultu.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 220°C. Svo setti ég 400 g af hveiti, 1 msk af lyftidufti, 1/2 tsk af salti, 75 g af sykri og 125 g af linu smjöri í hrærivélarskál og hrærði saman (það má líka sleppa hrærivélinni og mylja bara smjörið saman við hitt með fingurgómunum). Síðan blandaði ég 2 eggjum og 100 ml af hreinni jógúrtinni saman í könnu og hellti þvi svo út í og hrærði saman við hveitiblönduna.
Þetta ætti að vera eins og gróf mylsna sem þó er auðvelt að hnoða saman í slétt deig, Best er að taka dálítinn bita og hnoða hann saman til að prófa, bæta svo við aðeins meiri jógúrt ef deigið er of þurrt og hnoðast ekki saman, svolitlu hveiti ef það er of blautt og klessist við hendurnar.
Að lokum blandaði ég 75 g af rúsínum (ég notaði gullnar rúsínur en mættu líka vera ljósar eða bara venjulegar – eða einhverjir aðrir þurrkaðir ávextir) og 50 g af grófsöxuðum pekanhnetum (mættu vera valhnetur) saman við.
Ég hnoðaði svo deigið saman í kúlu og flatti það síðan út í um 2 cm þykkt. Mér finnst best að leggja bökunarpappírsörk á vinnuborðið og fletja deigið út á henni, þá þarf ekki að nota hveiti.
Ég stakk svo út kringlóttar kökur. 6-7 cm í þvermál – það ættu að fást 12-16 skonsur úr deiginu. Best er að nota málmhring með beittri brún og stinga honum beint niður í deigið, ekki snúa honum – þá lyfta skonsurnar sér best.
Ég raðaði skonsunum á pappírsklædda bökunarplötu og penslaði þær að ofan með hreinni jógúrt(má líka nota mjólk).
Síðan bakaði ég skonurnar á næstefstu rim í ofninum í 10-12 mínútur, eða þar til þær voru orðnar fallega gullinbrúnar og höfðu lyft sér vel. Lét þær svo kólna á grind.
Auðvitað ætti helst að vera hleyptur rjómi (clotted cream) með skonsunum en ég notaði sýrðan 36% rjóma, ásamt berjasultu. Það má líka smyrja þær með smjöri eða borða þær eintómar.
Og svo getur verið gott að hafa nokkur ber með.
*
Enskar skonsur með rúsínum og hnetum
12-16 skonsur
400 g hveiti
1 msk lyftiduft
1/2 tsk salt
75 g sykur
125 g smjör, lint
2 egg
100 ml hrein jógúrt
75 g rúsínur (ég notaði gullnar rúsínur)
50 g pekan- eða valhnetur, grófsaxaðar
*
220°C, 10-12 mínútur.
Hvað kemur næst clotted cream á Íslandi? Hvernig getur maður líkt eftir því?
Ég skal ekki segja en það sem mér hefur e.t.v. fundist að hægt væri að komast næst því er að hræra saman sýrðan rjóma (verður að vera 36%) og mascarponeost.