Nú eru forsetinn og Guðni Ágústsson búnir að opna augu mín fyrir því hvað nútíminn er mikill miðill. Pælið í því, maður getur til dæmis tekið myndir af matnum sínum og sett þær á internetið. Þetta gerir víst unga fólkið en ég hafði ekki fattað þetta fyrr en Guðni sagði frá því í blaði að forsetinn hefði upplýst sig um þetta. Þetta er ný og merkileg upplýsingatækni sem ég hefði líklega aldrei heyrt af ef ég hefði ekki lesið viðtalið við Guðna.
Ég náttúrlega fékk alveg hugljómun, áttaði mig á að nú get ég bara farið að taka myndir af kvöldmatnum mínum og setja á Facebook og svona (ég er ekki komin nógu langt inn í nútímann fyrir Twitter og Instagram og alla þá merkilegu upplýsingatækni). Það verður nú aldeilis breyting. Nú mynda ég bara góða kjötið og góðu mjólkina og góða fiskinn og allir geta séð hvað þetta eru einstakar afurðir og kaupa miklu meira en áður af góða kjötinu og góðu mjólkinni og góða fiskinum. Það held ég nú.
En áður en ég fer að mynda góða kjötið og góðu mjólkina og góða fiskinn ætla ég samt að koma með uppskrift að góða grænmetinu og myndir sem ég tók af því. (Ég er að vísu ekki alveg búin að ná þessari nýju tækni, símanum, nota ennþá gamaldags myndavél en það breytist örugglega bráðum.) Það eru reyndar útlensk epli og hnetur í salatinu en uppistaðan er semsagt gott íslenskt grænmeti, grænkál og salatblöð. Uppskriftin birtist fyrst í jólablaði MAN en salatið á afskaplega vel við núna þegar allir eru í hollustunni. Meira að segja ég, svona stundum.
Ég byrjaði á að taka svona 200 g af grænkáli. Skar stöngulinn úr grænkálsblöðunum og skar þau svo í fremur mjóar ræmur. Saxaði líka tvo hvítlauksgeira smátt.
Ég hellti svo 3 msk af ólífuolíunni á pönnu …
… og lét grænkál og hvítlauk krauma í olíunni við meðalhita í 3-4 mínútur, eða þar til grækálið var aðeins farið að mýkjast. Kryddaði með pipar og salti og hellti svo öllu af pönnunni í skál.
Svo tók ég tvö epli (geta náttúrlega verið nokkurn veginn hvaða epli sem er en mér finnst best að nota stökk og safarík epli eins og Pink Lady eða Honeycrisp). Ég kjarnhreinsaði þau og skar þau í fremur litla bita. Það má auðvitað flysja þau en mér finnst betra að hafa hýðið með.
Svo bætti ég við í skálina ásamt eplunum vænni lúkufylli af góðri salatblöndu – það er fallegast (en ekki nauðsynlegt) að nota blöndu sem inniheldur rauðlaufssalat eða rauðkál – og 50 g af grófmuldum pekanhnetum (mættu líka vera valhnetur).
Síðan hrærði ég saman í lítilli skál 1 msk af ólífuolíu, 1 msk af góðu hlynsírópi og 1 msk af hvítvínsediki, ásamt svolitlu pipar og salti. Hellti svo sósunni yfir salatið og blandaði vel.
Þetta salat er fínasta meðlæti með ýmsum mat …
… en það má líka alveg borða það eintómt, t.d. sem hádegissnarl.
Sko bara, þarna er fullt af matarmyndum en þetta með að setja þær á netið hefði ég aldrei fattað ef Guðni hefði ekki farið á trúnó með forsetanum.
*
Grænkálssalat með eplum og pekanhnetum
200 g grænkál
2 hvítlauksgeirar
4 msk ólífuolía
pipar
salt
2 epli, t.d. Pink Lady eða Honeycrisp
væn lúkufylli af góðri salatblöndu
50 g pekanhnetur
1 msk gott hlynsíróp
1 msk hvítvínsedik