Rauðrófur – og meiri rauðrófur

Ég held alltaf meira og meira upp á rauðrófur, þær eru svo skemmtilegt grænmeti. Rauðar og litsterkar, bragðgóðar (ókei, það eru svosem ekki allir sammála því en ég kann vel að meta jarðarbragðið – sumir segja moldarbragðið – af þeim), og það er hægt að gera svo margt við þær.

Ég hef svosem verið með rauðrófuuppskriftir áður, til dæmis að rauðrófusalati með perum, rauðrófu- og gulrótasalati og bökuðum rauðrófum með spínati og kjöti. Það er hægt að baka þær, sjóða og grilla og líka rífa þær niður og nota hráar. Hér eru tvær rauðrófuuppskriftir og í þeim báðum er byrjað á að baka rófurnar í ofni. Það gerði ég á sama hátt og þess vegna gildir eftirfarandi fyrir báðar uppskriftirnar:

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Tók svo rauðrófurnar – ef þær eru stórar eða meðalstórar er best að skera þær í helminga eða fjórðunga, jafnvel smærra ef þær eru risastórar, en ef þær eru frekar litlar má hafa þær heilar. Rauðrófurnar smita úr sér sterkum rauðum lit svo að ég set yfirleitt álpappírs- eða bökunarpappírsbút á skurðarbrettið áður en ég sker þær til að sleppa við bletti.

Svo setti ég svolitla olíu í eldfast mót dreifði rauðrófubitunum í það, kryddaði með dálitlum pipar og salti og lagði álpappírsbút yfir (ef maður er að baka rauðrófurnar með öðru hráefni er best að vefja þær í álpappír svo að þær liti ekki út frá sér), setti böggulinn í eldfast mót og bakaði rófurnar þar til þær voru meyrar  – það gæti tekið 40-60 mínútur. Ég prófaði þær með því að stinga í þær prjóni í gegnum álpappírinn, hann rann viðstöðulaust í gegn þegar þær voru orðnar meyrar en ef svo er ekki má baka þær lengur.

Ég lét rófurnar kólna dálítið svo að hægt væri að taka á þeim og flysjaði þær svo (setti pappír á skurðarbrettið). Og hér eru svo uppskriftirnar tvær, fyrst rauðrófukurl.

_MG_3369

Ég tók 300 g af flysjuðum rauðrófum og setti í matvinnsluvél ásamt 1 söxuðum vorlauk (hvíta og ljósgræna hlutanum), 1 söxuðum hvítlauksgeira, 1 1/2 msk af ólífuolíu, dálitlum pipar og salti.

_MG_3370

Svo notaði ég púlshnappinn á vélinni til að saxa þetta fremur smátt en þó ekki of – rófurnar eiga ekki að fara alveg í mauk.

_MG_3522

Rauðrófukurlið hentar sem meðlæti með ýmsum réttum  og einhvern næstu daga set ég inn  uppskrift að grænmetislummum sem það passar vel með.

Svo gerði ég líka rauðrófusalat – eða öllu heldur kannski salat með rauðrófum og jógúrt-skyrsósu:

_MG_2054

Ég var með 400-500 g af rauðrófum sem ég byrjaði á að skera í sneiðar, ekkert allt of þunnar (kannski 7-10 mm). Svo tók ég hálfa litla gúrku og einn rauðlauk og skar í litla teninga. Skar svo grænu blöðin af 2-3 vorlaukum í sneiðar og blandaði gúrku, rauðlauk og vorlauk saman í skál ásamt 1 tsk af kapers (skoluðum úr köldu vatni). Saxaði dálítið af fjallasteinselju og blandaði saman við ásamt vænni lófafylli af blönduðum salatblöðum. Svo setti ég þetta allt á stóran disk og raðaði rauðrófusneiðum í kring. Eða dreifði, það þarf svosem ekkert endilega að raða þeim.

_MG_2069

Þá var það sósan. Ég tók 150 ml af hreinni jógúrt og 100 ml af hreinu skyri og setti í skál. Saxaði dálitla fjallasteinselju og tvo hvítlauksgeira smátt og hrærði saman við ásamt pipar og salti. Dreypti dáitlu af sósunni yfir salatblönduna og bar afganginn fram með salatinu.

*

Rauðrófukurl

300 g rauðrófur

1 vorlaukur, hvíti og ljósgræni hlutinn

1 hvítlauksgeiri

1 ½ msk ólífuolía

pipar

salt

*

Rauðrófusalat með jógúrt-skyrsósu

400-500 g rauðrófur

½ lítil gúrka

½ rauðlaukur

3-4 vorlaukar (grænu blöðin)

1 tsk kapers

½ knippi fjallasteinselja, söxuð

lófafylli af salatblöðum

150 ml hrein jógúrt

100 ml hreint skyr

2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt eða pressaðir

pipar

salt

4 comments

  1. Sæl Nanna,

    Ég hef aldrei borðað rauðrófu öðruvisi en úr krukkur, en er spennt fyrir að prufa að elda eitthvað úr þeim. En hvernig eiga þær að vera viðkomu þegar þær eru rétt þroskaðar? Ég var búin að ímynda mér að þær væru viðkomu eins og rófur en svo var ég að þukla á þeim í Bónus um daginn og þær voru allar svona deigar og mjúkar viðkomu og þar sem ég var eitthvað svo óviss um hvort væri í lagi með þær þorði ég ekki að kaupa þær.

  2. Best er að rauðrófurnar séu stinnar en þær eiga nú að vera alveg í lagi þótt þær séu aðeins farnar að mýkjast. Þetta kemur þroska ekkert við, það þýðir bara að þær hafa ekki verið geymdar við réttar aðstæður, líklega í of miklum hita og þurrki, þannig að þær tapa vökva. Það gæti jafnvel verið hægt að gera þær stinnari aftur með því að geyma þær um tíma við rakar aðstæður (t.d. vafðar í rakan eldhúspappír) – en allavega, þær eru í rauninni ekkert farnar að skemmast og ekkert mál ef á að elda þær – ég mundi kannski síður notað þær hráar. Ef þær eru slepjulegar eða farnar að mygla aðeins mundi ég hins vegar alveg láta þær eiga sig.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s