Ég er töluvert í grænmetisréttum þessa dagana, ekki vegna þess að það er janúar (eða veganúar) eða ég sé í einhverju sérstöku átaki eða eitthvað, mér finnst grænmeti bara gott og svo eru sumar tegundir af grænmeti sem eiga sinn árstíma núna. Og þótt mjög margar tegundir af grænmeti sé hægt að fá árið um kring er um að gera að spila svolítið eftir árstíðum.
En samt ætla ég í þetta skipti að koma með uppskrift sem er alls ekkert árstíðabundin – ég notaði sykurbaunir sem voru held ég ræktaðar í Kenía eða einhvers staðar og fluttar alla leið þaðan en hefði reyndar alveg eins getað nota frosnar sykurbaunir, ræktaðar mun nær. Og svo notaði ég frosinn maís. Hins vegar er hægt að nota margs konar grænmeti, smátt skorið – sumt er best að forsjóða eða elda á annan hátt, annað er hægt að setja hrátt út í lummuhræruna.
Ég var búin að nefna það að ég ætlaði að setja hér uppskrift þar sem rauðrófukurlið sem ég gaf uppskrift að í fyrradag hentaði sérlega vel sem meðlæti. En þessar grænmetislummur eru auðvitað alveg ljómandi góðar út af fyrir sig og með ýmsu öðru líka, það þarf sannarlega ekki að hafa rauðrófur með þeim – mér finnst bragðið bara passa sérlega vel saman.
Þessar lummur geta alveg verið fullkominn kvöldverður handa fjölskyldunni en þær henta líka vel sem smáréttur, til dæmis í brunch eða léttan hádegisverð, og svo má hafa þær litlar og bera þær fram kaldar á hlaðborði eða í partíi, e.t.v. með einhverju áleggi.
Ég byrjaði á að sjóða 100 g af sykurbaunum í saltvatni í 2 mínútur. Ég átti ferskar baunir og notaði þær en það hefði alveg eins mátt nota frosnar. Ég notaði hins vegar frosið maískorn sem ég átti – bara svona 50 grömm – og setti það í pottinn með baununum bara til að láta það þiðna.
Ég hellti baununum (og maísnum) svo í sigti og láttu kalt vatn buna á þær til að stöðva suðuna. Flokkaði baunirnar frá og skar þær þvert yfir í mjóar ræmur þegar þær höfðu kólnað aðeins.
Síðan hrærði ég 4 egg, 200 g af kotasælu og 1 msk af olíu saman í skál og kryddaði með pipar og salti.
Svo blandaði ég 75 g af heilhveiti og 1/2 tsk af lyftidufti saman við og síðan baununum og maísnum.
Að lokum tók ég svona 50 g bita af parmesanosti, reif hann fínt og hrærði honum saman við.
Ég hitaði svo dálitla olíu á pönnu og steikti lummurnar við meðalhita í um 3 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þær voru orðnar fallega gullinbrúnar.
Lummurnar er best að bera fram heitar eða volgar og það er sérlega gott að hafa rauðrófukurlið með þeim, ásamt grænu salati, en það mætti líka hafa t.d. soðin hrísgrjón og einhverja sósu, kalda kryddjurtabætta jógúrtsósu til dæmis.
Grænmetislummur
100 g sykurbaunir (eða annað grænmeti)
50 g maískorn
4 egg
200 g kotasæla
1 msk ólífuolía
pipar
salt
75 g heilhveiti
½ tsk lyftiduft
50 g nýrifinn parmesan- eða pecorinoostur
olía til steikingar