Heilbrigð óhollusta …

Þetta hefur nú flest verið heldur heilsusamlegt hjá mér það sem af er árinu, er það ekki? Mikið grænmeti, lítið sætmeti (jæja, ef litið er framhjá mandarínumarmilaðinu, sem var nú samt ekkert svo dísæt, og skosunum, sem voru ekkert sérlega sætar heldur). Kannski ætti ég að segja ,,nei, þetta gengur ekki lengur“ og koma með uppskrift að einhverju sem er löðrandi í súkkulaði og smjöri og sykri og öllu þessu sem er svo rosalega vinsælt – eða einhverju ,,sjúklegu hollustunammi“ sem mér finnst alltaf mjög undarlega orðað.

En ég held ekki.

Hér er samt kaka. Hún er ekki full af súkkulaði og smjöri og sykri en hollustan er kannski umdeilanleg þótt kakan sé alls ekki sjúkleg. Mér finnst hún hins vegar nammigóð. Og þótt ég sé (eiginlega alveg) hætt að borða kökur mundi ég trúlega fá mér eina litla sneið ef ég gerði hana núna. Það er allavega enginn sykur í henni, eða hvað – æi, jú, það er sykur í kexinu og búðingsduftinu og skyrinu og ávaxtasykur í berjunum og berjasafanum … en ekkert svo rosalega mikið samt. Svo að ókei, ekki beint holl en ekkert rosalega óholl. Heilbrigð óhollusta en ekki sjúkleg hollusta, sko. Og skyr er jú hollt og bláber full af andoxunarefnum … Nei, ég er ekkert að reyna að blekkja sjálfa mig til að halda að þetta sé holl kaka og mér væri óhætt að borða fjórðunginn af henni í einum rykk. En þær eru margar óhollari.

Skyrkökur eru mjög vinsælar og mér finnst þessi ein af þeim betri. Fyllingin í þeim flestum er bara skyr og þeyttur rjómi sem er blandað saman og það er nú ekki slæmt svosem en mér finnst slíkar kökur yfirleitt of linar, vil hafa þær stífari og helst svo að hægt sé að skera þær með hníf. Ein leiðin til að ná því er að nota Royal vanillubúðingsduft. Ég er mikill Royal-aðdáandi og á alltaf pakka í skápnum – allavega vanillubúðingsduft því það er svo upplagt að nota það, eina eða tvær matskeiðar kannski, þegar maður þarf að fá þeyttan rjóma til að halda betur lögun eða krem til að vera aðeins stífara.

Ég notaði hins vegar matarlím til að gera berjahlaupið ofan á kökuna. Það er afskaplega einfalt en svo má líka nota bara ávexti, eða þá einhverja góða berjasósu. Ég var með hreinan berjasafa, án viðbætts sykurs, finnst hann alveg nógu sætur en það má líka bæta dálitlum sykri út í ef því er að skipta.

_MG_9403

Fyrst gerði ég botninn og ég byrjaði á að taka 200 g af heilhveitikexi (ég notaði Haustkex, sem er ekki hafrakex, bara svo það sé á hreinu – en það mætti líka nota eitthvert hafrakex eða annað gróft kex svosem), grófmylja það og setja í matvinnsluvél ásamt 50 g af valhnetukjörnum.

_MG_9404

Ég lét svo vélina ganga þar til þetta var orðið að fremur fínni mylsnu.

_MG_9407

Ég bræddi svo 75 g af smjöri og hrærði því saman við ásamt 2 msk af matarolíu (hún er til að botninn harðni ekki of mikið).

_MG_9411

Svo hellti ég mylsnunni í bökuform – það má líka nota lausbotna kökuform – og þrýsti henni létt niður á botninn og aðeins upp með börmunum. Setti formið svo í kæli – það þarf að vera þar a.m.k. 15 mínútur en gott að hafa það lengur.

_MG_9414

Á meðan setti ég kalt vatn í glas, setti þrjú matarlímsblöð út í og lét þau mýkjast í nokkrar mínútur. – Vatnið þarf reyndar ekki að vera ískalt en það þarf að passa að það sé ekki ylvolgt – ég lét einu sinni vatn í glas og lagði matarlím í það án þess að hugsa út í að ég var nýbúin að láta sjóðheitt vatn renna úr eldhúskrananum í nokkrar mínútur svo að fyrsta bunan úr kalda krananum var það volg að matarlímið bráðnaði í stað þess að mýkjast – það bráðnar við innan við 35°C.

_MG_9424

Næst stífþeytti ég 250 mli af rjóma , hrærði svo 500 g af KEA vanilluskyri (verður að vera KEA) saman við og síðan 100 ml af Royal vanillubúðingsdufti.

_MG_9428

Tók botninn úr kæli, hellti skyrfyllingunn í hann og sléttaði yfirborðið með sleikju.

_MG_9429

Ég var með 300 ml af bláberjasafa (má nota annan berjasafa) og hellti 100 ml af honum í lítinn pott, tók matarlímsblöðin úr bleyti og kreisti úr þeim vatnið og setti þau svo út í. Hitaði rólega og hrærði í á meðan – það þarf ekki að hita safann mjög mikið, eins og ég sagði er bræðslumark matarlíms lágt, og hann á alls ekki að sjóða.

_MG_9434

Ég hellti afganginum af berjasafanum (200 ml) í skál, hrærði matarlímsblöndunni saman við og setti svo 250 g af hálffrosnum bláberjum út í.

_MG_9442

Ég lét þetta bíða í örfáar mínútur, þar til safinn er aðeins farinn að þykkna, og hellti honum þá yfir skyrfyllinguna og reyndi að dreifa nokkuð jafnt úr berjunum.

_MG_9712

Ég setti svo kökuna í kæli þar til hlaupið hafði stífnað alveg.

_MG_9728

Frískleg, góð og – tja, ekkert svo rosalega óholl.

*

Botninn:

200 g heilhveitikex (ég notaði Haustkex)

50 g valhnetukjarnar

75 g smjör

2 msk olía

Fyllingin:

250 ml rjómi

500 g KEA vanilluskyr

100 ml vanillubúðingsduft

Ofan á:

3 matarlímsblöð

300 ml bláberjasafi (eða annar berjasafi)

250 g frosin bláber

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s