Það er náttúrlega hávetur, bóndadagurinn og allt og ef ég ætti kall hefði ég nú líklega eldað eitthvað gott handa honum, einhvern notalegan og heimilslegan vetrarrétt, líklega. En ég fékk bara soninn í mat og gaf honum karríkryddaðan þorsk með hrísgrjónum. Hann var nú alveg ágætur. Bæði þorskurinn og sonurinn, sko.
Það kemur samt ekki uppskrift að honum (þorskinum alltsvo) hér, heldur að ávaxtasalati sem er vissulega ekkert sérstaklega vetrarlegt, eiginlega frekar mikið sumarlegt kannski, en mér finnst það samt eiga við á hvaða árstíð sem er. Það er alveg hreint ágætur eftirréttur, til dæmis með mascarponeosti, skyri eða grískri jógúrt, en reyndar má líka hafa það sem meðlæti, til dæmis með kaldri skinku eða þá með kjúklingi.
Ég notaði 1/4 hunangsmelónu, 1/4 gula melónu, svona 1/8-1/6 af vantsmelónu, 1/2 vel þroskað mangó, 2 msk af hunangi, safa úr einni límónu, 2 msk af pistasíum og nokkur basilíkublöð. Og af því að ég átti appelsínublómavatn notaði ég 1 tsk af því líka en það er erfitt að finna það og má alveg sleppa því.
Ég byrjaði á að skera hýðið af melónunum og skafa fræin úr hunangsmelónunni og gulu melónunni. Skar svo melónurnar í teninga og reyndi að skera burt sem mest af fræjum úr vatnsmelónunni. Flysjaði svo mangóið og skar aldinkjötið í teninga. Blandaði melónum og mangói saman í skál.
Ég hitaði hunangið örlítið og hrærði svo safanum úr límónunni saman við, ásamt appelsínublómavatninu (en því má alltsvo sleppa).
Síðan grófsaxaði ég pistasíurnar og setti út í ásamt söxuðum basilíkublöðum. Hellti þessu svo yfir melónurnar og mangóið.
Blandaði þessu vel saman og lét standa í kæli í hálftíma eða svo.
Svo bar ég salatið fram í leginum með mascarponeosti – en það má alveg eins nota t.d. gríska jógúrt, skyr, þeyttan rjóma eða ís. Eða, eins og ég sagði, bera salatið fram með kjötréttum.
*
Melónu- og mangósalat
1/4 hunangsmelóna
1/4 gul melóna
1/8-1/6 vatnsmelóna
1/2 mangó, vel þroskað
2 msk hunang
1 límóna
e.t.v. 1 tsk appelsínublómavatn (má sleppa)
2 msk pistasíur
nokkur basilíkublöð