Undir þrýstingi

Ég ætlaði að fara að tauta eitthvað um að þetta gengi nú ekki, janúar að verða búinn og ég hefði ekki enn komið með eina einustu fiskuppskrift – en svo mundi ég að jú, ég var með uppskrift að saltfisksalati hér rétt eftir áramótin. Og svo er ég reyndar með þrjár fiskuppskriftir í janúarblaði MAN – en þær birtast nú ekki hér fyrr en þá seinna. Svo að það er alveg kominn tími á fisk, held ég. Ég er svosem búin að elda fisk þónokkrum sinnum á árinu, enda hef ég oft nefnt að ég er töluvert fyrir fisk, svona með aldrinum …

Eins og ég sagði í gær eldaði ég karríkryddaðan þorsk með hrísgrjónum handa syninum á bóndadaginn en það kemur nú engin uppskrift að honum (ekki vegna þess að hann væri ekki góður samt, en ég tók engar myndir). En ég skildi eftir dálítinn bita og eldaði mér í hádeginu í dag.

Ég man ekki hvort ég var búin að segja frá því hér að ég rakst á þrýstisuðupott í Góða hirðinum einhverntíma fyrir jólin og keypti hann fyrir einhvern smápening. Ég hafði einhverntíma notað slíkan grip eitthvað örlítið, fyrir mörgum árum, en var hálfhrædd við hann og ég held að það hafi verið af því að þegar ég var mjög ung, átta eða níu ára kannski, las ég bók sem heitir Fjöreggið mitt (The Egg and I á ensku) og segir frá ungum bandarískum hjónum sem flytja út í sveit á norðvesturströnd Bandaríkjanna og setja upp hænsnabú. Þau kunna lítið á sveitalífið; hænsnaræktin er minnsta málið en konunni gengur misjafnlega að vera myndarleg húsmóðir og fylla búrið af niðursuðudósum og sultukrukkum. Og eitt af því sem hún lendir í eru hremmingar með þrýstisuðupottinn, ég man þetta ekki glöggt lengur en líklega sprakk lokið af honum og baunir eða eitthvað þeyttist út um allt eldhús af fítonskrafti. Ég áttaði mig allavega á að þetta mundi vera mikið háskatól, enda kom víst stöku sinnum fyrir að eldri gerðir slíkra potta spryngju ef ekki var farið varlega.

Ég vissi heldur ekki hvort potturinn sem ég keypti væri í lagi. Gerði ekkert með hann strax vegna aðventuanna og utanlandsferðar og þess háttar en tók mig svo til eftir áramótinn og lagði í að prófa gripinn. Varaði samt við á Facebook og sagði þeim sem búa í grenndinni að ef þeir heyrðu sprengingu úr átt frá Grettisgötunni mættu þeir reikna með að þar ætti ég hlut að máli. Þetta var reyndar um þrettándann og það voru enn einhverjir að sprengja og rétt eftir að ég setti þetta inn kvað einmitt við hávær sprenging í grenndinni – en það var semsagt ekki ég og kjúklingabaunirnar sem ég gerði tilraun með soðnuðu á svipstundu. (Eða svo gott sem, á 30 mínútum án þess að hafa verið lagðar í bleyti.)

Síðan er ég búin að nota pottinn mikið og það er sannarlega ekkert að honum. Aðallega hef ég verið að sjóða baunir en svo hef ég búið til tvo eða þrjá pottrétti líka og það kom vel út. Og núna ákvað ég að hafa linsubaunasalat með þorskinum og sjóða baunirnar í þrýstisuðupottinum. En það má auðvitað bara sjóða þær í potti, tekur aðeins lengri tíma. Suðutíminn á grænum linsubaunum er svolítið misjafn, yfirleitt 30-40 mínútur – það fer meðal annars eftir því hvað linsurnar eru gamlar. Ef maður hefur átt þær í skápnum í ár eða lengur má alveg reikna með suðutíma í lengra lagi.

_MG_7478

En ég notaði semsagt pottinn og byrjaði á að setja 75 g af grænum linsubaunum (þetta var jú fyrir einn) í hann ásamt 1 tsk af smjöri og svolitlu salti. Hellti svo vatni yfir – svona 250 ml – skrúfaði lokið á pottinn og stillti á hæsta hita. Það er best að vera ekkert að fara frá pottinum fyrr en þrýstingur er kominn upp og gufa kemur út um ventilinn, þá lækkaði ég hitann og stillti klukkuna á 8 mínútur.

_MG_7480

Á meðan tók ég (venjulegan) pott, hitaði 1 msk af olíu í honum og setti svo einn saxaðan rauðlauk og einn smátt saxaðan hvítlauksgeira út í. Kryddaði með pipar og salti og lét krauma í nokkrar mínútur, þar til laukurinn var meyr.

_MG_7483

Það má alls ekki opna pottinn nema láta þrýstinginn inn í honum lækka fyrst. Stundum (t.d. þegar maður sýður stærri baunir) er best að láta bara pottinn standa þar til þrýstingurinn hefur lækkað af sjálfu sér, það tekur 10-15 mínútur eða svo, en með linsubaunir og margt annað sem þarf stuttan suðutíma er best að setja pottinn bara í vaskinn og láta kalt vatn buna á lokið smástund.

_MG_7486

Ég opnaði svo pottinn, hellti baununum í sigti og setti þær svo út í pottinn með lauknum. Ég bætti svo við 1/2 tsk af herbes de provence (mætti nota aðrar kryddjurtir) og nokkrum ólífum og lét þetta krauma í nokkrar mínútur.

_MG_7490

Ég tók svo þorskinn, þetta var svona 150 gramma biti, og kryddaði hann með pipar og salti. Bræddi 1 msk af smjöri á lítilli pönnu og steikti fiskinn við góðan hita í 2-3 mínútur á hvorri hlið.

_MG_7493

Ég setti lófafylli af klettasalati á disk, hellti linsublöndunni yfir og setti fiskbitana ofan á. Bar svo sítrónubáta fram með.

_MG_7520

En eins og ég sagði, það má alveg eins sjóða linsurnar í venjulegum potti. Bragðið verður það sama.

*

Pönnusteiktur þorskur með linsubaunum og klettasalati

(fyrir 1)

75 g grænar linsubaunir

2 msk smjör

salt

1 msk ólífuolía

1 laukur eða rauðlaukur

1 hvítlauksgeiri

pipar

½ tsk herbes de provence eða önnur kryddjurtablanda

6-8 ólífur

150 g þorskur, gjarna hnakkastykki

klettasalat

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s