Sykurlaus, fitulaus og stappfull af góðgæti

Ég er öðru hverju að gera tilraunir með sykurlausar kökur, bakkelsi og eftirrétti. Og þegar ég segi sykurlaust meina ég með engum hvítum sykri, púðursykri, hrásykri, hunangi, agavesírópi (eða öðru sírópi), aspartame, sýklamati, sakkaríni, súkríni, xylitoli, stevíu og hvað þetta heitir nú allt saman.

En ég nota ávexti og stundum ávaxtasafa. Auðvitað er sykur í ávöxtunum og hann er út af fyrir sig svosem ekkert skárri en annar sykur en það fylgir bara ýmislegt gott með svo að mér þykir skárra að nota ávexti en önnur sætuefni. Ég er hins vegar að venja sjálfa mig af sykurlöngun (sem gengur ekki ef maður er alltaf að reyna að nota alls konar sætuefni til að viðhalda sykurbragðinu) og vitið þið, það gengur bara ágætlega.

Í gær fann ég kökubauk með nokkrum smákökum í, sem höfðu fyrir misgáning orðið eftir fyrir jólin (ég bakaði nokkrar sortir, flestar kláruðust eða næstum því í jólaboðinu mínu og svo gaf ég syninum afganginn áður en ég fór til útlanda um jólin). Þetta eru ykkur að segja ferlega góðar kökur, með þrenns konar súkkulaðibitum og hafragrjónum og pekanhnetum og gúmmulaði. Ég ákvað að fá mér eina til að prófa (þær voru nú ekkert stórar). Og það merkilega var að mér fannst hún miklu sætari en mér hefur áður þótt þessar kökur vera; eiginlega dísæt. Og þótt kakan væri góð sat sykurbragðið lengi eftir í munninum og það þótti mér ekki gott. Mig langaði ekki vitund í aðra.

En allavega, hér er kaka – eða reyndar frekar brauð – sem inniheldur ekki sykur í neinu öðru formi en ávöxtum. Og reyndar ekki fitu heldur, nema þá sem er í hnetunum og eggjunum (og svo er voða gott að borða hana með smjöri). Og svo er heilhveiti og hafragrjón í henni en ekkert hvítt hveiti … hún er semsagt í hollari kantinum. Og ansi hreint góð, það fannst vinnufélögunum líka í morgun, heyrðist mér.

Það er hefð fyrir gráfíkjukökum í minni fjölskyldu en þessi er allt öðruvísi. Þetta er uppskrift sem er að nokkru leyti sniðin eftir uppskrift sem var í BBC Good Food en ég gerði töluverðar breytingar á henni og það kom mjög vel út. Það er hægt að nota alls konar samsetningar af hnetum og fræjum, ég notaði bara sitt lítið af hverju en það er ágætt að það sé fjölbreytt.

_MG_7524

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 160°C. Svo tók ég 175 g af gráfíkjum og skar í bita. Ég var með mjúkar gráfíkjur en þar sem þær eru lagðar í bleyti er það ekkert nauðsynlegt. Þær voru óvenju dökkar, ég veit ekki af hverju en það var allt í lagi með bragðið af þeim. Ég setti þær svo í skál ásamt 125 g af rúsínum og 60 g af hafragrjónum. Svo hitaði ég 350 ml af vatni að suðu, hellti yfir, hrærði og lét standa í 10-15 mínútur.

_MG_7530

Á meðan vigtaði ég 150 g af hnetum, mölndlum og fræjum – ég notaði 60 g af fræblöndu (salatblöndu) úr poka og afgangurinn var blanda af pekanhnetum, valhnetum, möndlum og pistasíum. Ég grófsaxaði stærri hneturnar og möndlurnar.

_MG_7535

Nú var ávaxta- og hafragrjónablandan orðin að þykkum graut og ég setti hana í hrærivélarskálina ásamt tveimur eggjum og hrærði saman. Blandaði svo saman 200 g af heilhveiti, 2 1/2 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda og 1/2 tsk salt og setti út í. Svo tók ég frá 2-3 msk af hnetublöndunni en setti hitt út í deigið og hrærði saman – bara rétt eins og þurfti til að þetta blandaðist.

_MG_7544

Ég setti bökunarpappír á botninn á aflöngu kökuformi. Það er viðloðunarfrítt svo að ég var ekkert að klæða hliðarnar líka en ef svo er ekki er það vissara. Svo setti ég deigið í formið, stráði fráteknu hnetublöndunni yfir og setti svo kökuna á neðstu rim og bakaði hana í um 1 klst., eða þar til prjónn sem ég stakk í hana kom hreinn út.

_MG_7552

Það er vissara að líta á kökuna þegar svona 15 mínútur eru eftir og ef hneturnar eru farnar að dökkna er gott að breiða álpappírs- eða bökunarpappírsbút yfir svo að þær brenni síður.

_MG_7564

Ég lét kökuna hálfkólna í forminu en losaði hana svo úr því, setti hana a grind og lét hana kólna alveg. Það er best að skera hana með góðum, sagtenntum hníf af því að það er svo mikið af hnetum í henni að hún getur molnað ef hnífurinn bítur illa.

_MG_7592

Það er hægt að borða hana eina sér en hún er langbest með smjöri. Eða jafnvel kotasælu ef maður vill fituminna viðbit.

*

Gráfíkjukaka með hnetum og fræjum

175 g gráfíkjur

125 g rúsínur

60 g hafragrjón

350 ml sjóðheitt vatn

150 g blandaðar hnetur, möndlur og fræ

2 egg

200 g heilhveiti

2 1/2 tsk lyftiduft

1 /2 tsk matarsódi

½ tsk salt

Um 1 klst. við 160°C.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s