Ég er nýbúin að senda bók í prentsmiðju sem er væntanleg í búðir í næsta mánuði. Hún er ekki mjög stór, í sama broti og Múffur í hvert mál og Kjúklingaréttir Nönnu, sem einhverjir kannast nú sennlega við, um 160 blaðsíður og í henni eru eitthvað í kringum 80 uppskriftir að hefðbundnum íslenskum mat – hversdags- og sparimat frá 20. öld, hér er ekki verið að fitja upp á miklum nýjungum, heldur fær nostalgían að ráða. Þessvegna fékk bókin heitið Ömmumatur Nönnu.
Þetta er semsagt ömmumaturinn minn – í tvenns konar merkingu. Annars vegar er þetta matur sem ég ólst upp við, að vísu hjá mömmu en ekki ömmu því aðeins önnur amma mín var á lífi þegar ég var barn og hjá henni borðaði ég sjaldan – og svo er ég náttúrlega sjálf amma og allt sem ég elda er ömmumatur barnabarnanna minna, þannig séð … nei, það þýðir þó ekki að ég setji alls konar undarlega og exótíska rétti sem ég hef borið á borð fyrir þau þarna inn. En þótt margt sé alveg óbreytt eins og ég lærði af mömmu bind ég mig ekki eingöngu við hversdagsmat minnar kynslóðar, rétti sem Helga Sig hafði með í sínum bókum – ég fer lika fram á síðustu áratugi tuttugustu aldar og tek með nokkra rétti sem eru dæmigerðir fyrir þann tíma. Fyrir okkur yngri ömmurnar.
Hér eru tvö brot úr formála bókarinnar:
,,Margar af uppskriftunum í þessari bók fékk ég frá mömmu og hún hafði fengið þær hjá ömmu sinni eða föðursystur, eða þá í húsmæðraskólanum. Sjaldnast þó niðurskrifaðar, við lærðum allar mest af að fylgjast með þeim sem eldri voru eða spyrja þær. Stundum sveik minnið auðvitað eitthvað eða maður ákvað að gera einhverjar breytingar á eldri uppskriftum, bæta einhverju við eða taka út, krydda öðruvísi eða eitthvað slíkt. Og þannig verða einmitt matarhefðir til og breytast og þróast. Það er nefnilega mikill misskilningur að matarhefðir séu eitthvað óumbreytanlegt og meitlað í stein, heldur hlýtur hver kynslóð að setja mark sitt á þær og þeim mun fremur sem breytingar á ytri aðstæðum eru örari.“
…
,,Auðvitað er afar vandasamt að velja, bæði hvaða rétti eigi að hafa með í lítilli bók af þessu tagi og ekki síður hvaða útgáfu af alþekktum réttum eigi að nota því oft liggur við að hver fjölskylda eigi sína uppskrift. Mér fannst réttast að fara þá leið að velja aðallega minn eigin heimilismat, rétti sem eru eða voru gjarna á boðstólum í mínu eldhúsi eða á bernskuheimilinu og nota líka uppskriftir sem ég hef notað í áranna rás – sumar nær óbreyttar eins og ég lærði þær fyrst, aðrar hafa eitthvað þróast hjá mér með tímanum. Sumar eldri uppskriftir eru færðar dálítið til nútímans, fitu- og sykurmagn e.t.v. minnkað eitthvað og ég nota t.d. smjör í stað smjörlíkis, sem var allsráðandi í matargerð áður fyrr, meira grænmeti notað og fleira.“
Sem sagt, flestar uppskriftirnar í bókinni eru nokkuð hefðbundnar – eða allavega samkvæmt þeim hefðum sem ég lærði og hef fylgt – en þó ekki allar og uppskriftin sem hér kemur er einmitt dæmi um það. Blómkálssúpa hefur verið algeng hérlendis í áttatíu ár eða lengur og þegar mikið var haft við var hún gjarna rjómalöguð og sumir hafa slíka súpu enn í forrétt á jólunum. En þessar súpur voru næstum alltaf uppbakaðar eða þykktar með smjörbollu eða hveitijafningi. Þessi hér er það hins vegar ekki, heldur er hún maukuð og verður því léttari en mjög bragðgóð. (Ef maður kann að meta blómkálsbragð, sko …). Hún er því hveitilaus en að öðru leyti er hráefnið hefðbundið. Og súpur gerast nú ekki mikið einfaldari.
Ég byrjaði á að taka frekar stóran blómkálshaus, skera af honum laufblöðin og stöngulinn og skera hann svo í fremur litla bita. Síðan saxaði ég einn lauk. Bræddi 2 msk af smjöri í potti og lét laukinn krauma í því í nokkrar mínútur, þar til hann var farinn að mýkjast.
Þá setti ég allt blómkálið út í og síðan 500 ml af nýmjólk, 200 ml af vatni og 2 tsk af kjúklingakrafti (eða grænmetiskrafti ef maður vill frekar hreinan grænmetisrétt). Kryddaði líka með pipar og salti.
Síðan hitaði ég þetta að suðu og lét malla í hálflokuðum potti í um 20 mínútur, eða þar til blómkálið var orðið vel meyrt. Þá tók ég pottinn af hitanum og lét súpuna kólna í nokkrar mínútur.
Ég setti svo allt saman í matvinnsluvélina (það má líka nota blandara) – í tveimur eða fleiri skömmtum ef skálin á vélinni er ekki þeim mun stærri. Lét svo vélina ganga þar til súpan var alveg slétt og silkimjúk. Ef maður vill hafa blómkálsbita í súpunni má líka taka hluta af blómkálinu frá áður en súpan er maukuð.
Síðan hellti ég súpunni aftur í pottinn, hrærðu 150 ml af rjóma saman við (það má sleppa því en súpan verður betri), hitaði að suðu og lét malla 1-2 mínútur. Smakkaði og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum. (Ef ég hefði sleppt því að mauka eitthvað af blómkálinu hefði ég líka sett það út í þarna rétt í lokin.) Ég stráði ögn af þurrkaðiri steinselju yfir súpuna til að skreyta hana ögn en það má nota aðrar kryddjurtir, ferskar eða þurrkaðar, eða sleppa því bara.
Svo er bara að bera hana fram með góðu brauði.
*
Blómkálssúpa
1 blómkálshaus
1 laukur
2 msk smjör
500 ml mjólk
200 ml vatn
2 tsk kjúklingakraftur eða grænmetiskraftur
hvítur pipar
salt
150 ml rjómi
e.t.v. þurrkuð steinselja eða aðrar kryddjurtir
Þessa verð ég að eignast☺