Afgangabökur

Ég hef ekki verið með mikið af afgangaréttum hér, enda eru satt að segja ekki alltaf miklir afgangar úr að spila – það er þó ekki vegna þess að ég (eða ég og sonurinn, sem er oft í mat) hámi alltaf í mig þar til maturinn er búinn, heldur elda ég yfirleitt ekki svo mikið að það verði miklir afgangar – en ég reyni þó oftast að hafa eitthvað afgangs til að fara með í vinnuna daginn eftir og borða í hádeginu.

En stundum verður þó afgangur, ekki síst þegar ég hef verið með gesti í mat, og hér er dæmi um rétt sem hægt er að gera úr afgangi af kjúklingi. Uppskriftin var í desemberblaði MAN og þar nefndi ég að það mætti eins nota kalkúnaafgang í hana eftir jólin eða áramótin. En reyndar er þetta tilbrigði við uppskrift sem er í bókinni Kjúklingaréttir Nönnu, hér er þó bætt við baunum og fleiru til að gera réttinn matarmeiri. Það mætti líka nota ýmiss konar grænmeti en þá er best að forsjóða það eða steikja með sveppunum svo að það verði örugglega meyrt. Eða nota afganga, ef kjúklingurinn var upphaflega borinn fram með grænmeti.

Ég gerði litlar bökur úr þessu en það má líka gera eina stærri. Þessar litlu geta verið matarmikill forréttur

Ég notaði frosið smjördeig, 1 pakka, og byrjaði þess vegna á að taka það úr frysti svona klukkutíma fyrr. Eða daginn áður og láta það þiðna í ísskápnum. – Það er reyndar ekki víst að þurfi að nota heilan pakka, ef eru fimm plötur í honum þarf bara þrjár ef maður er með sex skálar. Og svo kveikti ég á ofninum og stillti hann á 200°C.

Síðan tók ég kjúklinginn sem ég átti (400-500 g, má vera meira eða minna), tók hann af beinunum og skar hann í bita. Ef maður á ekki afgang en vill nota hráan kjúkling er best að skera hann í fremur litla bita, krydda með pipar og salti og steikja bitana í svolítilli olíu í 6-8 mínútur við meðalhita, eða þar til þeir eru rétt steiktir í gegn.

_MG_3374

En ég var með afgang og þess vegna hitaði ég 1 msk af smjöri og 1 msk af olíu á pönnu (eða reyndar í frekar víðum potti). Saxaði hálfan lauk og einn hvítlauksgeira og skar 200 g af sveppum í bita. Lét þetta krauma í nokkrar mínútur og kryddaði með 1/2 tsk af þurrkuðu timjani, cayennepipar á hnífsoddi, pipar og salti. Hellti svo 200 ml af rjóma á pönnuna  og setti kjúklinginn og svona hálfa dós af kjúklingabaunum (án vökva) saman við.

_MG_3377

Ég lét þetta sjóða þar til rjóminn var farinn að þykkna. Þá tók ég pottinn af hitanum.

_MG_3378

Ég tók svo lítlar, eldfastar skálar – ég notaði sex en fjórar aðein stærri hefðu líka gengið, eða eitt stærra mót eins og ég sagði. Skálarnar sem ég notaði eru dálítið stærri en venjulega souffléform en það má nota þau líka, þá bara fleiri.

Síðan tók ég deigið, sem nú var þiðnað, og skar út hringi, jafnstóra eða aðeins stærri en mótin. Ef þau eru víð gæti þurft að fletja deigið aðeins út til að fá nógu stóra hringi. (Og ef maður nennir ekki að gera hringi ganga ferhyrningar svosem alveg líka.)

_MG_3381

Ég smurði skálarnar/formin með dálitlu smjöri, skipti kjúklingakássunni jafnt á þær og raðaði þeim á bökunarplötu.

_MG_3383

Ég lagði svo deiglok yfir hverja skál og penslaði með eggjarauðu.

_MG_3407

Svo setti ég plötuna með formunum á næstneðstu rim í ofninum og bakaði þetta í um 15 mínútur, eða þar til deigþekjan var orðin fallega gullinbrún.

_MG_3431

Ef þetta er borðað sem aðalréttur er gott að hafa salat með en ef bökurnar eru hafðar sem forréttur eða smáréttur eru þær bara borðaðar eintómar. Mér finnst þær eiga sérlega vel við á köldum vetrardegi.

_MG_3442

Litlar kjúklinga-sveppabökur undir smjördeigsloki

1 pakki smjördeig, frosið

400-500 g kjúklingur, gjarna afgangur (mætti líka vera kalkúnakjöt)

200 g sveppir

1 msk smjör

1 msk olía

½ laukur

1 hvítlauksgeiri

½ tsk þurrkað timjan

cayenne- eða chilipipar á hnífsoddi

pipar

salt

200 ml rjómi

½ dós kjúklingabaunir eða aðrar baunir (má sleppa)

smjör til að smyrja formin

1 eggjarauða

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s