Eins og ég hef áður nefnt hætti ég svotil alveg að borða sykur fyrir þremur mánuðum; hafði reyndar dregið nokkuð úr sykurnotkun fyrir allnokkru síðan, var alveg hætt að drekka gosdrykki og þess háttar, til dæmis. Og ég hef aldrei verið ein af þeim sem stend í biðröð við nammibarinn í Hagkaup í Skeifunni á miðnætti á föstudagskvöldi eða eitthvað svoleiðis. Reyndar held ég að ég hafi bara aldrei nokkurn tíma keypt mér sælgæti á nammibar. Ekki nema hugsanlega í fylgd barnabarnanna …
En ég var veik fyrir góðu konfekti og súkkulaði og heimagerðri karamellusósu og pekanhnetuvínarbrauðum og … já, hinu og þessu sætmeti. Það var samt ótrúlega auðvelt að leggja þetta allt til hlðar. Ég er líklega ekki eins mikill sykurfíkill og ég hafði haldið. Ég sat til dæmis í kaffistofunni í hádeginu og það var stór karfa með Nóakonfekti fyrir framan mig og tvær með súkkulaðirúsínum og salthnetum og mig langaði bara ekkert í sætindin, ekki vitund (en ég tindi fáeinar salthnetur úr blöndunni). Svo að þetta gengur nú allt saman ágætlega.
Það er ekki þar með sagt að ég borði aldrei neitt sætt. En ég ákvað að sleppa öllum sykri, hvort sem hann væri í formi sykurs, hunangs, síróps og annars slíks, eða sætuefna af ýmsu tagi – ég er í fyrsta lagi að leitast við að sneiða sem mest hjá unnum matvælum/verksmiðjuframleiddum vörum og þessi sætuefni eru óneitanlega öll í þeim flokki; í öðru lagi finnst mér yfirleitt aukabragð af þeim sem mér líkar ekki; og í þriðja lagi er markmikið einfaldlega að losa mig sem mest við sykurþörfina/sykurlöngunina og þessi efni viðhalda henni, þótt þau séu kannski kaloríusnauð og allt það. Þetta er eins og að vera hættur að reykja en nota stöðugt nikótínpúst eða plástra eða eitthvað slíkt.
Ég hætti einmitt að reykja fyrir 29 árum. Vaknaði einn morguninn og í stað þess að kveikja í sígarettu nánast um leið og ég var búin að opna augun hugsaði ég ,,ég er búin að reykja nóg“, henti þessum hálfa pakka sem ég átti og hef ekki tekið smók síðan. Þetta er hins vegar ekki alveg svona einfalt með sykurinn …
Ég er þó ekki búin að breytast í einhvern sykurfanatíker, langt í frá. Ég er ekki þeirrar skoðunar að sykur sé eitur sem helst ætti að banna, ef ég elda/baka eitthvað sem inniheldur sykur (sem kemur fyrir) smakka ég til að athuga hvort bragðið sé í lagi – en reyndar er ég þegar farin að finna mun meira fyrir sykurbragði en áður svo líklega er ég byrjuð að afvenjast því – og ef ég er til dæmis boðin í mat fæ ég mér smávegis af eftirréttinum. En bara smá.
Það er samt ein tegund sætmetis/sykurs sem ég nota og það eru ávextir, sem margir innihalda töluvert af ávaxtasykri. Sem er auðvitað sykur líka og síst hollari en annar sykur en mér finnst hann einhvernveginn betri – það fylgja jú ýmis hollefni með, þetta er ekki innantómur sykur allavega. Ég borða ávexti, þó ekki í neinu óhófi, en drekk ekki ávaxtasafa (nema eitt glas á viku). Hins vegar nota ég ávexti, bæði ferska og þurrkaða, og dálítið af ávaxtasafa líka til að sæta það sem ég baka og eftirrétti sem ég geri.
Mér finnst mjög gaman að stunda tilraunastarfsemi í þessu. Ég er ekkert endilega að reyna að gera eftirlíkingar af réttum sem maður er vanur að moka bara sykri út í – eða púðursykri eða hrásykri eða hunangi eða hlynsírópi eða einhverju – frekar að ég spili af fingrum fram út frá hefðbundnum uppskriftum til að gera eitthvað nýtt, kannski líkt fyrirmyndinni, kannski allt ððruvísi. Þetta finnst mér skemmtileg eldamennska (þótt ekki takist allt jafnvel).
Í dag var ég til dæmis að vandræðast með dós af kókosmjólk sem ég opnaði (eiginlega óvart) í gær og notaði svo ekki. Var ekki svöng, búin að ákveða að fá mér bara hrökkbrauð og egg í kvöldmatinn og kannski eitthvað smávegis á eftir. Og þá datt mér í hug að prófa að gera kakósúpu.
Kakósúpa hefur fengið á sig heldur neikvætt orð á síðustu árum, sem mér finnst mjög ósanngjarnt því ég er áhugamanneskja um hefðbundna íslenska matargerð. Það er náttúrlega fyrst og fremst út af sykrinum. Nú var ég reyndar vön að gera kakósúpu sem var bara hreint ekki mjög sæt og síst óhollari en aðrar mjólkursúpur. En mér datt í hug að prófa að gera ósæta kakósúpu. (Og mjólkurlausa og glútenlausa, og gott ef ekki kolvetnasnauða – annars er ég rugluð í öllu þessu -leysis-dæmi.)
Ég byrjaði á að hella kókosmjólkinni í pott, hita hana að suðu og láta malla í nokkrar mínútur. Á meðan tók ég steinana úr sex mjúkum döðlum og setti þær í matvinnsluvélina (eða blandara) ásamt 2 msk af kakódufti, 1/2 tsk af kanel (ég set yfirleitt kanel í hefðbundna kakósúpu líka) og salti á hnífsoddi. Svo setti ég svona hálfan bolla af heitri kókosmjólk út í …
´… og lét vélina ganga þar til þetta var orðið að þykku, dökku mauki.
Ég hellti svo maukinu út í kókosmjólkina í pottinum, hrærði vel og lét malla í 1-2 mínútur. Venjulega þykki ég kakósúpu með dálitlu kartöflumjöli en fannst þess ekki þurfa.
Ég hellti svo súpunni í skál í gegnum sigti til að losna við döðluhýðisbitana – ef matvinnsluvélin/blandarinn er mjög öflug er ekkert víst að þess þurfi.
Ég setti skeið af kornflexi út á súpuna. Þetta kornflex var til síðan ég gerði kornflexkökur handa Úlfi fyrir jólin og ég var svo viss um að lífræna kornflexið frá Sollu væri sykurlaust að ég leit ekki einu sinni á miðann fyrr en eftir á – en þá sá ég að það inniheldur næstum alveg jafnmikið af sykri og venjulegt Kellogs. En jæja, ég reiknaði út að í þessari matskeið væri svosem eins og fjórðungur úr grammi af sykri. Svo það drepur nú engan … en ef ég kaupi kornflex aftur þarf ég að reyna að finna sykurlaust. En svo mætti líka setja t.d. þeyttan rjóma út á súpuna.
Allavega, þetta var fínasta kakósúpa. Kom mér eiginlega á óvart, miðað við hráefnið, hvað hún var lík þeirri sem ég er vön að gera (sem er reyndar, eins og ég sagði áður, ekki mjög sæt).
Kókos-kakósúpa
1 dós kókosmjólk
6 döðlur
2 msk kakóduft
1/2 tsk kanell
salt á hnífsoddi