Það styttist í jólaföstuna þótt hún sé reyndar ekki mjög löng þetta árið, fyrsti sunnudagur í aðventu er 2. desember og sá síðasti á Þorláksmessu. Jólaundirbúningur sjálfsagt kominn á fullt hjá mörgum og auglýsingar og jólalög dynja á manni. En þótt sjálf jólin séu auðvitað hápunkturinn á þessu öllu hjá flestum er líka ástæða til að vera góð við sig og aðra á meðan þau eru undirbúin – já, og reyndar alltaf, auðvitað …
Þess vegna er hér uppskrift – ef uppskrift skyldi kalla – að ótrúlega einföldu en góðu sælgæti til að narta í, hvort heldur er á aðventunni eða öðrum tímum. Og það er næstum því hollt líka. Næstum sko. Eða að minnsta kosti sykurlítið. Af nammi að vera.
Þetta eru semsagt súkkulaðihúðaðar möndlur. En ef maður vill frekar öðruvísi möndlur, þá má nú finna uppskriftir að þeim líka. Til dæmis brenndum möndlum eða söltuðum möndlum eða einhverju slíku. Jafnvel kryddaðri hnetublöndu.
En þessar eru alltsvo með súkkulaði. Og salti. Þetta verða um 450 g en auðvitað er hægt að gera minni skammt, helminga uppskriftina til dæmis.
Ég byrjaði á að taka 200 g af dökku súkkulaði, 70% minnir mig, eða kannski 80%. Braut það í bita og setti í tvöfaldan pott (eða í skál yfir vatnsbaði, eða í örbylgjuofn eða hvernig sem maður vill nú bræða súkkulaðið sitt). Byrjaði að hræra í með sleikju um leið og súkkulaðið byrjaði að bráðna og tók það svo af hitanum um leið og það var allt bráðnað.
Svo hrærði ég 250 g af heilum möndlum saman við. Hér er um að gera að nota góðar möndlur – ekki einhverjar sem maður finnur í skápnum og hafa legið þar í hálft ár eða lengur – og mér finnst best að þær séu með hýði en það má líka nota afhýddar.
Svo tók ég þær upp með gaffli, nokkrar í senn (til að sem minnst af umframsúkkulaði fylgi með), og dreifðuiþeim á bökunarpappírsörk. Ég reyndi að gæta þess að þær lægju ekki hver ofan á annarri og snertust sem minnst.
Ég létsúkkulaðið kólna aðeins en stráði svo dálitlu flögusalti yfir möndlurnar áður en það fór að storkna …
… og svo má líka strá smávegis grófkorna hrásykri yfir, það fer bara eftir smekk. Líka er hægt að strá sykri yfir sumar möndlurnar en ekki allar.
Og þá er bara að kæla möndlurnar þar til súkkulaðið hefur storknað, losa þær af pappírnum og brjóta þær sem eru fastar saman í sundur. Setja þær svo í krukku eða skál eða dreifa bara úr þeim á bakka.
Portvín er ansi gott með. Eða bara kaffi eða mjólk eða vatn eða hvað sem manni sýnist …
Súkkulaðimöndlur
250 g möndlur
200 g dökkt súkkulaði, 70–85%
flögusalt
grófkorna hrásykur (má sleppa)