Ég var á bókamessunni í Hörpu um helgina og þá finnst mér nú alltaf að jólavertíðin sé fyrst komin í gang í bókaútgáfunni. Það er alltaf gaman, alltaf fullt af áhugaverðum bókum og á bókamessuna mætir fult af áhugasömu fólki sem gaman er að tala við. Ég var í dag að kynna bókina mína, Beint í ofninn, og var með smakk úr henni.
Veðrið var ansi fallegt í dag en það var líka kalt og þá er eiginlega kominn tími fyrir heitan súkkulaðidrykk. Þessi hér var gerður fyrir áramótablað MAN í fyrra og er dálítið áfengur en það má líka sleppa líkjörnum. Ég gerði lítil skot og þetta urðu um 20 smáglös en það má líka bera þetta fram í bollum og þá í stærri skömmtum – já, og t.d. minnka uppskriftina um helming og þá gæti þetta passað í tvo bolla eða könur.
Það má bera drykkinn fram heitan en líka við stofuhita. Ég hafði karamellusósu út á en í staðinn mætti bara strá t.d. rifnu súkkulaði yfir rjómann.
Ég byrjaði á að gera karamellusósuna: Setti 100 ml af púðursykri, 75 ml af mjólk, 50 ml af rjóma og 60 g af smjöri í lítinn pott, hitaði að suðu og hrærði þar til allt var bráðið og samlagað. Lét þetta sjóða í um 2 mínútur. Tók svo pottinn af hitanum og lét sósuna kólna (hún var ljósari en hún sýnist á myndinni).
Svo lagaði ég svona hálfan lítra af vel sterku kaffi. Braut 100 g af 70% súkkulaði í bita, setti þá í skál eða könnu ásamt 4 msk af púðursykri (eða eftir smekk), hellti sjóðheitu kaffinu yfir og hrærði þar til súkkulaðið var bráðið og sykurinn leystur upp. Svo hrærði ég 150 ml af kaffilíkjör (mætti líka vera t.d. súkkulaðilíkjör) saman við og síðan 100 ml af rjóma.
Svo náði ég í lítil glös og hellti kaffiblöndunni í þau en skildi eftir um 2 cm borð á hverju glasi.
Stífþeytti svo um 200 ml af rjóma, setti kúfaða teskeið af þeyttum rjóma ofan á .og hellti svo dálítilli karamellusósu yfir rjómann.
*
Mokkasúkkulaðiskot með karamellusósu
1/2 l vel sterkt kaffi
100 g súkkulaði, 70%
4 msk púðursykur, eða eftir smekk
150 ml kaffilíkjör (eða súkkulaðilíkjör)
300 ml rjómi
Karamellusósa:
100 ml púðursykur
75 ml mjólk
50 ml rjómi
60 g smjör