Er ekki kominn tími á eins og eina jólauppskrift? Jólamat sko, ekki kökur og nasl. Þótt það sé nú ágætt líka. Og ég mundi áðan eftir uppskrift að dálítið hátíðlegri – eða allavega litríkri – andasteik sem ég gerði fyrir jólablað Moggans, í fyrra líklega fremur en hitteðfyrra.
Reyndar fann ég lengi vel enga mynd af öndinni. Ljósmyndarinn tók náttúrlega fullt af myndum og svo tók ég einhverjar myndir þegar hann var farinn. En í einhverjum vitleysisgangi hef ég greinilega eytt þeim myndum öllum – nema ég fann á endanum eina mynd sem ég hafði sett á Facebook og hún verður að duga. Þetta var nokkuð falleg önd þótt ég segi sjálf frá.
Uppskriftin er að mestu úr bókinni Pottur, panna og Nanna (uppseld hjá Forlaginu, held ég, mögulega til í einhverjum búðum ennþá), en hér er öndin þó fyllt og meðlætið er annað. Mér finnst best að brúna öndina bæði í upphafi og í lokin en hafa hægan millikafla.
Ég var með Barberry-önd, nokkuð þétta og svera. Og hér er þá uppskriftin.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 230°C. Tók svo innmatinn úr öndinni og skar hann í bita. Þerraði öndina vel með eldhúspappír. Skar svo krossmynstur í fitulagið á bringunni – en ekki niður í kjötið – til að feitin sem bráðnar af öndinni geti auðveldlega runnið niður. Ekki nauðsynlegt en mér finnst það betra. Kryddaði svo öndina að innan og utan með pipar og salti. Svo flysjaði ég tvær perur -það má nota epli – skar þær í fjórðunga og tók svo 100 g af gráfíkjum (nú, eða apríkósum) og skar þær í tvennt (muna að taka líka stilkinn af þeim). Fyllti svo öndina með ávöxtunum.
Svo skar ég 2 lauka, 2-3 gulrætur og 2 sellerístöngla niður og dreifði á botninn á stórum steypujárnspotti (eða eldföstu móti með þéttu loki). Dreifði innmatnum yfir, ásamt 2 rósmaríngreinum (má vera timjan) og 1-2 lárviðarlaufum (má sleppa en það er svo ósköp handhægt að eiga lárviðartré í stofuglugganum) og kryddaði með pipar og salti. Setti svo öndina ofan á með bringuna upp og steikti hana í um 20 mínútur. Þá hellti ég svona 250 ml af sjóðandi vatni í pottinn, setti lok á hann, lækkaði hitann í 140°C og steikti öndina í um 1½ klst.
Þá tók ég pottinn út og hækkaði hitann aftur í 230°C. Hellti soðinu úr pottinum í sigti sem ég hafði yfir skál. Setti pottinn með öndinni aftur í ofninn, án loks, og steikti í um 15 mínútur, eða þar til hamurinn var fallega gullinbrúnn og stökkur. Þá tók ég öndina út og lét hana bíða á meðan ég bjó til sósuna: Fleytti mestalla fituna ofan af soðinu, setti það í pott og hitaði að suðu. Svo þykkti ég það hæfilega með sósujafnara eða hveitijafningi, smakkaði og bragðbætti eftir smekk. Það má bæta við andakrafti en ætti samt ekki að þurfa. Sama með rjóma.
Ég setti svo öndina á stórt fat og dreifði meðlæti allt í kring. Það þarf ekkert endilega að vera svona litríkt en ég er litaglöð manneskja.. Meðlætið á myndinni er heimagert rauðkál, heilar litlar perur léttsoðnar í sítrónuvatni, heilar gráfíkjur, gufusoðið spergilkál, mandarínuhelmingar (þverskornir) léttsteiktir í smjöri, radísur, pekanhnetur og bláber, skreytt með fersku lárviðarlaufi og steinselju. Með þessu er svo upplagt að hafa t.d. soðnar og smjörsteiktar kartöflur, auk sósunnar.
*
Heilsteikt aliönd með perum og gráfíkjum
1 aliönd
pipar og salt
2 perur (eða epli)
100 g gráfíkjur (eða apríkósur)
2 laukar
2–3 gulrætur
2 sellerístönglar
2 rósmaríngreinar (einnig má nota timjan)
1–2 lárviðarlauf
250 ml vatn, sjóðandi
sósujafnari eða hveiti til þykkingar