Jólamatur fyrir einn, tvo eða fleiri …

Fyrst ég var með uppskrift að heilli (jóla)önd hér á dögunum, þá er tilvalið að koma líka með uppskrift að andabringum í jólamatinn eða við önnur hátíðleg tækifæri. Þær eru fljótlegur, einfaldur og þægilegur matur og barnabörnin mín taka ekki í mál að fá annað á aðfangadagskvöld. Þannig að hjá mér voru andabringur á aðfangadagskvöld í mörg ár en nú er dóttir mín tekin við eldamennskunni, enda stingur amman jafnan af eitthvað út í lönd um jólin.

Sem þýðir að ég fæ yfirleitt eitthvað allt annað um jólin. Ja, reyndar fékk ég andabringu á jóladag þegar ég var á Möltu fyrir nokkurm árum en annars hef ég m.a. fengið grísakinnar, reyktan saltfisk, zebrahests-, villisvíns- og kengúruþrennu og ýmislegt fleira – og í Famagusta í fyrra fékk ég meze-hlaðborð með 27 réttum á aðfangadagskvöld. Sem var reyndar bara venjulegur virkur dagur á þeim slóðum. Og hver veit hvað ég fæ þessi jólin. En líklega ekki andabringur.

Einn af kostunum við andabringur er annars að það er hægt að elda þær fyrir fáa. Eða bara einn. Margir hátíðarréttir eru þannig að þeir henta kannski ekki mjög vel fyrir litlar fjölskyldur og ég tala nú ekki um einn eða tvo. Reyndar eru andabringur oft seldar tvær saman en oft er líka hægt að fá þær stakar. Nú, og ef ég þyrfti að kaupa tvær  handa mér einni, þá yrðu þær ekkert ónýtar … 

Þessi uppskrift er hins vegar hugsuð fyrir tvo, jafnvel þrjá því þetta voru stórar og bústnar bringur.

2017-11-12 12.34.08.jpg

Ég byrjaði á að þerra bringurnar með eldhúspappír og skera með beittum hníf tígulmynstur í fitulagið án þess að skera í kjötið.  Svo kryddaði eg bringurnar með pipar og salti og lét þær standa í nokkrar mínutur. Ég ætlaði að hafa ávexti og hnetur með svo að ég tók tvær perur (eða nei, þrjár, því þær voru svo litlar), flysjaði þær, setti þær í pott með dálitlum sítrónusafa og svo miklu vatni að flaut yfir og sauð þær í 8-10 mínútur. Tók þær þá upp úr.

Ég kveikti svo á ofninum, stillti hann á 200°C, setti eldfast mót inn í hann og lét það hitna með. Hitaði pönnu nokkuð vel, setti bringurnar á hana með fituhliðina niður …

2017-11-12 12.36.27

… og steikti þær við góðan hita í 6-8 mínútur, eða þar til þær voru fallega brúnar og meirihlutinn af fitunni hafði bráðnað af þeim. Þá sneri ég þeim við og steikti þær í 1-2 mínútur en færði þær þá í eldfasta mótið og setti þær í ofninn í um 12 mínútur, eða eftir þykkt.

2017-11-12 12.38.43

Ég hellti mestallri fitunni af pönnunni (geymdi hana, hún er frábær til að steikja kartöflur). Skar svo perurnar í tvennt, kjarnhreinsaði þær og steikti þær við meðalhita, ásamt apríkósum eða gráfíkjum og hnetum, þar til perurnar höfðu tekið lit. Svo setti ég 250 ml af andasoði (átti það til en annars má nota vatn og andakraft eða jafnvel bara kjúklingakraft) og 2 msk af púrtvíni í pott og lét sjóða smástund. Þykkti sósuna svo með sósujafnara, hrærði dálitlum rjóma saman við og kryddaðu eftir þörfum.

2017-11-12 13.05.17

Þá voru bringurnar tilbúnar og ég setti þær á bretti og lét standa í nokkrar mínútur. Dálítið af safa hafði runnið úr þeim í mótið og ég hellti honum saman við sósuna. Skar svo bringurnar í sneiðar á ská og raðaði þeim á fat, ásamt perum, apríkósum og hnetum. Dreifði berjum yfir (má sleppa) og bar öndina fram með sósunni, steiktum (eða brúnuðum kartöflum) og rauðkáli. Eða hverju sem hugurinn girnist.

2017-11-12 13.02.50

Jólaveisla fyrir tvo, gjörsvovel.

*

Andabringur með ávöxtum og hnetum

2 andabringur

pipar og salt

2-3 perur

safi úr ½ sítrónu

40-50 g apríkósur eða gráfíkjur

40 g pekanhnetur

klettasalat eða önnur salatblöð

bláber, rifsber eða önnur ber

Sósa:

250 ml gott andasoð (eða vatn og andakraftur)

2 msk dökkt púrtvín (má sleppa)

sósujafnari

75 ml rjómi

pipar og salt ef þarf

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s