Ekki meiri basilíka í bili, held ég. Það er allt of kalt til þess. Ég skrapp á bókamessuna í Ráðhúsinu áðan (og verð þar á morgun að kynna kjúklingabókina mína) og kom svo við í Kolaportinu að kaupa skötusel og gæsabringu og reykt folaldakjöt. Og þegar ég kom heim var hálfgerður hrollur í mér og ég ákvað að gera eitthvað vetrarlegt. Og ég átti möndlur og sykur sem ekki hefur verið notaður svo lengi að það var komin skurn ofan á hann, það get ég svarið. Svo að ég ákvað að gera mér brenndar möndlur.
Heyrðu, segir kannski einhver, varstu ekki að segja í gær að þú værir ekki komin í jólaskap og værir ekki að fara að gera neitt jóló á næstunni? Og það er alveg rétt en brenndar möndlur er eitthvað sem ég tengi við vetur og kulda og skammdegi en ekki jólin sérstaklega. Enda er ekki meiningin að geyma þær til jólanna, á satt að segja ekki von á að þær endist lengi. – Mér þykja svona möndlur sérlega góðar, einmitt af því að þær eru ekki dísætar, karamellan er látin sjóða það lengi og verða það dökk að sykurbragðið minnkar verulega. En það má reyndar líka láta hana malla ívið skemur og þá verða möndlurnar sætari og ljósari.
Það er hægt að gera þetta á ýmsan hátt en hér er mjög einföld útgáfa og það þarf bara þrjú hráefni, möndlur, sykur og vatn.
Ég átti 150 g af afhýddum möndlum (það má alveg nota möndlur með hýði, þær verða bara svolítið öðruvísi) og á móti þeim þarf svona 75 g af sykri. Ég setti þetta í víðan pott og kveikti undir.
Ég hellti svo strax 3 msk af köldu vatni yfir, hrærði vel saman og hitaði.
Ég hitaði þetta að suðu og lækkaði svo hitann aðeins – en ekki mikið, þetta á að sjóða nokkuð rösklega – og hrærði mjög oft.
Þetta búbblar nokkuð mikið á meðan vatnið er að sjóða burt.
Eftir að vatnið er gufað upp og möndlurnar og karamellan farin að taka lit þarf að hræra nærri stöðugt.
Ég vil hafa þetta sirka svona dökkt og þykkt. Ég tók ekki tímann en þetta gæti þurft svona 8-10 mínútna suðu í allt.
Þegar möndlurnar voru orðnar eins og ég vildi hafa þær hellti ég þeim á bökunarpappírsörk og dreifði svo vel úr þeim og lét þær kólna.
Þegar möndlurnar höfðu kólnað svo að hægt var að losa þær og karamelluna (næstum í heilu lagi) af eldhúspappírnum muldi ég karamelluna til að losa möndlurnar hverja frá annarri.
Og þá er þetta bara tilbúið …
Og ekki orð um það meir.
Brenndar möndlur
150 g heilar möndlur
75 g sykur
3 msk kalt vatn
[…] maður vill frekar öðruvísi möndlur, þá má nú finna uppskriftir að þeim líka. Til dæmis brenndum möndlum eða söltuðum möndlum eða einhverju slíku. Jafnvel kryddaðri […]