Ég rak augun í það einhvers staðar áðan að það væri Alþjóðlegi kökudagurinn og ákvað að ég yrði nú eiginlega að baka köku af því tilefni og sá líka tækifæri til að nýta kannski hálft grasker sem ég átti og lá undir skemmdum og spila einhverja graskersköku af fingrum fram. En svo var ég hálfnuð að gera deigið þegar ég uppgötvaði að það er alls ekki Alþjóðlegi kökudagurinn, heldur National Cake Day í Bandaríkjunum eða eitthvað. Of seint að hætta við …
En graskerskakan er í ofninum og uppskrift kemur kannski seinna ef hún heppnast þokkalega, lyktin er allavega góð. Núna kemur hins vegar í staðinn uppskrift sem ég var með í 2. tbl. MAN og var reyndar bökuð og mynduð í ágúst þegar birtan var góð og það sést á myndunum. Þetta er bananakaka – eða heitir reyndar bananabrauð eins og aflangar bananakökur gera alltaf af einhverri ástæðu en þetta er nú kaka samt.
Í vinnunni hjá mér eru alltaf ávextir á boðstólum og þeim eru gerð góð skil en stundum safnast upp nokkrir bananar sem eru orðnir vel þroskaðir og dökkir, ilmríkir og bragðmiklir. Þá eru þeir einmitt sérlega góðir í bakstur og ég tek þá stundum með heim, baka úr þeim og kem svo með afraksturinn í vinnuna. Úr þessu varð einu sinni bók eins og ég hef áður nefnt en þessi kaka er nú ekki úr henni.
Ég stráði hnetumulningi ofan á deigið áður en kakan fór i ofninn og það er mjög gott en það má líka sleppa þessu, kakan er ágæt án þess.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 170°C og svo muldi ég 100 g af valhnetum í matvinnsluvélinni, frekar gróft. Það má líka setja þær í poka og berja með kökukefli.
Svo tók ég fjóra banana sem voru orðnir ansi dökkir og ilmríkur.
Flysjaði þá, braut þrjá af þeim í bita og setti í matvinnsluvélina ásamt 2 eggjum og maukaði þá. Það má mauka alla fjóra en ég vild hafa einn í bitum en ekki mauki og geymdi hann því.
Síðan hrærði ég 50 g af linu smjöri, 70 g af púðursykri, 50 g af hvítum sykri (má líka nota 120 g af hvorri tegundinni sem er) og 1 tsk af vanilluessens saman við.
Svo blandaði ég saman 275 g af hveiti, 2 tsk af lyftidufti, 1/4 tsk af matarsóda, 1/2 tsk af salti og 1/2 tsk af kanel og hrærði saman við; best er þó að hræra deigið sem allra minnst. Að lokum skar ég bananann sem eftir var í fremur litla bita og blandaði saman við með sleikju – ekki nota hnífinn í vélinni, þá fer banannin bara í mauk.
Svo hellti ég deiginu í fremur stórt, vel smurt jólakökuform. Ef notað er húðað form þarf ekki að smyrja það en ég klippi þó alltaf til bút af eldhúspappír og set á botninn, þá er alveg öruggt að kakan festist ekki við.
Þá var það mulningurinn ofan á: Ég setti 50 g af smjöri í lítinn pott og bræddi það. Setti valhneturnar sem ég var búin að mylja í skál ásamt 3 msk af hveiti, 3 msk af púðursykri og 1/2 tsk af kanel og blandaði saman.
Hellti bráðnu smjörinu yfir og blandaði vel.
Og dreifði hnetumulningnum jafnt yfir deigið í forminu. Setti það svo í ofninn á neðstu rim og bakaði í 45-55 mínútur, eða þar til prjónn sem stungið var í miðja kökuna kom hreinn út.
Ég lét bananabrauðið kólna í nokkra stund í forminu en losaði það svo gætilega úr (ekki hvolfa því með látum, þá er hætt við að töluvert af hnetumulningnum hrynji af) og lét það kólna alveg á grind.
Þetta var hreint hin ágætasta kaka. Brauð. Whatever. Kakan sjálf er ekki mjög sæt en með góðu banana- og kanelbragði.
Og ekki spillti hnetumulningurinn fyrir, eins og sæt skorpa ofan á kökunni. (Jújú, hún er hollari án hans.)
En nú er kominn tími til að athuga með graskersbakkelsið í ofninum.
Bananabrauð með hnetumulningi
4 bananar, mjög vel þroskaðir
2 egg
50 g lint smjör
70 g púðursykur
50 g sykur
1 tsk vanilluessens
275 g hveiti
2 tsk lyftiduft
¼ tsk matarsódi
½ tsk salt
½ tsk kanill
Mulningurinn:
100 g valhnetur
50 g smjör
3 msk hveiti
3 msk púðursykur
½ tsk kanell