Eiginlega ætti ég að setja hér inn uppskriftina að kökunni sem ég bakaði fyrr í vikunni, þegar ég hélt að það væri alþjóðlegi kökudagurinn. Hún tókst nefnilega sérlega vel og gerði lukku hjá vinnufélögunum. Og hún kemur innan tíðar. En mér finnst bara ómögulegt að vera með tvær kökur í röð og reyndar hafa verið frekar margar kökur hér að undanförnu, mætti halda að ég væri alltaf að baka og það er nú bara ekki rétt. Svo að hér er uppskrift að allt öðru tagi. Kominn tími á kjötrétt semsagt.
Þetta er reyndar réttur sem ég gerði einhverntíma í haust en gleymdi þá að setja uppskriftina hér inn. – Þetta er mjög fljótlegur réttur, tók kannski svona 15 mínútur allt í allt.
Ég átti til tvær entrecote-sneiðar, magrar og lítið sem ekkert fitusprengdar, og ákvað að nota þær í nautakjötssalat. Það voru einhverjir gestir í mat svo að þær urðu drýgstar þannig. Svo var ég með 200 g af sykurbaunum, 200 g af kirsiberjatómötum, eina rauða papriku (svona langa og mjóa) og svona 100 g af salatblöndu. Veislusalat, held ég, en má vera hvaða salatblanda sem er. Og svo átti ég eina nektarínu og einn vorlauk sem ég ákvað að nota í salatið, en það má nú alveg sleppa hvorutveggja. Grófmalaðan svartan pipar og flögusalt á kjötið .
Svo er þarna smjör og olía til að steikja upp úr af því að ég ætlaði upphaflega að pönnusteikja kjötið en ákvað svo að nota grillpönnuna og sleppti þá smjörinu … Hins vegar gleymdi ég að hafa efnið í salatsósuna með á myndinni, sjá um það þér neðar.
Ég kryddaði kjötið vel með pipar og salti. Hitaði litla grillpönnu vel, setti 1 msk af olíu á hana, setti svo kjötið á hana og steikti það við góðan hita.
Á meðan hitaði ég léttsaltað vatn í potti og sauð sykurbaunirnar í 2 mínútur. Hellti þeim þá í sigti og lét renna af þeim. Lét þær svo kólna.
Ég steikti kjötið í svona 3 mínútur á hvorri hlið og sneri því um 90°C einu sinni á þeim tíma til að fá tígulmynstur en það er svosem alveg óþarfi.
Ég setti 2 msk af ólífuolíu, 1 msk af balsamediki, svona hálfa teskeið af hlynsírópi, einn eða tvo dropa af tabascosósu (má sleppa) og ögn af pipar og salti í hristiglas og hristi vel saman.
Nú var kjötið tilbúið og ég tók það af pönnunni og lét það bíða í nokkrar mínútur á bretti.
Ég skar lárperuna – sem var mjúk eins og smjör – í helminga, fjarlægði steininn og hýðið og skar hana svo í bita, setti i skál, hellti salatsósunni yfir og blandaði vel.
Ég skar tómatana í tvennt (fernt ef þeir voru stórir), fræhreinsaði paprikuna og skar hana í bita og saxaði vorlaukinn. Skar nektarínuna í frekar litla bita. Dreifði salatblöndunni á fat og dreifði svo tómötum, papriku, vorlauk, nektarínu, lárperu og baunum yfir og dreypti salatsósunni sem lárperan hafði legið í yfir.
Að lokum skar ég kjötið í þunnar sneiðar …
… og dreifði þeim yfir salatið.
Ekki slæmt.
Nautakjötssalat með sykurbaunum og lárperu
350-400 g entrecote eða annað meyrt nautakjöt
200 g sykurbaunir
200 g kirsiberjatómatar
1 rauð paprika (Ramiro)
1 vorlaukur (má sleppa)
1 nektarína (má sleppa)
100-150 g salatblanda
grófmalaður svartur pipar
salt
1 msk olía
2 msk ólífuolía
1 msk balsamedik
1/2 tsk hlynsíróp
1-2 dropar tabascosósa (má sleppa).
Sæl Nanna,
Ætlaði að spyrjast aðeins fyrir um þann bita sem maður sér svo oft erlendis og erlendum uppskriftum sem kallast flank steak, er sá biti seldur á Íslandi ? datt nefnilega í hug að hann gæti einnig verið góður og ódýr kostur í þetta salat en mér skist að amk erlendis sé þessi biti odýrasti steikarbitinn
Yfirleitt ekki, en ég er viss um að það er hægt að fá þetta t.d. í Kjöthöllinni.