Grasker, börn og ævintýri

Það er bæði kostur og galli við börn að þau stækka og vaxa frá manni. Samt losnar maður nú sjaldnast alveg við þau. Svo fær maður kannski barnabörn í staðinn og þau hafa þann stóra kost að maður getur dekrað við þau og látið aðra sjá um uppeldið. En ég er farin að átta mig á að þau hafa líka þann galla að þau stækka og vaxa frá manni. Dótturdóttir mín á til dæmis tvítugsafmæli í dag en mér finnst það hafa verið í gær sem hún var svona. Sem við vorum svona:

IMG_0030

(Þessi mynd á reyndar vel við hér þar sem hún er tekin í ævintýraumhverfi og grasker koma nokkuð við sögu bæði í ævintýrum og uppskriftinni hér á eftir.)

Og bróðir hennar stækkar víst líka. Um daginn, fyrir hrekkjavökuna, voru staflar af graskerjum í búðum og ég keypti eitt í rælni, var með einhverja óljósa hugmynd um að við Úlfur gætum kannski dundað okkur við að skera út ljósker úr því og ég gæti svo nýtt innmatinn í eitthvað. En þegar ég sýndi honum graskerið var áhugi hans á slíkum barnaskap í lágmarki svo ég hreyfði því máli ekki frekar.

En graskerið stóð þarna og ekki vildi ég gera það ónýtt. Tók reyndar helminginn af því, flysjaði og skar í bita og bakaði með öðru grænmeti og hafði með pörusteik. En þá var hinn helmingurinn eftir og eitthvað þurfti að gera við hann. Og þegar ég hélt um daginn að það væri Alþjóðlegi kökudagurinn og fannst það kalla á að ég bakaði nú eitthvað – já, þá mundi ég eftir graskerinu og ákvað að gera graskersköku.

En ef maður á ekki hálft grasker sem liggur í reiðileysi, þá má alveg nota annað í staðinn. Butternutkúrbít eða gulrætur, til dæmis.

Ég byrjaði á að hita ofninn í 180°C.

Ég vigtaði hálfa graskerið, það var rúm 600 grömm, og flysjaði það svo með grænmetisflysjara, skóf úr því fræin og skar það í bita. Vigtaði bitana áður en ég reif þá og þeir voru um 450 grömm. Ég var svolítið hissa, fannst ekki það mikið hafa farið í ruslið. En svo þegar kakan var komin í ofninn fann ég einn bita sem hafði lent til hliðar. Þar var skýringin komin. En ég notaði sem sagt 450 g af graskeri í kökuna.

IMG_6958

Ég notaði rifjárnið sem fylgir með hrærivélinni. Byrjaði á að nota grófa skífu en sá svo að það yrði of gróft svo ég skipti yfir í fínt rifjárn. Graskerið var því bæði gróf- og fínrifið.

IMG_6966

Ég tók svo til 275 g af heilhveiti (hollustan sko), 250 g af púðursykri (ókei, ekki mikil hollusta þar), 3 tsk af lyftidufti, 1 tsk af matarsóda, 1 1/2 tsk af kanel, 1 tsk af engiferdufti og 3 egg. Ég ætlaði að nota svona 180 g af linu smjöri en þegar til átti að taka voru bara til 80 g svo ég bætti við 100 ml af matarolíu. Setti þetta allt í hrærivélarskálina og blandaði lauslega saman – það er ekki gott að hræra mikið.

IMG_6972

 

Ég setti svo rifna graskerið út í – þarna sést að það var bæði gróf- og fínrifið en má vera bara fínrifið – og tók svo eina appelsínu, reif börkinn af henni út í skálina og kreisti svo safann úr henni yfir allt saman.

IMG_6979

 

Ég á ekki kökuform í stærðinni sem ég taldi henta svo að ég notaði eldfast mót, 18×30 cm eða svo, en það mætti líka nota heldur stærra form og fá þá þynnri köku sem e.t.v. þarf heldur styttri bökunartíma, eða kringlótt tertuform. Ég smurði formið og klippti til bökunarpappír og setti á botninn. Jafnaði svo deiginu í formið og setti í ofninn á neðstu rim.

 

IMG_6990

 

Ég bakaði kökuna í um 35 mínútur, eða þar til prjónn sem ég stakk í hana kom hreinn út. Lét hana kólna aðein í forminu, hvolfdi henni svo á grind og lét hana kólna meira og hvolfdi henni svo aftur á bretti.

IMG_7004

 

Og fékk mér svo sneið með kvöldkaffinu (afganginn fengu vinnufélagarnir daginn eftir).

IMG_7007

 

Kakan var mjúk og rök, með miklu kryddbragði. Síst verri daginn eftir.

Það má örugglega alveg eins nota hvítt hveiti en heilhveitið kom mjög vel út í þessari köku.

 

Graskers-kryddkaka

450 g grasker

275 g heilhveiti

250 g púðursykur

3 tsk lyftiduft

1 tsk matarsódi

1 ½ tsk kanell

1 tsk engifer

½ tsk negull

3 egg

80 g smjör

100 ml matarolía

rifinn börkur og safi af 1 appelsínu

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s