Tíu leiðir til að lifa jólin af

Það er fyrsti sunnudagur í aðventu (er það ekki annars?) og þá rifjast stundum upp fyrir mér grein sem ég skrifaði einu sinni í tímaritið Bístró, um jólaundirbúning eða kannski alveg eins um skort á honum. Svo ég ætla að setja hana hér, með smábreytingum. Tók út svolitla væmni sem ég var beðin um að hafa í upphafi pistilsins og var ekki alveg í mínum anda. Eins og komið hefur fram annars staðar er ég ekkert sérstaklega mikið jólabarn þótt ég hafi skrifað tvær jólamatreiðslubækur (hey, já, og best ég noti tækifærið og plöggi Jólamat Nönnu, fæst í öllum betri bókabúðum og er bráðnauðsynleg við allan jólaundirbúning sko …).

Mér þykja jólin samt alveg ágæt, best að taka það fram.

En hér er greinin, Tíu leiðir til að lifa jólin af:

Jólin eiga að vera gleðileg, það vitum við öll. Allir eiga að vera í jólaskapi, hlakka til, kætast, skemmta sér við jólaundirbúninginn, sneiða hjá jólastressinu og eiga svo yndisleg jól.

Við vitum auðvitað líka að þannig er það ekkert endilega. Ástæðurnar geta verið margar og við sumar þeirra er erfitt að ráða en það er þó heilmargt sem hægt er að taka til bragðs til að gera jólin léttbærari og gleðilegri. En við þurfum að byrja á því að komast sjálf í gegnum allan jólaundirbúninginn og það er ekkert endilega auðvelt. Fyrst af öllu þarf að gera sér grein fyrir þremur grundvallaratriðum:

* Það er engin skylda að hlakka til jólanna. Þú ert ekkert viðundur þótt þér finnist jólin ekkert rosalega æðisleg.

* Það er í rauninni afskaplega fátt sem maður verður að gera fyrir jólin. Þau koma þótt sitthvað vanti, eins og Trölli komst að sællar minningar.

* Um leið og þú áttar þig almennilega á þessu tvennu, þá stóraukast líkurnar á að þú farir að hlakka til jólanna …

Þá er það komið á hreint og nú er að leita leiða til að gera jólin ánægjulegri. Hér koma nokkur góð ráð um jólaundirbúninginn:

Súkkulaðimedalíur. Mjög einfaldar.
Súkkulaðimedalíur. Mjög einfaldar.

1. Jólahefðir eru góðar, jólakvaðir slæmar. Ekki búa til aðventukrans bara af því að allar vinkonur þínar gera það. Og ef þér finnst ekki hægt að sleppa því, gerðu þá eitthvað einfalt. Eða kauptu tilbúinn krans og bættu svolitlu við skreytinguna. Ekki gera paté af því að þú hefur lesið í blaði að það sé svo jólalegt. Gerðu paté ef þig langar virkilega í gott paté. Ekki gera jólasælgæti bara af því að þér finnst að þú eigir að gera það með börnunum, heldur af því að þér finnst gaman að því. Og veldu einfaldar uppskriftir, kókoskúlur, súkkulaðihúðað marsípan og þess háttar, ekki fyllta konfektmola eða annað slíkt – ekki nema þér finnist virkilega gaman að konfektgerð. Þá er það líka sjálfsagt.

2. Eyddu smátíma í sjálfa(n) þig. Kannski ertu að vinna næstum alla daga í desember og svo bíða heimilisstörfin og jólaundirbúningurinn þegar heim kemur – en það getur verið ótrúlega dýrmætt að finna sér þó ekki sé nema stutta stund til að slaka á, fara í gott bað, hreiðra um sig í sófahorninu eða undir sæng með góða bók, spila uppáhaldstónlistina (það er engin skylda að hafa það jólalög), hugsa um góðu stundirnar, leyfa sér að hlakka til jólanna – eða hlakka til að þau verði búin, eftir því sem við á.

3. Ekki eyðileggja jólagleðina með stöðugum áhyggjum af því hvað þú munir nú bæta á þig mörgum kílóum og hvað verði erfitt að ná þeim af sér eftir jólin. Ef þú borðar sæmilega hollan mat svona yfirleitt ættu jóladagarnir ekki að breyta svo miklu. Jú, kannski bætirðu svolítið á þig – en líklega er hluti af kílóunum bara aukin vökvasöfnun út af salta matnum og þú losnar við þetta þegar mataræðið verður hversdagslegt á ný. Þangað til annað kemur í ljós allavega …

Jólahlaðborð. En þetta er nú heima hjá mér.
Jólahlaðborð. En þetta er nú heima hjá mér.

4. Ekki fara á jólahlaðborð með vinnunni. Ekki nema þig langi virkilega til þess. Þú veist alveg hvernig þetta verður: Hundrað og fimmtíu manns eða svo, allir í röð kringum borðið, fá sér mislystuga bita af hverjum diski, hrúga öllu saman, kúfa diskinn sem mest af því að fólk nennir ekki að standa hvað eftir annað í röð og þá er kannski það sem mann langaði í búið, þannig að hreindýrapatéið rennur saman við síldina og maður borðar rækjusalat með purusteikinni og þakkar bara fyrir ef hægt er að fá sérstakan disk fyrir eftirréttina svo að maður sleppur við að fá ris à l’amande með kalkúnasósu. Maður borðar svo alltof mikið af brimsöltu og reyktu kjöti og drekkur alltof mikið með  þessu og endar á að sofa óvart hjá Guðmundi í bókhaldinu (og til að koma í veg fyrir misskilning ætla ég að taka það fram að það er enginn Guðmundur að störfum í bókhaldsdeild Forlagsins).

Farðu í staðinn út að borða á einhverjum góðum stað í rólegheitum. Jafnvel í miðri viku. Það verður örugglega betra og skemmtilegra og sennilega ódýrara. Ég fór fyrir nokkrum árum á jólahlaðborð með vinnufélögunum. Dæmigert í alla staði. Nema ein konan við borðið var grænmetisæta og það hafði verið beðið um sérstakan mat fyrir hana, sem þjónninn færði henni á borðið. Forrétt og aðalrétt. Við hin dauðöfunduðum hana öll þar sem við sátum yfir samsullinu okkar.

5. Þegar þú ákveður jólamatseðilinn skaltu ekki bara hugsa um hvað þér finnst best og hvað fer vel saman. Farðu líka í gegnum undirbúninginn og matreiðsluna í huganum – eða skrifaðu allt niður á blað. Búðu jafnvel til tímaplan og skrifaðu niður hvað þarf að gera, hvenær og hvernig. Þá lendirðu ekki í því að vera með flókinn forrétt, aðalrétt og meðlæti sem verður að sinna öllu á sama tíma – eða standa uppi á aðfangadag með þrjá rétti sem allir þurfa að vera í ofninum samtímis á mismunandi hitastigi og þú ert bara með einn ofn – eða átta þig á því á aðfangadagsmorgni að það þarf víst að láta kalkúninn þiðna í tvo sólarhringa. Það er kannski ekki þörf á að skipuleggja allt út í æsar en það borgar sig að átta sig á hvað þarf að gera og í hvaða röð.

6. Það er nóg af freistingum fyrir krakka á aðventunni og um jólin og sykurmagnið sem þau láta ofan í sig getur verið óhugnanlega mikið. Allur þessi sykur til viðbótar við spennuna og tilhlökkunina sem tengist biðinni eftir jólunum gerir þau ofvirk og óþekk. Reyndu að draga úr gosdrykkja- og sætmetisneyslunni, bjóddu í staðinn upp á heitt kakó, niðurskorna ávexti og annað slíkt. Ekki eintóman sykur.

7. Ef þú ert með börn sem þurfa að fá í skóinn, mundu þá að jólasveinarnir eru fyrirhyggjusamir náungar og eru með allt tilbúið áður en gluggavesenið hefst. Kaupa fullt af smádóti (eða búa það til á jólasveinaverkstæðinu) og geyma það á góðum stað þar sem börn ná ekki til. Þeir lenda þess vegna aldrei í því að átta sig á því rétt áður en þeir fara í háttinn að það er ekkert til sem gæti hentað í skóinn. Nema kannski kartöflur.

8. Láttu aðra sjá um erfiðið. Nei, ég er ekkert endilega að tala um að karlinn eigi að baka smákökurnar og krakkarnir að sjá um jólahreingerninguna. Þótt það gæti vissulega verið góð hugmynd. Jólaundirbúningurinn á að skiptast jafnt á milli allra rétt eins og jólagleðin. En það er ekkert að því að kaupa kökurnar úti í búð – eða kaupa tilbúið deig ef þú vilt smákökuilm í húsið – borga einhverjum fyrir að gera hreint ef þú átt fyrir því, láta pakka gjöfunum inn fyrir sig í búðinni, kaupa tilbúnar skreytingar í staðinn fyrir að eyða heilum sunnudegi í að föndra þær þegar þér finnst ekki einu sinni gaman að föndra, hafa forsoðnar kartöflur með jólasteikinni af því að enginn nennir að standa kófsveittur við að flysja þegar nóg annað er að gera í eldhúsinu. Þú gerir það sem þú vilt og hefur tíma til, ekki það sem öðrum finnst að þú eigir að gera.

9. Ert þú einn af þeim sem stikar upp og niður Laugaveginn eða hring eftir hring í Kringlunni á Þorláksmessu með örvæntingarglampa í augunum í leit að jólagjöf handa konunni þinni og finnur ekkert? Sko – ég veit ekki hvort ég á nokkuð að vera að segja það en – hvernig væri að vera ekkert að bíða fram á Þorláksmessu? Eða jafnvel aðfangadagsmorgun. Búðirnar eru opnar frameftir allan desembermánuð, manstu?

Kökur ...
Kökur …

10. Ef þér finnst að þú eigir að baka smákökur fyrir jólin – eða ef þig langar að baka smákökur, því að það eru ekki bara sérvitringar eins og ég (eða ofurhúsmæður, eins og ég er ekki) sem finnst gaman að smákökubakstri, þá skaltu passa að velja réttu kökurnar. Ekki baka kökurnar sem engum þykja í rauninni neitt sérstakar og eru bara bakaðar af því að það hefur alltaf verið gert í þinni fjölskyldu. Bakaðu kökur sem öllum (eða einhverjum) þykja góðar. Ekki baka kökur sem kosta mikla fyrirhöfn, tíma og erfiði en er hægt að fá næstum því jafngóðar úti í næstu búð. Bakaðu einfaldar kökur úr hrærðu eða hnoðuðu deigi – eitthvað sem þarf svo bara að setja á plötuna og stinga í ofninn. Ekki baka sörur – eða nei, best að endurskoða þetta: Ekki baka sörur þótt þær séu uppáhaldssmákökur einkasonarins, ef þú átt mágkonu sem nennir að baka þær og aumkar sig yfir drenginn.

Og að lokum: Ekki geyma kökurnar til jólanna. Smákökur eru til að borða á aðventunni. Það er nóg annað góðgæti á borðum um jólin.

Ris a l'amande.
Ris a l’amande.

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s