Ég verð í morgunútvarpinu í fyrramálið að tala eitthvað um vetrarmat. Það er að segja ef ég vakna, sem er alls ekki víst, einhverntíma hef ég nú sofið af mér útvarpsþátt sem ég átti að mæta í …
En jæja, í tilefni af því er uppskrift að rétti sem mér finnst ekta vetrarmatur, eitthvað til að ylja sér við á köldu kvöldi, þótt hann eigi í rauninni rætur að rekja til nokkuð suðlægra slóða, nánar til tekið til Norður-Afríku, Marokkó líklega – þetta er svosem ekki beinlínis marokkósk uppskrift en ég fékk þó svipaða rétti þegar ég var í Marokkó um árið. Marokkóskt-íslenskt, skulum við segja.
Þessi uppskrift birtist í 2. tölublaði MAN; ég átti í óttalegu tölvuveseni á þeim tíma og varð sein fyrir með seinustu uppskriftina (sem var þessi) og mátti ekki vera að því að taka myndir af matreiðslunni svo að hér eru bara myndir af tilbúnum rétti. En þetta er nú einföld matreiðsla og ekki beinlínis þörf á öðru.
Þetta er matarmikill réttur, ríkulega kryddaður en ekkert rosalega sterkur (eða það er reyndar matsatriði, þeir sem ekki vilja sterkt ættu að fara varlega í cayennepiparinn), og svolítið sætur. Ég notaði dökkar, lífrænt ræktaðar apríkósur en það má líka nota venjulegar. Þeir sem vilja geta svo stráð dálitlu söxuðu kóríanderlaufi yfir áður en rétturinn er borinn fram. Uppskriftin er fyrir sirka fjóra.
Ég var með lambakjöt, kannski svona 700 g beinlaust – framhrygg en það má líka nota læri, leggi eða annað. Skar það í fremur litla bita og kryddaði þá með pipar og salti. Hitaði 2 msk af ólífuolíu á pönnu og brúnaði kjötbitana við góðan hita – ég á stóra pönnu sem rúmaði allt kjötið í einu en ef pannan er ekki stór er best að brúna það í tvennu lagi. Þegar kjötbitarnir voru vel brúnaðir tók ég þá upp með gataspaða, setti þá á disk og geymdi.
Ég tók svo 2 lauka og 3-4 hvítlauka, saxaði laukinn fremur smátt og hvítlaukinn mjög smátt, setti á pönnuna og lét krauma við meðalhita í um 5 mínútur. Hrærði þá 2 tsk af kummini, 2 tsk af steyttu kóríanderfræi, 1/2 tsk af engiferdufti, 1/2 tsk af kanel og 1/4 tsk af cayennepipar saman við, ásamt dálitlum pipar og salti, og lét krauma í um 1 mínútu, eða þar til eldhúsið var farið að ilma vel.
Þá setti ég kjötið aftur á pönnuna, ásamt 4-5 meðalstórum gulrótum sem ég var búin að flysja og skera í bita, 100 g af þurrkuðum, heilum apríkósum (ég var semsagt með dökkar en það má alveg nota venjulegar) og einni dós af niðursoðnum tómötum (ég var með kirsuberjatómata en það má alveg nota venjulega og þá gjarna saxaða). Ég bætti við dálitlu vatni og lét malla við fremur vægan hita í um 50 mínútur. Hrærði í öðru hverju og bætti við vatni eftir þörfum. Að lokum opnaði ég eina dós af kjúklingabaununum, hellti þeim í sigti, skolaði þær og setti út í. Lét þetta malla í um 10 mínútur í viðbót, eða þar til kjötið var orðið vel meyrt. Smakkaði og bætti við ögn af pipar.
Ég hafði soðið perlukúskús (ísraelskt kúskús) til að hafa með þessu en það má líka nota venjulegt kúskús eða soðin hrísgrjón. Og kannski gott brauð og grænt salat en hvorugt er nauðsynlegt.
Þetta er matur sem yljar manni ofan í tær.
Norður-afrískur lambapottréttur
600-800 g lambakjöt, beinlaust
pipar
salt
2 msk olía
2 laukar
3−4 hvítlauksgeirar
2 tsk kummin (cumin)
1 tsk kóríanderfræ, möluð
½ tsk engifer (duft)
½ tsk kanill
¼ tsk cayennepipar, eða eftir smekk
4−5 meðalstórar gulrætur, skornar í bita
100 g þurrkaðar apríkósur
1 dós niðursoðnir kirsiberjatómatar (eða saxaðir tómatar)
vatn eftir þörfum
1 dós niðursoðnar kjúklingabaunir