Ris a l’amande – með sósum í þetta skipti

Eiginlega ætti ég líklega að byrja eitthvað að jólast í dag … en ég ætla ekki að gera það. Ætla bara að slappa af og hafa það notalegt, kannski fara í búðaleiðangur með eldra barnabarninu – jú, og svo þarf ég víst að fara að kaupa svínslæri til að pækla fyrir Þorláksmessu – og ef ég verð í skapi til í kvöld dreg ég kannski upp fáeina jólasveina sem ég er vön að skreyta með, kveiki á kerti og fæ mér eitt glas af glühwein. Það er nú jólalegt og notalegt.

En hér er samt jólauppskrift, svo sannarlega. Eiginlega hefði hún ekki átt að koma hér fyrr en eftir ár – þetta er uppskrift sem ég er með í jólablaði MAN og ég hafði því ekki ætlað mér að birta hana á meðan blaðið er í sölu og þetta er ekki uppskrift til að nota í janúar þannig að hún hefði beðið til næstu jóla – en það urðu einhver mistök í umbrotinu á blaðinu og sósurnar sem áttu að fylgja uppskriftinni vantaði aftan á og svo er reyndar önnur uppskrift sem vantar alveg – svo að ég set þær hér inn fyrir jólin.

Ég ólst hvorki upp við grjónagraut né ris a l’amande á jólunum. Hef þó alltaf verið mikið fyrir grjónagraut og kann ágætlega að meta ris a l’amande ef sósan er góð en fjölskyldan er ekki sama sinnis svo það hefur aldrei verið jólamatur hér á bæ. En ég var á dögunum að velta fyrir mér sykurlausum jólaeftirréttum (hluti fjölskyldunnar er hættur að borða sykur) og datt þá ris a ‘l amande í hug þótt það kæmi reyndar ekki til greina hér. En þetta er auðvitað réttur sem mjög auðvelt er að hafa sykurlausan svo að ég setti saman uppskrift og hafði með tvenns konar sósur, aðra sykurlausa (þ.e. það er ávaxtasafi og ávextir í henni en enginn viðbættur sykur) og aðra hreint ekki sykurlausa. Upplagt þegar sumir vilja/mega borða sykur en aðrir ekki.

Ris a l’amande er danskur réttur þótt nafnið sé komið úr frönsku.  Hann kom fyrst fram á 19. öld og varð nokkuð vinsæll í efri stéttum dansks þjóðfélags en ýtti þó ekki grjónagrautnum, sem lengi hafði verið helsti jólaeftirrréttur Dana, til hliðar fyrr en í síðari heimsstyrjöld. Þá jukust vinsældir ris a l’amande skyndilega því erfitt var að fá hrísgrjón en nóg til af rjóma svo að hagsýnar húsmæður drýgðu grjónagrautinn með rjómanum.

Líklega var það um  svipað leyti sem ris a l’amande náði vinsældum hérlendis og mörgum þykir rétturinn ómissandi hluti af jólahaldinu. Ein af þessum ómissandi hefðum. En ris a l’amande þarf að fylgja sósa. Kirsiberjasósa er líklega algengust en það má nota ýmsar aðrar ávaxtasósur, svo og karamellusósu og fleira. Þeir eru líka til sem vilja súkkulaðisósu.

Yfirleitt er einhver sykur í réttinum – þó sjaldan mikill – og sósurnar eru oft dísætar. Það er þó mjög einfalt að sleppa sykrinum alveg og fá sæta bragðið e.t.v. í sósunni. Hér er uppskrift að sykurlausu ris a l’amande og tveimur sósum, annarri sykurlausri, hinni ekki.

IMG_6521

Ég byrjaði á að setja 600 ml af mjólk (þetta er skammtur fyrir 4-6) í þykkbotna pott með þéttu loki og hitaði hana rólega. Svo vigtaði ég 90 g af grautargrjónum, hellti þeim smátt og smátt út í og hrærði á meðan.

 

IMG_6527

Ég setti lokið á pottinn þegar mjólkin fór að sjóða, lækkaði hitann eins og mögulegt var og lét þetta malla mjög rólega í 45−60 mínútur, eða þar til kominn er þykkur grautur. Það er ágætt að hræra nokkrum sinnum á meðan en mér finnst þess þó ekki þurfa. Það getur verið að grauturinn festist aðeins við botninn og þar sjáist svolítið í gulbrúnan lit en það er allt í lagi, maður þarf þá bara að passa að hræra ekki (eða skafa þegar grautnum er hellt úr) svo að  grjónin sem aðeins hafa breytt lit fylgi ekki með.

IMG_6528

 

Ég hellti svo grautnum í skál og lét hann kólna. Það er ágætt að láta hann standa yfir nótt en ef maður er að flýta sér má láta grautarskálina standa í annarri skál eða vaski með köldu vatni.

IMG_6555

Ég tók svo 50 g af heilum, afhýddum möndlum, setti þær í kvörnina sem fylgir töfrasprotanum mínum (má nota matvinnsluvél eða blandara, eða bara góðan hníf) og grófsaxaði þær. Það er hægt að kaupa saxaðar möndlur en mér finnst þær miklu ferskari og bragðbetri nýsaxaðar.

IMG_6559

Svo tók ég vanillustöng, klauf hana eftir endilöngu, skóf kornin úr henni, setti þau út í grautinn ásamt möndlunum og ögn af salti og hrærði þetta saman.

IMG_6566

Stífþeytti að lokum 250 ml af  rjóma og blandaði gætilega saman við með sleikju. Hmm, á þessu stigi er þetta ekkert sérlega girnilegt á að líta. Frekar grautarlegt, satt að segja.

IMG_6573

En svo er bara að hella grautnum/búðingnum/hvaðáaðkallaþað í fallega skál og kæla. Og búa til sósurnar. Uppskriftirnar að þeim eru hér neðst (eins gott að þær gleymist ekki hér líka).

IMG_6587

 

Þarna er annars vegar hindberjasósa og hins vegar saltkaramellusósa. Báðar mjög góðar, eða það þótti vinnufélögunum því ég fór svo með þetta í vinnuna og gaf þeim smáforskot á jólin.

IMG_6624

 

Hér er sykurlausa útgáfan, hún stóð sko alveg fyrir sínu. Og mér fannst þetta svo jólalegt og flott á þessum skemmtilega diski   að ég fór að hugsa um hvort ég ætti bara nokkuð að vera að hlusta á fjölskylduna og gefa þeim bara ris a l’amande í jóladesert … en líklega geri ég það nú ekki samt.

Sykurlaust ris a l’amande

Fyrir 4−6

600 ml mjólk

90 g grautargrjón

50 g möndlur, heilar en afhýddar

1 vanillustöng

örlítið salt

250 ml rjómi

 

Berjasósa

250 ml dökkur berjasafi (ég notaði Superberry juice frá The Berry Company)

100 g hindber, frosin

2 tsk kartöflumjöl

2 msk kalt vatn

Ég setti safann og hindberin í pott, hitaði að suðu og lét malla í fáeinar mínútur. Hrærði kartöflumjölið út í köldu vatninu, taktu pottinn af hitanum og hrærðu jafningnum saman við (muna að þegar jafnað er með kartöflumjöli á ekki að hræra í hringi, heldur fram og aftur). Lét sósuna svo kólna.

Saltkaramellusósa

80 g smjör

100 ml rjómi

100 g púðursykur

½ tsk vanilluessens

½ tsk flögusalt, eða eftir smekk

Ég setti smjör, rjóma og púðursykur í pott, hitaði að suðu og lét malla við meðalhita þar til sósan var gullinbrún og farin að þykkna (gæti tekið 8−10 mínútur). Hrærði vanillu og salti saman við og tók af hitanum. Þessa sósu ætti að bera fram volga eða við stofuhita.

 

4 comments

    • Þú getur reyndar alveg líka notað nokkur korn úr vanillustöng. En ekta vanilluessens – eða vanilluextrakt – má fá í stöku sælkerabúðum, hef séð hann í Vínberinu og Kokku til dæmis, en hann er að vísu rándýr. Mér finnst hann samt peninganna virði í sósur, búðinga og þess háttar en síður í kökur, þar má oft alveg eins nota vanilludropa eða vanillusykur.

      En svo hefur verið hægt að fá ekta vanillu í nokkuð stórum flöskum í Kosti og það eru langbestu kaupin ef hann er til – Kirkland Pure Vanilla, 473 ml kostuðu 1600 krónur í sumar, minnir mig.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s