Svínakjöt, epli, sinnep og rjómi – þetta fernt á einhvernveginn svo óskaplega vel saman. Getur varla klikkað. Og þegar ég var að klára uppskriftirnar sem ég gerði fyrir nóvemberblað MAN var kalt í veðri og ég ætlaði að gera eitthvað fljótlegt og einfalt en vetrarlegt og notalegt – og umfram allt gott – og þá komu mér þessi hráefni í hug. Kom við í búð og keypti svínalund og rjóma, hitt átti ég til.
Þessi uppskrift er miðuð við tvo, það er ekkert mál að stækka þessa uppskrift en þar sem kjötið og eplin þurfa sitt pláss gæti þá verið betra að steikja eplin sér á annarri pönnu. Einnig mætti steikja þau á undan kjötinu og halda þeim heitum.
Þetta var reyndar ekki heil lund, heldur um 400 g biti. Tvö epli (bara eitt á myndinni því ég var ekki búin að finna hitt) – ég var með Pink Lady sem mér fannst henta mjög vel en það mætti nota aðrar svipaðar tegundir af frekar sætum eplum. En ekki t.d. Granny Smith eða Red Delicious, mér finnst þau ekki henta. Tveir vorlaukar, ein matskeið af smjöri, 200 ml af rjóma, ein matskeið grófkorna sinnep (eða eftir smekk), pipar og salt. Það er nú allt og sumt. – Æjú, það er smávegis steinselja á myndinni en hún er eiginlega óþörf og var bara til að strá yfir.
Ég skar lundina í sneiðar, um 2 cm á þykkt, og þrýsti á þær með handarhælnum eða lófanum til að fletja þær dálítið út. Kryddaði þær með pipar og salti. Ég flysjaði líka eplin, kjarnhreinsaði þau og skar í báta, og saxaði vorlaukinn.
Bræddi svo smjörið á fremur stórri pönnu, raðaði kjötsneiðum og eplabátum á hana og stráði hvíta og ljósgræna hlutanum af vorlauknum yfir.
Ég steikti kjötið og eplin við meðalhita í 2-3 mínútur á hvorri hlið, eða þar til kjötið var rétt gegnsteikt og eplin farin að mýkjast. Tók það þá af pönnunni, setti á disk og hélt því heitu.
Ég hellti rjómanum á pönnuna, hrærði sinnepinu saman við ásamt grænu blöðunum af vorlauknum og lét krauma í 2-3 mínútur. Sósan á að vera frekar þunn, ef hún þykknar um of má þynna hana með ögn af vatni. Ég smakkaði hana svo og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum.
Ég hafði bara grænt salat með kjötinu og eplunum, fannst það alveg duga en það mætti til dæmis hafa soðnar strengjabaunir með …
… já, og svo auðvitað sinnepsrjómasósuna. Nammi. Eins og ég sagði – smellpassar!
(Og í þessu samhengi mundi nú ekki skemma að skvetta örlitlu Calvados út í sósuna. En ég gerði það ekki, merkilegt nokk …)
Grísalund með eplum í sinnepsrjómasósu
400 g grísalund
pipar
salt
2 epli (ég notaði Pink Lady)
2 vorlaukar
1 msk smjör
200 ml rjómi
1 msk grófkorna sinnep (eða eftir smekk)
e.t.v. svolítið vatn
Mikið er þetta girnilegt. Ég er afskaplega hrifin af svínakjöti með eplum og heillast því oft af uppskriftum sem innihalda svínakjöt í einhvernsskonar cider sósu. Eins og þetta hérna t.d :http://www.bbcgoodfood.com/recipes/2534644/slowbraised-pork-shoulder-with-cider-and-parsnips Ég veit þó aldrei hvað ég gæti notað í staðin fyrir það sem þeir kalla cider og hvort eitthvað sem líkist því fáist hér. Veistu eitthvað um það? Varla er um að ræða dísætt eplacíder eins og við þekkjum það?..
Já, þessi síderuppskrift er nokkuð álitleg. Í svona uppskriftum finnst mér yfirleitt í góðu lagi að nota bara eplasafa í staðinn fyrir síderinn. Hann er auðvitað ívið sætari en maður getur unnið aðeins á móti því með því að bæta ögn af eplaediki út í. Bragðið verður auðvitað aldrei alveg það sama en eplasafinn ætti þó að koma ágætlega út.
[…] að bragðbæta kaldar og heitar sósur, pottrétti og fleira; til að smyrja á kjöt fyrir steikingu eða nota í maríneringar; blandað […]