Hættulega góðar kökur

Nei, ég er enn ekkert byrjuð á jólabakstrinum. En um daginn bakaði ég samt einar 300 smákökur fyrir jólagleði í búðinni hjá Smith og Norland og hafði áður látið fyrirtækið fá uppskrift til að birta í jólabæklingi sínum. Honum var dreift með Fréttablaðinu þannig að margir hafa nú örugglega séð þetta – en ég ætla samt að setja uppskriftina hér, það fá ekki allir Fréttablaðið og svo er góð vísa aldrei of oft kveðin.

Þetta eru nefnilega hættulega góðar kökur. Og sérlega einfaldar, eða það finnst mér. Það getur meira að segja vel verið að ég baki þær einu sinni enn fyrir jólin, þótt ég sé þegar búin að baka svona 400 stykki, að meðtöldum tilraunaskammtinum sem heppnaðist ekki alveg en bragðaðist ágætlega samt og skammtinum sem ég myndaði og …

Þetta eru svosem ekki byltingarkenndar kökur, sumir mundu segja að þetta væru súkkulaðibitakökur, mér finnst þetta af einhverri ástæðu frekar vera hafrakökur … en það er smekksatriði. Það er lika smekksatriði hvort þær séu góðar en ég varð þó ekki vör við annað en það væri nokkurn veginn einróma álit þegar ég var að gefa fólki að smakka, bæði í búðinni og í vinnunni hjá mér, að þær væru bara ansi hreint góðar.

Og óþarfi að hafa fleiri orð um það.

IMG_5272

Ég byrjaði á að setja 125 g af púðursykri og 125 g af linu smjöri í hrærivélarskálina og hræra vel saman.

IMG_5274

 

Bætti svo við einu eggi og hrærði það saman við. Það þarf sjálfsagt að skafa niður hliðar skálarinnar með sleikju einu sinni eða tvisvar.

IMG_5281

 

Svo vigtaði ég 100 g af hveiti og 100 g af hafragrjónum (sem flestir kalla haframjöl en er það ekki, mjöl er eitthvað sem er malað; þetta eru valsaðir hafrar eða (eins og ég ólst upp við) hafragrjón; ef ég setti þau í matvinnsluvélina og malaði þau mundi ég kalla útkomuna haframjöl),  blandaði 1 tsk af lyftidufti, 1/4 tsk af matarsóda og 1/2 tsk af kanel saman við og hellti þessu svo í hrærivélarskálina og hrærði saman við. En ekki hræra meira en þarf til að rétt blanda saman.

IMG_5285

 

Ég tók 60 g af 70% Síríussúkkulaði og saxaði það frekar gróft …

IMG_5289

 

… og grófsaxaði líka 60 g af pekanhnetum. Sko, það má alveg nota venjulegt suðusúkkulaði og til dæmis valhnetur, en mér finnst bara kökurnar verða miklu betri svona.

IMG_5294

 

Setti þetta út í skálina og hrærði saman við.

IMG_5301

 

Deigið tilbúið. Ef manni finnst það of lint er gott að kæla það í svona klukkutíma en þess ætti þó ekki að þurfa. En annars hitar maður ofninn í 200°C (eða ég byrjaði reyndar á að kveikja á honum áður en ég hrærði deigið en það má líka bíða).

IMG_5305

 

Ég hnoðaði litlar kúlur –  á stærð við stórt vínber eða litla valhnetu – úr deiginu, flatti þær út á milli lófanna og raðaði þeim á tvær pappírsklæddar bökunarplötur. Þær ættu ekki að fljóta mjög mikið út (en sjá líka það sem ég skrifaði hér  um smákökubakstur).

IMG_5335

Bakaði þær á næstefstu rim í ofninum í 8-9 mínútur, eða þar til þær voru orðnar fallega gullinbrúnar (ekki alveg réttur litur á þessari mynd, sjá frekar næstu) og lét þær kólna á grind.

IMG_5373

 

Nema kökuilmurinn var mjöööög freistandi og þær fengu nú ekki allar að kólna alveg til fulls …

Þetta ættu að verða svona 25-30 kökur alls.

 

Hafrakökur með súkkulaði og pekanhnetum

125 g púðursykur

125 g smjör, lint

1 egg

100 g hveiti

100 g hafragrjón

1 tsk lyftiduft

¼ tsk matarsódi

½ tsk kanill

60 g dökkt súkkulaði, helst 70%, grófsaxað

60 g pekanhnetur, grófsaxaðar

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s