Bleikt og jólalegt

Ég þekkti lengi vel eiginlega ekki rauðrófur nema sem súrsaðar sneiðar eða teninga og þær voru helst borðaðar til dæmis með kjötbollum og hakkabuffi eða saxaðar og notaðar í síldarsalat og annað slíkt. En þetta hefur breyst töluvert á síðustu árum og nú sér maður þær miklu meira notaðar og í margs konar réttum – oftast ferskar en ekki súrsaðar.

Af rauðrófum er sérstakur keimur sem sumir kalla jarðarbragð en aðrir moldarbragð – það fer líklega eftir því hversu hrifið fólk er af rauðrófum – en það sem fælir þó marga frá er sterkur liturinn sem smitar mjög úr rófunum þegar skorið er í þær. Það er ráðlegt að vera með einnota hanska þegar rauðrófur eru meðhöndlaðar. Ég gleymi því reyndar oftast og er því gjarna með hárauðar hendur eftir að hafa búið rauðrófur undir eldamennskuna …

Rauðrófur má sjóða eða baka og mauka síðan og nota í súpur, ídýfur og fleira slíkt og einnig í kökur, einkum súkkulaðikökur, sem fá á sig einkar fallegan, dökkrauðbrúnan lit og mjúka áferð. Það er líka hægt að rífa þær hráar fremur fínt – helst í matvinnslu- eða hrærivél því annars getur maður orðið ansi rauður á höndunum og víðar, blanda þeim e.t.v. saman við rifnar gulrætur og hella salatsósu úr olíu, sítrónusafa og dálitlju dijonsinnepi yfir. Þannig fæst frísklegt salat sem er gott t.d. með fiski.

Það er líka upplagt að baka rauðrófurnar (þær eru þá oftar en ekki vafðar í álpappír) og nota þær heitar sem meðlæti með ýmsum steikum og fuglakjöti eða láta þær kólna og nota í salöt eins og það sem hér er uppskrift að. Þetta salat má ýmist borða eitt sér með brauði eða hafa sem meðlæti.

Reyndar eru myndirnar sem hér fylgja á eftir af tveimur aðskildum salötum sem þó eru gerð eftir sömu uppskrift en með tveggja vikna millibili. Ég var að gera þetta fyrir októberblað MAN og var rétt búin að mynda salatið þegar tölvan bilaði og var á verkstæði í þrjár vikur, ég hafði ekki tekið afrit af nýjustu myndunum og þurfti því að endurtaka þetta … Myndirnar hér á eftir eru úr báðum tökunum á víxl og þess vegna er eins og salatið hoppi á milli diska … En allavega:

IMG_1242

Það þarf að hafa tímann fyrir sér því það þarf að baka rauðrófurnar og þær þurfa að kólna, en þetta má reyndar gera daginn áður eða jafnvel 2-3 dögum áður en á að nota þær.

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Var með svona 400-450 g af rauðrófum og skar þær í tvennt (þarf þó ekki ef þær eru mjög litlar) og klippti út ferninga úr álpappír. Setti einn rófuhelming á hvern bút, dreypti svolítilli olíu yfir, kryddaði með pipar og salti og vafði álpappírnum utan um. Setti bögglana í eldfast fat og bakaði þá í 45-60 mínútur, eða þar til prjónn sem stungið var í eina rófuna rann viðstöðulaust í gegn. Tók þær þá út og lét kólna.

IMG_2817

 

Ég kreisti safa úr einni safaríkri appelsínu og setti í pott ásamt 2 msk af balsamediki í pott og dálitlum pipar og salti, hitaði og lét sjóða í nokkrar mínútur en kældi þetta svo.

Image

 

Svo tók ég tvær perur, þéttar en ekki grjótharðar (þrjár ef þær eru litlar), skar þær í fjórðunga, kjarnhreinsaði þær og skar þær svo í sneiðar.

IMG_2824

 

Setti 75 g af klettasalati á fat og dreifði perunum yfir.

IMG_2825

 

Nú voru rauðrófurnar orðnar kaldar og ég flysjaði þær (og hefði betur notað hanska við það) og skar þær svo í bita og dreifði yfir klettasalatið og perurnar. Tók kalda appelsínu-balsamsósuna og dreypti henni yfir.

IMG_1428

Svo tók ég 100 g af fetaostskubbi, muldi gróft og dreifði yfir ásamt 2-3 msk af grófumuldum valhnetukjörnum og 2-3 msk af trönuberjum (má líka nota rúsínur eða sleppa alveg).

IMG_1505

Mér finnst þetta salat til dæmis henta mjög vel með fiski eins og þessum steikta steinbít hér …

IMG_2867

 

… en það er líka gott eintómt. Og ef maður vill hafa það almennilega bleikt (og dulítið jólalegt) er bara að blanda öllu saman í skál áður en það er sett á fatið, þá litar rauðrófusafinn það skærbleikt.

 

Rauðrófusalat með perum og fetaosti

400 g rauðrófur

olía

pipar

salt

safi úr 1 appelsínu

2 msk balsamedik

2-3 perur

75 g klettasalat

100 g fetaostur (helst kubbur), grófmulinn

2-3 msk valhnetukjarnar, grófmuldir

2-3 msk trönuber eða rúsínur (má sleppa)

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s