Melónujól

Ef ykkur vantar hugmynd að léttum og frísklegum forrétti til að hafa einhverntíma um hátíðarnar, þá er hér ein uppástunga – þetta er reyndar ekkert sérstaklega bundið við jólin og er í eðli sínu frekar sumarlegur réttur en getur þó virkað vel sem mótvægi við allan feita og salta og þunga og heita jólamatinn.

Þetta er réttur sem vel er hægt að gera að miklu leyti með nokkurra klukkustunda fyrirvara og geyma í kæli, hann batnar bara við það – en nú eru tíu dagar til jóla og ég var nú ekki svona snemma í því, enda er ég sjálf svosem með önnur plön um jólaforréttinn. En ég átti þrjá melónuhelminga sem ég hafði reyndar ætlað að gera allt annað með sem ekki varð svo af og eitthvað þurfti að nota þá. Og þegar ég leit út um gluggann og sá snjóinn á trjágreinunum ákvað ég að það væri nú réttast að reyna að taka einhverjar örlítið jólalegar matarmyndir einhverntíma fyrir jólin.

Ég á nefnilega ekki mikið af jólamatarmyndum, þegar maður er að elda sjálfan jólamatinn er myndataka kannski ekki það sem manni er efst í huga og það sem ég geri fyrirfram og í góðu tómi er kannski helst gert á kvöldin og þá tek ég nú ekki mikið af myndum. En nú var bjart – eða eins bjart og getur orðið um miðjan desember – og ósköp jólalegt svo ég ákvað  að gera eitthvað sem gæti sómt sér á jólaborðinu. Og nota blessaðar melónurnar. Og svo átti ég hráskinku.

IMG_7618

 

Það má líka nota bara eina eða tvær melónutegundir en mér finnst flottast að hafa nokkrar mismunandi litar. Þetta var semsagt hálf lítil vatnsmelóna, hálf hunangsmelóna og hálf gul melóna – sú síðasttalda var aðeins farin að skemmast í kantinn öðrum megin svo ég skar bara af henni. Svo skóf ég fræin úr henni og hunangsmelónunni með matskeið en lét vatnsmelónuna eiga sig, það er meira vesen að plokka fræin úr henni. Maður reynir þá frekar að tína fræin úr jafnóðum.

IMG_7619

 

Ég notaði kúlujárn – stundum einmitt kallað melónujárn – til að stinga út kúlur úr melónukjötinu. En ef maður á ekki svoleiðis má bara skera melónuna í teninga. Eða stinga út kúlur með teskeið ef maður er handlaginn en það hef ég nú aldrei verið.

IMG_7622

 

Best er að stinga járninu djúpt og fremur þétt og reyna að hafa kúlurnar eins kúlulaga og mögulegt er – en það verður auðvitað alltaf einhver sléttur flötur (eða hrufóttur, allavega ekki kúlulaga). Það sem eftir situr má svo skera úr hýðinu og mauka. Melónumaukið má nota í þeyting eða búa til ís og það er vel hægt að frysta það og nota seinna.

IMG_7627

 

Þrílitar melónukúlur. Gætu alveg orðið svona 15-20 kúlur úr hverri melónu. Ég blandaði þeim saman í skál. – Á þessu stigi mætti breiða plastfilmu yfir skálina og stinga henni í kæli í nokkra klukkutíma; klára svo salatið rétt áður en það er borið fram.

IMG_7631

 

Ég tók svo svona 150 g af hráskinku, reif niður og setti út í, ásamt lófafylli af saxaðri fjallasteinselju. Það mætti líka nota klettasalat eða þá basilíku (en heldur minna af henni svo hún verði ekki yfirgnæfandi).

IMG_7638

 

Setti 1 msk af balsamediki og 2 msk af góðri ólífuolíu í litla skál ásamt dálitlum pipar og salti, þeytti saman með gaffli, hellti yfir salatið og blandaði.

IMG_7645

 

Ég setti svo salatið í skálina sem ég ætlaði að bera það fram í (það má alveg blanda það beint í skálinni en ég er svoddan subba að mér finnst snyrtilegra að nota aðra skál). Tók svo bita af parmesanosti og skar nokkrar þykkar sneiðar utan af honum með ostaskera beint yfir melónusalatið.

IMG_7668

 

Huggulegasta salat bara …

IMG_7698

… en kannski er það bara birtan frá kertinu sem gerir það jólalegt.

 

Melónusalat með hráskinku

1/2 lítil vatnsmelóna

1/2 hunangsmelóna

1/2 gul melóna (nota má aðrar melónur, eða bara eina tegund)

150 g góð hráskinka

lófafylli af fjallasteinselju eða klettasalati (einnig má nota basilíku)

1 msk balsamedik

2 msk góð ólífuolía

pipar

salt

40-50 g parmesanostur

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s