Bara kartöflur

Rétt rúmur mánuður til jóla. Og nei, ég er svo sannarlega ekki byrjuð á neinum jólaundirbúningi, ekki fyrir mig þótt ég hafi reyndar verið að elda og mynda dálítið af jólamat og jólabakstri að undanförnu, það var fyrir MAN og fleiri. Ég nenni ekki að láta jólin yfirtaka lífið í marga mánuði; helst vildi ég bara hafa þau í þessa þrettán daga sem þau eru en eitthvað þarf maður nú að undirbúa … En það kemur ekki strax.

Ekki misskilja, jólin eru alveg ágæt og ég hlakka til jólanna og svona en fyrir mér eiga þau alls ekki að vera ,,fullkomin“ og ég geri bara það sem ég nenni og hef tíma til hverju sinni. Og það er mikið að gera í vinnunni núna og mikið að gera heima í ýmsum verkefnum svo að ef ég hef tíma fer hann ekki í jólaundirbúning. Ég hef lært það á bara töluvert langri ævi að jólin koma nú yfirleitt, sama hvort maður gerir mikið eða lítið. Það hefur komið fyrir að ég baka sautján sortir af smákökum fyrir jólin (en það er að vísu langt síðan) ef ég er í miklu bökunarstuði en það hefur líka gerst að ég hafi bara bakað eina eða tvær. Hvorttveggja var fínt.

Þannig að nei, enginn kökubakstur núna eða jólasælgæti eða neitt svoleiðis. Sennilega kemst ég í þann gír í kringum 20. desember. Í staðinn fær einfaldleikinn að ráða og hér er uppskrift að kartöflugratíni. Það kemur alveg fyrir að ég borða eitthvað af þessu tagi sem aðalrétt, þá með grænu salati og kannski ögn af brauði, en þetta er auðvitað líka fínasta meðlæti.

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 200°C.

IMG_4007

 

Þetta er frekar lítill skammtur, ég var með svona 500-600 g af meðalstórum kartöflum, svo að ég notaði frekar lítið eldfast form sem ég smurði vel með smjöri. Ég var ekkert að flysja kartöflurnar, þetta er frekar rústik gratín svo það passar vel, en auðvitað má alveg flysja þær. Ég notaði mandólín til að skera kartöflurnar í 2-3 mm þykkar sneiðar, þær mega ekki vera þykkari. Auðvitað er hægt að nota beittan hníf en ef mandólín er til er það einfaldast og þykktin verður jöfnust. Ég notaði ekki endana á kartöflunum.

Ég var líka með væna lófafylli af basilíkublöðum sem ég grófsaxaði, 40 g af parmesanosti, 200 ml af rjóma, nýmalaðan pipar og salt og 50 g af smjöri (hluti af því fór til að smyrja formið).

IMG_4003

 

Ég raðaði svona helmingnum af kartöflusneiðunum í formið og lét þær skarast, kryddaði með pipar og salti, stráði rúmlega helmingnum af basilíkunni yfir og þriðjungi af ostinum. Svo raðaði ég afganginum af kartöflunum ofan á, kryddaði, dreifði afganginum af basilíkunni yfir og svo afganginum af parmesanostinum.

IMG_4012

 

Svo hellti ég rjómanum jafnt yfir og setti svo smáklípur af smjöri ofan á. Bakaði gratínið á næstneðstu rim í – tja, ætli það hafi ekki verið 50-60 mínútur? En tíminn fer ekki síst eftir því hvað formið er stórt og kartöflulagið þykkt.

IMG_4033

 

Það ætti að líta svona út þegar það er tilbúið (eða svona vil ég láta það líta út) og það þarf að vera bakað í gegn; það má prófa það með því að stinga hníf ofan í kartöflurnar. Hann ætti að renna í gegnum þær næstum eins og mjúkt smjör.

IMG_4035

 

Ég tók svo kartöflugratínið út og bar það fram með góðu grænu salati.

IMG_4052

 

Smjör, rjómi, parmesan og kartöflur – nei, þetta er nú engin megrunarfæða. En gott er það. Ef maður er með þokkalegar kartöflur …

En hey, þetta mætti nú alveg hafa með jólasteikinni, þess vegna.

 

Kartöflugratín með basilíku

kartöflur, meðalstórar, 500-600 g (eða 1 kg ef maður er að gera fyrir 4-6)

50 g smjör

pipar

salt

lófafylli af basilíkublöðum

40 g parmesanostur

200 ml rjómi

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s