Svolítið sumarlegt kannski

Ég sit hérna og bíð eftir að nýi fíni Bosch-ísskápurinn minn sem ég var að fá áðan verði búinn að standa upp á endann nógu lengi til að mér sé óhætt að setja hann í samband og ég geti farið að raða í hann og skipuleggja. Það varð ekki komist hjá því að fjárfesta í nýjum því sá gamli var a) hættur að lokast alminlega, sem hefur ekkert góð áhrif á hitastigið b) með hitamæli sem sýndi alltaf 4°C, sama þótt skápurinn væri búinn að standa opinn í hálftíma c) allar skúffur brotnar eða sprungnar og d) án handfangs síðan ég opnaði hann einu sinni með – ja, ekkert voðalegum látum, fannst mér nú, en ég stóð allavega allt í einu með handfangið í greipinni.

Já, ókei, ég er brussa og geng ekkert óskaplega mildilega um í eldhúsinu. Hamfarakokkur, mundi einhver segja.

Nýi skápurinn er líka töluvert hærri en sá gamli og það þýðir að nú þarf ég að finna einhvern stað fyrir allt dótið sem var uppi á þeim gamla. Eða ætti ég kannski að losa mig við það … Ónei, ætli verði nokkuð af því. En þetta eru nú mest ýmis spesíalíseruð kökuform sem ég nota sjaldan. Ætli ég reyni ekki að bæta við hillum í búrinu í staðinn.

En á meðan ég bíð set ég hér uppskrift að – nja, ekki pítsu, frekar böku. Ég var reyndar ekki að gera hana núna, þetta er síðan í haust og kannski er hún ekki nógu vetrarleg en það er nú ágætt að láta tómata og basilíku minna sig á sumarið … Svo er þetta frekar fljótlegt og einfalt því ég notaði bara frosið smjördeig í botninn. Þetta gæti alveg verið máltíð með salati eða súpu en ég hef reyndar líka haft svona böku sem meðlæti, til dæmis með ýmsu kjöti.

Ég byrjaði á að taka smjördeigspakkann (5 plötu pakka) úr frysti, dreifði úr plötunum á vinnuborði og lét þær þiðna – það tekur kannski 15 mínútur eða svo. Hitaði á meðan ofninn í 200°C.

IMG_9164

Það er allavga eitt sem er nauðsynlegt og það eru góðir tómatar. Gjarna plómutómatar en það er þó ekki nauðsynlegt. En þeir þurfa að vera vel þroskaðir og hárauðir og gjarna farnir aðeins að mýkjast. Ekki nota ljósrauða (eða nærri litlausa), harða og bragðlausa eða bragðlitla tómata. Og helst eiga þeir aldrei að hafa komið nálægt ísskáp.

Ég átti fimm góða plómutómata og byrjaði á að skera þá í tvennt og skóf svo úr þeim fræin og safann með skeið. Það er hægt að nota þetta t.d. í súpu eða sósu ef maður vill en í þetta skipti henti ég því nú bara. Ég stráði svolitlu salti á skurðflötinn á tómötunum til að draga út safa, raðaði þeim á eldhúspappír með skurðflötinn niður og lét standa smástund. Á meðan setti ég 1 msk af smjöri (eða ólífuolíu)  í lítinn pott, saxaði hvítlauk smátt og setti út í, hitaði þetta saman og tók svo af hitanum og lét kólna ögn.

IMG_9165

 

Ég tók svo smjördeigsplöturnar, sem voru þiðnaðar, lagði þær á hveitistráð borð þannig að þær sköruðust aðeins, þrýsti brúnunum saman með fingurgómunum og flatti deigið út í ferhyrning, um 25×25 cm. Snyrti brúnirnar með beittum hníf og setti deigið á pappírsklædda bökunarplötu. Penslaði það með hvítlaukssmjörinu, ekki alveg út á brúnir.

IMG_9169

Ég stráði 1/2 tsk af þurrkuðu óreganói (eða basilíku ) yfir. Tók svo eina kúlu af ferskum mozzarellaosti, skar hann í sneiðar eða bita og lagði á botninn og stráði svo 3-4 msk af nýrifnum parmesanosti yfir.

IMG_9175

Ég skar svo tómathelmingana í báta og raðaði þeim ofan á. Stráði meiri parmesanosti yfir og malaði svartan pipar yfir allt saman. Setti bökuna í miðjan ofninn og bakaði í um 30 mínútur.

IMG_9185

Ég tók svo bökuna út og stráði grófrifnum basilíkublöðum yfir.

IMG_9199

 

Jújú, þetta er nú alveg í lagi þótt það sé vetur.

IMG_9247

 

Það mætti svosem hafa ýmislegt fleira eða annað ofan á – pepperóní, ólífur, sveppi, allt þetta venjulega pítsuálegg – en tómatarnir og osturinn dugðu alveg, ásamt basilíkunni.

 

Tómat- og basilíkubaka

1 pakki frosið smjördeig

5 vel þroskaðir plómutómatar (eða aðrir tómatar)

salt

1 msk smjör eða ólífuolía

1 hvítlauksgeiri

örlítið hveiti

½ tsk þurrkuð basilíka eða óreganó

25-40 g g nýrifinn parmesanostur

1 mozzarellakúla

nýmalaður pipar

lítil lófafylli af basilíkublöðum

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s