Kryddað og sætt í slagviðri

 

Ég er heima, hóstandi og hnerrandi – er semsagt óttalegur bjálfi (í norðlenskri merkingu) þessa dagana, og hef ekkert betra að gera en að lesa mataruppskriftir og hugsa um mat – það geri ég reyndar mikið hvort eð er. Og ef ég væri hressari og með betri matarlyst væri ég sennilega í eldhúsinu að útbúa eitthvert góðgæti. En ég er ekkert búin að vera þar í morgun nema ég bakaði nokkrar flatbrauðskökur af því að ég var orðin brauðlaus. (Ég er reyndar að verða kaffilaus líka og því bjarga ég ekki svo auðveldlega.)

Þetta er allavega ekki tíminn fyrir einhverjar léttar og sumarlegar uppskriftir, salöt og svoleiðis góðgæti, hvorki vegna heilsunnar né veðursins. Það ættu frekar að vera pottréttir, matarmiklar súpur, brauð, eitthvað svoleiðis. En þetta er líka góður tími fyrir nasl á borð við kryddaðar og karamellugljáðar hnetur. Uppskriftin sem hér kemur var reyndar alls ekki gerð fyrir hausthret eða vetrarkvöld, heldur fyrir fótboltagláp – ég var með þetta í þætti um mat fyrir Evrópukeppnina í júníblaði MAN – en hún á sannarlega ekki verr við núna.

Það má nota ýmsar tegundir af hnetum og fræjum, bara það sem til er hverju sinni, en ég var með pekanhnetur, valhnetur, möndlur, kasjúhnetur og graskersfræ.

Þetta er alls ekki sykurlaust svo ég smakkaði það ekki sjálf þótt það væri freistandi en smakkararnir mínir voru allavega ánægðir.

_mg_0578

Ég byrjaði á að hita ofninn í 175°C. Blandaði svo saman 100 g af pekanhnetum, 100 g af valhnetum, 100 g af möndlum, 100 g af kasjúhnetum og 100 g af graskersfræjum saman í skál.

_mg_0579

Svo tók ég 3 rósmaríngreinar, strauk nálarnar af þeim, saxaði þær (nálarnar alltsvo) smátt og tók helminginn frá og geymdi. Blandaðu hinu saman við hneturnar, ásamt 1 msk af chilikryddblöndu (ekki chilipipar, nema þið viljið hafa þetta alveg veeeerulega sterkt) og 1 tsk af flögusalti.

_mg_0581

Svo tók ég eina litla appelsínu, kreisti safann úr henni yfir, bætti við 3 msk af hunangi (mætti líka vera hlynsíróp) og 4 msk af púðursykri og blandaði öllu vel saman með sleikju.

_mg_0586

Ég dreifði svo úr hnetublöndunni á pappírsklædda bökunarplötu og bakaði þetta í miðjum ofni í um 10 mínútur.

_mg_0591

Þá tók ég plötuna út, hrærði vel í hnetunum og dreifði úr þeim aftur og bakaði í 8-12 mínútur í viðbót, eða þar til þær höfðu tekið góðan lit og voru karamelliseraðar og gljáandi en ekki farnar að brenna – best er að fylgjast vel með þeim síðustu mínúturnar.

_mg_0597

Ég lét þær kólna í smástund á plötunni en hellti þeim svo á disk eða aðra plötu og braut þær í sundur með höndunum. Setti þær svo í skál.

_mg_0636

Ristaðar kryddhnetur

 

100 g pekanhnetur

100 g valhnetur

100 g möndlur, afhýddar

100 g kasjúhnetur

100 g graskersfræ

3 rósmaríngreinar

1 msk chilikrydd (ekki chilipipar)

flögusalt

safi úr 1 lítilli appelsínu

3 msk þunnt hunang eða hlynsíróp

4 msk púðursykur

One comment

  1. […] Þetta eru semsagt súkkulaðihúðaðar möndlur. En ef maður vill frekar öðruvísi möndlur, þá má nú finna uppskriftir að þeim líka. Til dæmis brenndum möndlum eða söltuðum möndlum eða einhverju slíku. Jafnvel kryddaðri hnetublöndu. […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s