Í hádeginu í gær hafði ég ekki farið í búð í nokkra daga vegna lasleika, veðrið var ömurlegt og birgðastaðan í ísskápnum var eitthvað farin að versna; þegar ég opnaði hann var þar fátt að sjá af ferskmeti nema poka af spínati sem farið var að slappast, ríflega hálfa ösku af sveppum sem sama mátti segja um (en eins og ég hef oft sagt batna þeir nú bara við það) og tvo vorlauka.
Ég horfði á þetta, hugleiddi hvað ég ætti í frystiskápnum niðri í geymslu og í jarðskjálftabirgðunum mínum (sem miðast við að það gæti nú komið Suðurlandsskjálfti eða þaðan af verra) og svo tók ég spínatið og vorlaukinn út, náði í dós af cannellinibaunum sem var í jarðskjálftabirgðunum og rölti svo niður í geymslu og sótti frosna mínútusteik (85 grömm, mjög þægilegt fyrir einbúa). Hún var nú bara látin þiðna á eldhúsbekknum til kvölds. Meira um það á eftir.
En þetta var semsagt leiðangur í þrjá skápa, ísskápinn, frystiskápinn og jarðskjálftabirgðaskápinn (ókei, það er skúffa en hún er í skáp).
Svo tók ég hrærivélina og hrærði saman dálítið rúgmjöl og heilhveiti og salt og olíu og sjóðandi vatn í þykkt deig sem ég flatti út og bakaði nokkrar flatkökur, því það var orðið brauðlaust líka. Á meðan þær væru að kólna bjó ég til spínat-baunamauk.
Ég saxaði svo vorlaukana og tvo eða þrjá hvítlauksgeira og steikti á pönnu í 2 msk af ólífuolíu í nokkrar mínútur við meðalhita.
Svo setti ég spínatið (svona 175-200 g) á pönnuna, lagði lok ofan á, lækkaði hitann og lét krauma í 2-3 mínútur.
Ég hellti svo öllu af pönnunni í matvinnsluvélina. Síðan opnaði ég cannellinidósina, hellti baununum í sigti og lét renna af þeim og setti þær svo út í, ásamt safa úr hálfri sítrónu og 1 msk af balsamediki. Maukaði þetta mjög vel saman og kryddaði svo með 1/2 tsk af kummini, cayennepipar á hnífsoddi og pipar og salti eftir smekk.
Þar með var maukið tilbúið og ég borðaði það í hádeginu með flatbrauðinu. – Ef maður ætlar bara að hafa það sem ídýfu er ekki verra að krydda það nokkuð mikið en ég hafði kryddað það fremur milt því að ég ætlaði líka að hafa það sem meðlæti.
Um kvöldið tók ég svo mínútusteikina, sem var þiðnuð, kryddaði hana með salti og nýmöluðum svörtum pipar og lét standa smástund. Á meðan bræddi ég 2 msk af smjöri á pönnu, skar sveppina niður og lét þá krauma á pönnunni í nokkrar mínútur og kryddaði með pipar og salti.
Ég ýtti svo sveppunum út til hliðanna, setti hálfa matskeið af smjöri til viðbótar í miðjuna, hækkaði hitann dálítið og steikti kjötið í svona 1 1/2 mínútu á hvorri hlið. Tók það svo af pönnunni og lét það bíða í 2-3 mínútur.
Á meðan setti ég vænan skammt af cannellini-spínatmaukinu á disk, dreifði sveppunum í kring, skar svo kjötið í þunnar sneiðar og raðaði ofan á. Ég var líka búin að finna steinseljukvist í ísskápnum og notaði hann til að skreyta. En það er nú ekkert nauðsynlegt.
Þetta var nú bara ljómandi fínt alveg. Og ef ég hefði verið veik lengur hefði ég nú örugglega getað fundið eitthvað fleira (jæja, eða bara fengið einhvern afkomenda minna til að skjótast í búð fyrir mig). En það var óþarfi.
Og það er eitthvað eftir af maukinu, finn örugglega einhver not fyrir það næstu daga.
Cannellini-spínatmauk með nautasteik (eða án)
Maukið:
2-3 hvítlauksgeirar
2 vorlaukar
2 msk ólífuolía
175-200 g spínat
1 dós cannellinibaunir
safi úr ½ sítrónu
1 msk balsamedik
½ tsk kummin
cayennepipar á hnífsoddi
pipar og salt
*
Mínútusteik með sveppum
80-100 g meyrt nautakjöt (mínútusteik)
nýmalaður svartur pipar
salt
2½ msk smjör
150 g sveppir
e.t.v. steinselja