Sítrónur ofan á brauð (eða kex)

Ég sendi í vor frá mér litla bók sem þið kannist kannski við og heitir Eitthvað ofan á brauð. Þetta er ekki smurbrauðsbók eins og mætti kannski halda, heldur einfaldlega bók með uppskriftum og hugmyndum að ýmiss konar góðgæti sem er hægt að setja á brauð eða í samlokur, nota sem ídýfu, smyrja á kex og þess háttar. Þarna eru til dæmis salöt, kæfur, maríeruð síld, grafið kjöt, hummusar og gvakamóle og annað mauk af ýmsu tagi, smurostar, sultur, smjör (þið ráðið hvort þið túlkið það sem eintölu- eða fleirtöluorð en það er vissulega fleiri en ein tegund af smjöri í bókinni) og bara allskonar.

Fyrir ykkur sem eruð grænkerar/vegan eða eigið t.d. börn sem eru á þeirri línunni, þá er töluvert af þess konar uppskriftum í bókinni 0g þær eru merktar með sérstöku tákni sem segir að uppskriftin henti fyrir grænkera eða að auðvelt sé að gera hana þannig. Ég fór að hugsa um það á eftir að kannski hefði ég líka átt að merkja sérstaklega þær glútenlausu og þær sykurlausu og þær mjólkurafurðalausu og þær eggjalausu og allt það …

Eiithvad_ofan_a

Uppskriftin sem hér kemur er úr bókinni en hún er ekki fyrir grænkera og ekki sykur-, mjólkurafurða- eða eggjalaus (en hún er samt glútenlaus, sko). Og þetta er eitt af smjörunum, svona að nafninu til. Ókei, ein smjörtegundin fyrir þá sem eru ósáttir við fleirtölumyndina. Ein af þessum einföldu grunnuppskriftum sem hægt er að útfæra á ýmsa vegu en er samt (finnst mér) eiginleg best í upprunalegri mynd.

Það er fátt sem ég sakna eftir að ég hætti að borða sykur en eitt af því er sítrónusmjör eða lemon curd. Það er í rauninni afskaplega einfalt að gera sítrónusmjör, aðalatriðið er að halda réttu hitastigi til að smjörið þykkni en fari ekki að skilja sig. Sítrónusmjör er gott eitt sér á kex, ristað brauð eða snittur en það er líka frábært í kökukrem og bökufyllingar, t.d. hrært saman við gríska jógúrt og/eða rjóma, á pönnukökur og vöfflur, til að bragðbæta ís … og bara eiginlega hvar sem er.

Ég fer að borða það aftur þegar ég er komin á elliheimilið.

_mg_8501

Ég byrjaði á að setja 4 eggjarauður, fínrifinn börk af 2 sítrónum, 150 ml af nýkreistum sítrónusafa og 100 g af sykri í pott, hrærði vel og hitaði rólega á meðan. Hitinn þarf að vera mjög vægur og ef ekki er hægt að stilla helluna á mjööög lítinn hita er best að setja allt í skál yfir vatnsbaði. Hrærði nærri stöðugt og gætti þess vel að blandan færi hvergi nálægt suðumarki.

_mg_8504Ég var búin að skera 125 g af köldu smjöri í litla bita. Setti einn bita út í sítrónublönduna þegar hún var orðin snarpheit og hrærði þar til smjörið var bráðið. Þá setti ég næsta bita út í og síðan koll af kolli, þar til allt smjörið var komið út í og sítrónublandan farin að þykkna.

_mg_8513

Þá hellti ég henni í gegnum sigti og setti hana svo í krukku og kældi.

_mg_8535

Ekki hafa áhyggjur þótt sítrónusmjörið virðist frekar þunnt, það þykknar þegar það kólnar.

_mg_3241

Svo er til dæmis hægt að nota þetta í ís – ég tók hér vanilluís, lét hann mýkjast svolítið, hrærði slatta af sítrónusmjöri saman við, frysti aftur og bar svo fram með meira sítrónusmjöri (það sem er á myndinni var reyndar keypt í búð).

*

Sítrónusmjör

4 eggjarauður

fínrifinn börkur af 2 sítrónum

150 ml sítrónusafi (úr 2-3 sítrónum)

100 g sykur

125 g kalt smjör

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s