Desertpítsa

Tölvan mín hrundi í vor og ég þurfti að fá mér nýja. Ég hélt að það hefði tekist að bjarga öllum gögnunum af henni – það voru reyndar aðallega myndir og allt of mikið af þeim – auk þess sem ég átti nú afrit af meirihlutanum á Dropbox. Og sennilega eru nú myndirnar allar þarna einhvers staðar en það er slatti sem ég hef ekki fundið. Ekkert mikilvægt þó, þetta eru ekki myndir af tilbúnum réttum, heldur myndir sem ég tók þegar ég var að elda. Það gerir nú ekki mikið til nema kannski fyrir bloggið. En allavega lærði ég af reynslunni og nú fara allar myndir strax inn á dropboxið.

Þess vegna á eftir að koma hér inn slatti af uppskriftum þar sem er aðeins mynd af tilbúnum rétti. Kannski saknar enginn eldamennskumyndanna – það getur vel verið að ég sé stundum með of mikið af þeim – en mér finnst sjálfri betra að hafa þær.

En hér er allavega ein slík uppskrift. Hún er reyndar mjög einföld og satt að segja ekki þörf á neinum myndum af undirbúningi og eldamennsku. Þetta er uppskrift sem ég gerði fyrir vorblað Sölufélags garðyrkjumanna til kynningar á íslenskum berjum. Sem eru mjög góð en þegar þau fást ekki má náttúrlega nota önnur. Og þótt ég notaði jarðarber og brómber á pítsuna má alveg nota aðrar sortir, t.d. bláber og jafnvel rifsber. Eða ávexti á borð við ferskjur og apríkósur í bland.

Þetta er svosem ekki hefðbundinn eftirréttur og á líklega betur við á sumardegi – það er jafnvel hægt að baka pítsuna á lokuðu grilli. En mér finnst hún góð á öllum árstímum. Og svo er hún sykurlaus.

berjapitsa

Berjapítsa

pítsudeig, heimatilbúið eða keypt

2 tsk ólífuolía

1 brie-ostur

6-8 jarðarber

100 g brómber

blöð af 1-2 timjangreinum (má sleppa)

nýmalaður pipar

basilíkulauf

1-2 tsk gott balsamedik

Ég hitaði ofninn í 230°C og hitaði pítsusteininn minn í honum en það má líka nota  bökunarplötu. Botninn þarf að vera þunnur og það er best að nota útflatt, upprúllað pítsudeig, keypt tilbúið en annars er deigið flatt mjög þunnt út og sett á bökunarpappír.

Ég skar út hring úr deiginu, svona upp á útlitið, en það má líka notað deigið eins og það kemur úr umbúðunum. Ég penslaði svo pítsubotninn með ólífuolíu. Skar brie-ostinn í þunnar sneiðar og dreifði þeim á botninn. Svo hreinsaði ég jarðarberin og skar þau í sneiðar. Dreifði þeim yfir ostinn, ásamt brómberjunum, stráði timjani yfir  (fersku ef maður á það til, annars má bara sleppa því) og malaði dálítinn pipar yfir allt saman.

_mg_4837

Svo bakaði ég pítsuna í miðjum ofni í 6-7 mínútur. Stráði basilíkublöðum á hana (ég var með dvergbasilíku en venjuleg dugir alveg, kannski rifin niður) og dreypti dálitlu balsamediki yfir.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s