Vissuð þið að það er hægt – og meira að segja mjög einfalt – að gera eggjalaust majónes og nota bara mjólk í staðinn fyrir eggjarauðu? Það er reyndar ekkert voðalega langt síðan ég komst að þessu. Og það svínvirkar.
Þess vegna er hér uppskrift að spænsku hvítlauksmajónesi eða alioli/allioli. Reyndar er alveg hefðbundið spænskt alioli eggjalaust líka, bara gert úr hvítlauk, salti og ólífuolíu. Ég hef gert þannig en finnst það eiginlega ekki ganga almennilega upp nema það sé gert í mortéli og það er aðeins meira vesen. Þetta er nákvæmlega ekkert vesen. Og svo er uppskrift að steiktum kartöflum með, svona til að hafa eitthvað til að dýfa í alioli-ið.
Hér eru heldur engar myndir af undirbúningnum/matargerðinni; ekki vegna þess að ég finni þær ekki eins og ég talaði um í gær, heldur einfaldlega vegna þess að ég steingleymdi að taka þær. En það kemur nú ekki að sök.
Ég setti einfaldlega 75 ml af mjólk, 1 stóran hvítlauksgeira, saxaðan smátt, 1 tsk af dijonsinnepi, 1 tsk af vínediki, salt og svolítinn pipar í matvinnsluvél (eða blandara, eða það má líka nota töfrasprota) og þeytti saman. Svo hellti ég 200 ml af ólífuolíu smátt og smátt saman við og þeytti stöðugt á meðan, þar til majónesið var þykkt og slétt.
Ef maður vill mildara bragð (minna ólífuolíubragð) má nota bragðmilda matarolíu til helminga, eða í þeim hlutföllum sem manni sýnist.
Flóknara er það nú ekki.
Svo voru það kartöflurnar: Ég sauð 400 g af litlum kartöflum. Helst nýjum, en allavega ekki með mjög þykku hýði. Skar þær í tvennt (nema þetta sé algjört smælki) og sauð þær þar til þær voru meyrar. Hellti vatninu af þeim og lét þær standa smástund.
Svo hitaði ég 3 msk af ólífuolíu á pönnu og steikti kartöflurnar við fremur háan hita þar til þær höfðu tekið góðan lit. Hrærði oft í þeim á meðan. Kryddaði þær með pipar og salti og bar þær svo fram heitar eða volgar með alioli.
Alioli
75 ml mjólk
1 stór hvítlauksgeiri, saxaður smátt
1 tsk dijonsinnep
1 tsk vínedik
salt og örlítill pipar
200 ml ólífuolía (eða blanda)
*
Steiktar kartöflur
400 g litlar, nýjar kartöflur
3 msk ólífuolía
pipar og salt