Ég fór að kjósa áðan – og nei, ég er ekki að fara að byrja á neinum kosningaáróðri hér nema bara að hvetja alla til að nýta lýðræðisleg réttindi sín til að hafa áhrif (og nei, það er ekki sama hvað maður kýs). En ég fór gangandi á kjörstað, enda ekki langt frá mér í Breiðagerðisskólann, og það rigndi á mig. Svo fór ég ekki beint heim, heldur labbaði yfir í Skeifuna og það rigndi meira. Fór í Hagkaup og keypti inn og gekk svo í átt að Grensásbiðstöðinni með innkaupin og bölvaði þegar það rann upp fyrir mér að það var langt í næsta strætó heim. Ég hefði nú bara rölt þetta nema ég er hálfhölt og það rigndi enn. En þá var ég svo heppin að gömul skólasystir og maðurinn hennar áttu leið um og þau kölluðu í mig og skutluðu mér heim.
En ég var samt hálfhrakin og blaut þegar ég kom heim og þegar ég var búin að ganga frá innkaupunum ákvað ég að fá mér heitt kakó. Ekki alveg hefðbundið þó, heldur sykurlaust og svolítið styrkt … (það er nú kosningadagur. Og ég var blaut).
Þetta var bara fyrir mig svo að ég byrjaði á að setja 200 ml af mjólk og 1 msk af bragðmildri kókosolíu í litla kastarolu. Það má alveg nota smjör líka, vildi bara svo til að ég var að kaupa kókosolíu í Hagkaup svo að hún var þarna … Svo hitaði ég þetta að suðu.
Svo setti ég 2 steinhreinsaðar döðlur, tæplega sléttfulla matskeið af kakódufti og ögn af salti í míní-matvinnsluvél (alltsvo, hvað kallar maður aftur svona sem tilheyrir töfrasprota? venjuleg matvinnsluvél er allt of stór fyrir skammt handa einum en það má bara nota töfrasprotann). Bætti svo við 1 msk af Calvados. Það má líka vera koníak, romm eða annað en það má líka sleppa áfenginu alveg og bragðbæta með t.d. vanillu og/eða kanil. Svo maukaði ég þetta vel saman.
Svo hellti ég sjóðheitri mjólkinni saman við og blandaði vel. Þeytti á meðan svolítinn rjóma (má sleppa).
Og þá er bra að hella kakóinu í bolla, setja dálítinn rjóma ofan á (eða sleppa því) og sigta e.t.v. ögn af kakódufti yfir.
*
Heitt kakó (sykurlaust)
200 ml mjólk
1 msk kókosolía eða smjör
2 döðlur, steinhreinsaðar
1 msk kakóduft, sléttfull
örlítið salt
1 msk Calvados eða annað áfengi (eða vanilla og/eða kanell eftir smekk)
þeyttur rjómi
[…] Nú, eða Calvados, það myndi ég gera. En þetta er samt ekki drykkur fyrir mig því sykurlaus er hann ekki; ég geri mér öðruvísi súkkulaðidrykk. […]