Köld minning um heitan drykk

Fyrir mörgum árum var ég í Tórínó á Ítalíu á óvenju köldum vordegi; hafði átt von á betra veðri og var frekar illa klædd og búin að vera lengi á rölti. Mig langaði í eitthvað heitt og verulega hressandi og nærandi að drekka og einmitt í þeim hugleiðingum rakst ég á Caffè al Bicerin, rótgróið kaffihús þar sem sumir segja að bicerin – einkenniskaffidrykkur Tórínóbúa, þriðjungur sterkt kaffi, þriðjungur heitt súkkulaði og þriðjungur mjólk eða rjómabland – hafi fyrst orðið til. Þetta stóðst ég ekki, pantaði mér bicerin og varð ekki aftur kalt þann daginn.

Þessi drykkur hér er búinn til undir áhrifum frá bicerin-minningum en er þó býsna ólíkur; hann er til dæmis kryddaður og ekki borinn fram í lögum í glæru glasi eða bolla. En hressandi og styrkjandi er hann og á sérlega vel við íslenskan vetur. Það þarf ekki stóran skammt af honum. Og engin þörf á að styrkja hann neitt en ef maður er þannig stemmdur er svosem ekkert að því að bæta við smáskvettu af koníaki eða rommi eða kaffilíkjör eða einhverju slíku.

Nú, eða Calvados, það myndi ég gera. En þetta er samt ekki drykkur fyrir mig því sykurlaus er hann ekki; ég geri mér öðruvísi súkkulaðidrykk.

Ég finn reyndar hvergi myndirnar sem ég tók af undirbúningnum. En ég held að það komi nú ekki að sök.

2017-11-12 11.09.02

Ég byrjaði á að búa til vel sterkt kaffi (það má líka nota espressoduft og heitt vatn) og setti það í pott ásamt 125 ml af mjólk, 125 ml af rjóma, 1 msk af púðursykri, 1/2 tsk af kanel, cayennepipar á hnífsoddi og 1/4 tsk  af salti. Hitaði rólega að suðu og hrærði oft í á meðan. Svo tók ég pottinn af hitanum, braut súkkulaðið í bita og setti út í.

heitt súkkulaði

Svo hellti ég súkkulaðidrykknum í bolla (2-4, eftir því hvað þeir eru stórir, miðað við þessa stærð væri þetta í tvo bolla). Svo þeytti ég 125 ml af rjóma og bar fram með, ásamt litlum sykurpúðum og súkkulaðidropum eða söxuðu súkkulaði til að strá yfir.

heitt súkkulaði (6)

Það má alveg kæla afganginn af drykknum ef einhver er, geyma til næsta dags og hita upp.

*

Heitt kryddað mokkasúkkulaði

200 ml espressokaffi (eða vel sterkt kaffi)

150 ml mjólk

250 ml rjómi

1 msk púðursykur

1/2 tsk kanell

cayennepipar á hnífsoddi (eða eftir smekk)

1/4 tsk salt

75 g suðusúkkulaði

litlir sykurpúðar (má sleppa)

súkkulaðidropar (eða saxað súkkulaði)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s