Ég er svo illa að mér í ofurfæðufræðum að ég veit ekkert hvaða ber teljast til ofurfæðu. Jú, bláber, það er nú svo oft hamrað á því, en um önnur ber, innflutt, innlend eða heimaræktuð, veit ég svosem ekki neitt. Ekki nema að mér þykja þau yfirleitt nokkuð góð og flest eru þau nú frekar holl, hvort sem þau flokkast sem „superfood“ eða ekki. Enda gef ég nú yfirleitt ekki mikið fyrir slíka flokkun. Þetta er hvort eð er bara markaðshugtak og enginn raunverulegur vísindalegur bakgrunnur fyrir merkimiðanum „ofurfæða“. Eins og einhverntíma stóð í grein sem ég las í Guardian: „Few lies can be told in one word but „superfood“ manages it.“
Og bláber eru – þrátt fyrir ofurfæðustimpilinn – ekkert sérstaklega stútfull af vítamínum og næringarefnum og það má fá næringarefnin í þeim á miklu ódýrari hátt í öðrum ávöxtum og grænmeti. Þau eru hins vegar góð á bragðið og gera ýmiss konar rétti fallegri og girnilegri, en það er allt annað mál. Og þau eru sannarlega ekki óholl (nema kannski ef maður lætur nánast ekkert annað ofan í sig) og það sama gildir um svo til allt það sem flokkað hefur verið sem ofurfæða. Þetta er hollt og hentar vel sem hluti af daglegu fæði – með öðru. Maður á bara ekki að einblína á það.
En ég ætlaði ekkert að tala um ofurfæðu, ég ætlaði hins vegar að minnast á brómber. Sem ég hef semsagt ekki hugmynd um hvort flokkast sem ofurfæða og er líka bara nokk sama. Sennilega falla þau samt í þann flokk, þau eru C-vítamín- og trefjarík og jú, þau innihalda hátt hlutfall andoxunarefna (en það hefur aldrei verið vísindalega sannað að mikil neysla andoxunarefna hafi raunveruleg heilsubætandi áhrif). Þannig að þau eru sjálfsagt í ofurfæðuflokknum, að minnsta kosti ef maður er að selja þau …
En alveg burtséð frá því, þá þykja mér brómber góð. Og þau henta vel í marga rétti, ein sér eða með öðrum berjum – bæði í ábætisrétti og kökur, morgunverðarrétti og heilsudrykki til dæmis, en ekki síður í salöt og ýmsa ósæta rétti. Og hér er einmitt salat með brómberjum – það eru heil brómber í salatinu og maukuð brómber í salatsósunni. En nei, þetta er ekki vegan.
Fersk brómber eru best en það má alveg nota frosin, sérstaklega í sósuna. Og svo er auðvitað alveg hægt að nota einhver önnur ber líka.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Síðan hitaði ég svolitla olíu á pönnu, kryddaði tvær kjúklingabringur með herbes de provence (eða einhverri annarri kryddjurtablöndu), pipar og salti og brúnaði þær á báðum hliðum við góðan hita. Setti þær svo í eldfast mót (það má líka bara nota pönnuna ef hún má fara í ofninn), breiddi álpappír yfir og steikti þær í ofni í um 15 mínútur, eða þar til þær voru rétt eldaðar í gegn. Lét þær kólna og skar þær svo í sneiðar þvert yfir.
Svo tók ég 10-12 brómber og setti í matvinnsluvél eða blandara ásamt lítilli lófafylli af basilíkublöðum, 1 msk balsamediki, pipar og salti. Maukaði þetta og þeytti 3 msk af ólífuolíu smátt og smátt saman við. Svo má þynna brómberjasósuna með köldu vatni eftir þörfum, hún á þó að vera frekar þykk.
Ég setti svo 2-3 lúkur af salatblöðum á fat og dreifði síðan kjúklingi, 30-40 g af pekanhnetum og afganginum af brómberjunum yfir. Síðan dreypti ég dálitlu af brómberjasósunni yfir og bar afganginn af sósunni fram með.
Ekki slæmt.
*
Kjúklingasalat með brómberjum
2 kjúklingabringur
1 msk olía
½ tsk herbes de provence eða önnur kryddjurtablanda
pipar
salt
125 g brómber
lófafylli af basilíku
1 msk balsamedik
3 msk ólífuolía
kalt vatn eftir þörfum
klettasalat eða salatblanda eftir smekk
30-40 g pekanhnetur