Ég held að allt sem ég hef sett hér inn það sem af er janúar hafi verið vegan – eða auðvelt að gera vegan að minnsta kosti – en ég sagði nú um áramótin, minnir mig, að það væri nú ekki víst að alveg allt yrði af því taginu. Sem verður líka raunin, til dæmis í þessari uppskrift hér. En þetta er ekki hefðbundin útgáfa, langt frá því, og hollustan gleymist kannski ekki alveg …
Allir kannast við amerískar pönnukökur – sem eru reyndar lummur – með beikoni og vita að þær eru venjulega bornar fram með hlynsírópi og gjarna steiktum eggjum, kartöflum og fleiru. Hér er farið í aðra átt og avókadó og kryddjurtaolía haft með – en beikonið má auðvitað ekki vanta.
Beikonið, já. Ég notaði þykkt skorið, magurt lúxusbeikon, 250 grömm. Það má auðvitað nota öðruvísi beikon ef því er að skipta en þetta er örugglega næstum því hollt. En ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Raðaði beikonsneiðunum á pappírsklædda bökunarplötu og bakaði þær í um 15 mínútur, eða þar til þær voru orðnar stökkar; sneri þeim einu sinni.
Á meðan tók ég tvö lítil, vel þroskuð avókadó, afhýddi þau, steinhreinsaði og skar þau í báta. Kreisti safann úr einni sítrónu í skál og velti avókdadóbátunum upp úr blöndunni.
Ég gerði líka kryddjurtasósu: tók lófafylli af basilíkublöðum, lófafylli af saxaðri steinselju, svona sex valhnetukjarna, 1-2 hvítlauksgeira og rifinn börk af hálfri sítrónu, pipar og salt, setti í matvinnsluvél (eða blandara) og maukaði vel saman. Þeytti svo 75 ml af ólífuolíu saman við smátt og smátt.
Þá var komið að pönnukökunum: Ég blandaði saman 175 g af hveiti, 1 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda og 1/2 tsk af salti og hrærði svo lyftiefnum og salti og hrærði svo tveimur eggjarauðum og 300 ml af ab-mjólk saman við. Ég setti allt saman í matvinnsluvél en það má líka nota hrærivél eða handþeytara. Lét blönduna svo standa smástund.
Svo tók ég eggjahvíturnar tvær, stífþeytti þær og blandaði þeim gætilega saman við með sleikju.
Bræddi svo dálítið smjör á pönnu og steikti 3-4 lummur í einu við meðalhita. Hélt þeim volgum á meðan ég lauk við að steikja úr allri soppunni.
Svo staflaði ég lummunum/pönnukökunum á diska (3-5 í hverjum stafla) og setti beikonsneiðar, avókadóbáta og dálitla steinselju á milli. Dreypti kryddjurtaolíu yfir. Einnig má bera þetta fram hvert í sínu lagi svo að hver skammti sér sjálfur.
*
Amerískar pönnukökur með beikoni
175 g hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
2 egg, aðskilin
300 ml ab-mjólk eða súrmjólk
smjör til steikingar
*
250 g magurt beikon, helst þykkt skorið
2 lítil avókadó, vel þroskuð
1 sítróna
steinselja
*
Kryddjurtaolía
lófafylli af basilíku
lófafylli af saxaðri steinselju
6 valhnetukjarnar
1-2 hvítlauksgeirar
rifinn börkur af 1/2 sítrónu
pipar og salt
75 ml ólífuolía
[…] fyrir MAN – ég hef áður birt uppskriftir úr þessum þætti, hér, hér, hér, hér, hér, hér og hér – ég held að þetta sé sú seinasta en er ekki alveg […]